Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 14:53:39 (5910)

1998-04-29 14:53:39# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[14:53]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði ekkert nýtt í þessu máli. Fyrir liggur að umhvrh. Alþfl. sá ástæðu til þess, bæði í grg. með frv. og í þingræðu um það mál sem síðan var leitt til lykta af umhvn. þingsins, að láta það koma fram að vel komi til greina að nefndin sem hefur unnið að skipulagi miðhálendisins dragi mörkin, skæri úr um mörk þar, sem þau væru óljós, skipti landinu öllu upp í sveitarfélög. Um það er ekki nokkur minnsti vafi. Það hefur legið fyrir að mörkin hafa verið óljós í hugum fólks í viðkomandi sveitarfélögum og settur var sérstakur hópur að ósk svæðisskipulagsnefndarinnar, mig minnir á vegum forsrn. --- á vegum umhvrn., les ég af svipbrigðum hæstv. ráðherra hér --- til þess að gera tillögu til að skera úr um vafa.

Allt ber þetta að sama brunni. Forustumenn Alþfl. í ríkisstjórn á þeim tíma gengu að því opnum huga að marka þá braut sem hér er verið að leiða til lykta með ákvörðun um stjórnsýslu sveitarfélaga á miðhálendi Íslands.