Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 15:05:21 (5917)

1998-04-29 15:05:21# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[15:05]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson flutti um margt mjög góða ræðu og lyfti kannski á köflum umræðunni ögn þó að ég sé kannski ekki í öllum atriðum sammála henni.

Það er eiginlega þrennt sem ég vildi gera að umræðu í þessu stutta andsvari. Í fyrsta lagi að hv. þm. var tíðrætt um heildstætt svæðisskipulag og þar kannski greinir okkur á. Við erum ósammála um það hvort þetta heildstæða svæðisskipulag náist með þeim tillögum sem eru komnar fram.

Hv. þm. fjallaði heldur ekkert í ræðu sinni um tillögu til svæðisskipulags að hún verður vitaskuld ekki samþykkt nema öll sveitarfélögin samþykki hana. Annars er ekki möguleiki að staðfesta tillöguna þannig að öll sveitarfélögin eiga neitunarvald um að samþykkja það svæðisskipulag sem verið er að vinna að.

Þetta er kannski ekki aðalástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs í andsvari. Aðalatriðið er að hv. þm. talaði um að það frv. sem hæstv. umhvrh. hefur borið inn í þingið væri til þess að styrkja þetta svæðisskipulag. Ég hef verið að lesa í tillöguna og ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að það eitt að til sé nefnd með ákveðnum fjölda manna sem hafi umsagnarrétt getur á engan hátt fengið mig til þess að átta mig á því hvers vegna frv. af þessum toga sé til þess fallið að styrkja þetta svæðisskipulag. Ég kalla eftir því hvers vegna hv. þm. telur að það frv. sem hæstv. umhvrh. hefur borið inn í þingið sé til þess fallið að styrkja þetta svæðisskipulag. Það er mér alveg fyrirmunað að skilja sökum þess að mér virðist því einungis ætlað það hlutverk að veita umsögn og vera til. Kannski er það að hætti framsóknarmanna að lausnin á tilverunni sé að setja hana í nefnd.