Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 15:07:38 (5918)

1998-04-29 15:07:38# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[15:07]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að það þarf góðan vilja og góðan hug hjá þeim mörgu sveitarstjórnum sem hafa lagt til fulltrúa í vinnu að svæðisskipulagi miðhálendisins til þess að skila því verki í höfn. Ég á ekki von á öðru en það leiði til jákvæðrar niðurstöðu.

Ég hef reynt að fylgjast með hvernig nefndin hefur unnið. Ég hef sótt kynningarfundi á vegum hennar á fleiri en einum stað á landinu og ég hef lýst því í umræðu að vinnubrögð þessarar nefndar hafa komið mér að sumu leyti á óvart að því leyti að mér finnst menn hafa tekið á þessu verkefni ábyrgar en ég hafði óttast að yrði. Ég hef ekki svo miklar áhyggjur af því.

En það eru til heimildir um að setja svona vinnu í sérstaka svæðisskipulagsmeðferð eins og kunnugt er og menn hafa sem sagt lagagrunn og lagastoð til þess út af fyrir sig. Ég held að það skipti mjög miklu máli að sveitarfélögin sem þarna eiga hlut að máli í útfærslu skipulagsvinnunnar standi ábyrg að málinu þegar því er lokað með undirritun ráðherrans, standi að því og það sé sem sagt sú trygging sem ekki fengist með sjálfstæðu stjórnsýslusvæði að sæmilegur friður ríkti við grannana í byggðum svo ég bendi á þann flöt á málinu.

Hvað varðar hinn þáttinn sem hv. þm. vék að um frv. ráðherrans, þá sýnist mér að það geti ekki verið til hins verra að fá fulltrúa til viðbótar til að leggja inn orð og þetta eru kjörnir fulltrúar eða tilnefndir af Sambandi ísl. sveitarfélaga sem er má segja fulltrúavald sem þar er og af ráðherra.