Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 16:17:16 (5931)

1998-04-29 16:17:16# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[16:17]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Stefánssyni fyrir greinargóð svör um þetta málefni. Ég geri mér grein fyrir því og veit að hv. félmn. hefur farið yfir þetta frv., hverja grein þess fyrir sig. En ég er búinn að segja að ég sakna þess í þeirri umræðu sem við höfum átt og hefur farið fram að nánast ekkert hefur verið rætt um hinar greinarnar, það hefur verið nánast aðeins rætt um hálfa 1. gr. frv., búið. Það er það sem mér finnst vera að og auðvitað strandar allt á því.

Fjölmörg atriði eru til bóta í frv. og ég var að nefna þau hér. Mér finnst sanngjarnt að nefna það sem hv. félmn. hefur gert, það er margt til góðra bóta frá því sem áður var. Raunverulega þyrfti kannski fleira. Ég nefndi auðvitað 6. gr. Mér finnst vitlaust að það skuli ekki vera tekið á því að 50 manna sveitarfélag getur engan veginn ráðið við að sinna þeim verkefnum sem ætlast er til. Ég held að það sé bara vesaldómur af þinginu að klára það mál ekki og setja hreinlega inn að sveitarfélög skuli vera hæf til að sinna þeim verkefnum sem þeim ber og það miðist við ákveðinn fjölda íbúa. Það hlýtur að vera eitthvert lágmark í því, fjögur, fimm, sex hundruð manns.

Ég þakka fyrir svörin en ég vona að flestar sveitarstjórnir láti það verða sitt verk að hljóðrita fundi því að mikill ágreiningur hefur oft skapast um það að menn segja að einhver hafi sagt eitthvað um eitthvert málefni, m.a. nefndi ég málefni Skógarstrandarhrepps, þar sem er ágreiningur um sameininguna. Ég veit að ef það hefði verið hægt að skera úr með hljóðritun væri sá ágreiningur ekki á borðinu.