Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 21:24:04 (5938)

1998-04-29 21:24:04# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[21:24]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil enn fremur segja að sem betur fer á stór hluti höfuðborgarbúa griðland í kjördæmi mínu. Þeir koma þar vetur og sumar, þeir dveljast þar og þeir una þar glaðir við sitt og þeir eru sáttir við heimamenn þannig að þar er einn hugur á milli þessara tveggja hópa. Ég trúi því að þeir treysti vel landsbyggðarmönnum til þess að sveitarfélögin fari með þennan rétt.

Hér var minnst á Bláfjöllin. Ég kem í Bláfjöllin og mitt fólk til að njóta þar þjónustu alveg eins og höfuðborgarbúinn kemur á Flóamannaafrétt til að njóta þar þjónustu. Við höfum engar áhyggjur af því. Það er vakað yfir okkur. Það er til Skipulag ríkisins o.s.frv. þannig að ekki á að vera ástæða til þess að það verði mörg mistök.

Ég vil síðan segja að ég styð náttúruverndarmenn og marga áhugamenn um útivist til að njóta þess og þeir hafa til þess fullan frið.

Hér var minnst á veginn á Heklu. Hugsið ykkur þá dýrð á glæsilegum degi ef það væri komin slóð upp á Heklu, sem ég trúi að verði í framtíðinni, því þangað munu bæði þeir sem geta gengið og hinir vilja sækja. Mörg þjóðlönd hafa nýtt slíkar auðlindir til þess að þar verði vegslóði. Þar væri hægt að setja upp pósthús. Þetta yrði athyglisverðasta fjall og er athyglisverðasta fjall heimsins þannig að þetta er framtíðarsýn og þetta er draumur margra þeirra manna sem hv. þm. berst fyrir. Ég er ekki að biðja um að ríkið leggi í það peninga. Það er ástæðulaust. Vegslóðinn getur í eldgosi horfið á einni nóttu en fjallið yrði aðgengilegra á eftir og yrði frægara í sögu heimsins og það mundi komast inn í ferðamennsku Íslendinga í dag. Ég vil halda því fram að þetta sé hugsjón okkar útivistarmanna sem erum jafnaðarmenn í raun þótt hv. þm. hafi skipað sér í þá fylkingu sem ég hélt síst að hann mundi gera.