Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 21:26:32 (5939)

1998-04-29 21:26:32# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[21:26]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Í svari félaga míns, hv. þm. Guðna Ágústssonar, koma einmitt fram þau ríku áhersluatriði sem kalla á að fleiri en hann, hv. þm. og aðrir slíkir, komi að skipulagsmálum. Ég veit ekki hvort ég er að segja hv. þm. einhver tíðindi en fjallamennska hefur ákveðinn svip, ákveðinn blæ og ákveðnar hugsjónir. Má ég segja ykkur að gönguleiðin á Hvannadalshnjúk er lengsta gönguleið á háan tind í Evrópu án þess að þar sé skáli. Það er lengsta gönguleið án skála í Evrópu á háan tind. Þetta finnst fjallamönnum vera einstakt.

Hvernig á að bregðast við því þegar dugnaðarmenn á borð við Guðna Ágústsson mundu vilja reisa skála hálfa leiðina þar upp af því að það er svo gaman að keyra þangað og það er svo gaman að hafa pósthús þar og eyðileggja þetta aðdráttarafl? Ég get ekki stutt slíka skálabyggingu. Hins vegar er hætta á því að sveitarfélög geri það vegna tekna og vegna dugnaðarmanna eins og Guðna Ágústssonar. Vegur upp á Heklu sýnir hversu himinn og haf aðgreinir okkur Guðna Ágústsson og hversu gerólík sjónarmið við höfum til landsins til þeirra gæða að ganga á einstaka staði eins og sagt er um Heklu. En ég vil gera það án þess að hafa þá slóð varðaða stikum.

Þetta segir meira en öll orð um það hversu brýnt það er að þeir aðrir, ég er ekki að krefjast þess að hv. þm. Guðni Ágústsson skilji nokkuð í fjallgöngum, það mun ég aldrei gera, en ég krefst þess að hann og stuðningsmenn hans leyfi okkur hinum sem hugsum öðruvísi og höfum aðra hagsmuni að koma að þessum málum.