Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 21:31:21 (5941)

1998-04-29 21:31:21# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[21:31]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur misskilið orð mín. Ég hef aldrei talað fyrir því að deiliskipulag yrði tekið af sveitarfélögunum, hvorki í byggð né á miðhálendinu. Ég var að ræða um það að deiliskipulagið skyldi auglýst, ekki aðeins í sveitarfélaginu. Ef deiliskipulagið er inni á miðhálendinu þá skuli það auglýst sem víðast og líka hjá skipulagsstjóra. Ég tel að svæðisskipulagsnefndin og svæðisskipulagið eigi að vera sem allra nákvæmast og móta þennan ramma um aðalskipulagið og deiliskipulagið. Aðalskipulagið eigi hins vegar að vera hjá sveitarfélögunum og sömuleiðis deiliskipulagið, til þess að taka af allan vafa.

Varðandi framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi vona ég að mig bresti ekki minni eða þekkingu þegar ég segi að landeigandi þarf að koma að byggingarleyfinu. Landeigandi eða umráðamaður lands verður sá sem ræður þjóðlendunum, þ.e. forsrh.

Varðandi veginn á Heklu þá skil ég vel að menn vilji taka því sem gríni. En, hv. þm., þetta er ekki grín hjá flokksbróður mínum, Guðna Ágústssyni. Hann hefur flutt um þetta tillögu af mikilli alvöru og fleiri slíkar hugmyndir hafa komið fram sem brjóta algjörlega í bága við hugmyndir mínar um hvernig við eigum að ráðstafa landinu.