Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 21:33:03 (5942)

1998-04-29 21:33:03# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[21:33]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn hefur staðfest að hugmyndir hans um miðhálendið eru afskaplega álíkar því sem jafnaðarmenn tala fyrir. Hann hefur líka sett fram þau sjónarmið í blaðaviðtölum að sjónarmið ferðaþjónustu, útivistar og náttúruverndar eigi engan tryggan aðgang að skipulagi hálendisins og hann geti ekki sætt sig við það. Mér finnst gott að hann skuli vera með þessa baráttu uppi.

Við heyrum að það eru afskaplega skiptar skoðanir í Framsfl. En af því að ég lít svo á að formaður umhvn. í nafni Framsfl. hljóti að hafa afskaplega mikil áhrif inni í þingflokki sínum get ég ekki stillt mig um að spyrja hvort þingmaðurinn hafi ekki átt þess kost að reyna að hafa áhrif á það að Framsfl. bæri ekki fram það frv. sem svo miklar deilur eru um og hvort ekki hefði mátt reyna að komast að einhverju samkomulagi inni í flokknum í stað þess sem hér birtist þótt ég fagni afstöðu þingmannsins út af fyrir sig.