Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 21:49:23 (5952)

1998-04-29 21:49:23# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[21:49]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að Sjálfstfl. hefur gaman af því að tæta fjaðrirnar af Framsfl. En mætti ég minna hv. þm. Árna M. Mathiesen á að hann er ekki orðinn umhvrh. enn þá. Er það ekki fullmikil óskhyggja hjá þessum unga þingmanni að koma hingað og tala eins og hann sé orðinn umhvrh. og segja að hæstv. umhvrh. hyggist ekki leggja þetta fyrir. Ég minni hv. þm. á að hann er hvorki í Framsfl. né í stóli umhvrh. Hann á að láta sér nægja að tala fyrir flokk sinn en ekki aðra.

Herra forseti. Það sem hefur komið fram í umræðunni er eftirfarandi: Hér liggur fyrir frv. frá hæstv. umhvrh. sem er orðið að gundvelli þessarar umræðu. Af hverju? Vegna þess að í því frv. felst málamiðlun sem hluti stjórnarandstöðunnar á þátt í. Það er grundvöllur málamiðlunarinnar. Það er frumvarpið sem menn hafa verið að ræða og ekki síður þingmenn stjórnarinnar en stjórnarandstöðunnar.

Síðan gerist það að hv. þm. Guðni Ágústsson kemur upp og ljóstrar því upp að hann hafi átt viðræður við hæstv. félmrh. og hæstv. umhvrh. og hann segir það í ræðustól að þeir hafi lofað honum tilteknum breytingum. Nú er ekki hægt held ég, herra forseti, að halda umræðunni áfram án þess að við vitum hvað er í frv. sem felur í sér málamiðlun. Hæstv. félmrh. verður að koma hingað og staðfesta að hann hafi annaðhvort lofað þessu eða ekki. Auðvitað vildi ég gjarnan að hæstv. ráðherra gerði það ekki.

En hæstv. félmrh. þarf að gera fleira. Hann þarf að greina þingheimi frá því hvort hann hafi gert einhverja fleiri leynilega baksamninga við þingmenn Framsfl. til þess að reyna að lægja þær öldur sem hafa skapast þar og stýfa vængi þeirra sem vilja fljúga frá honum.

Herra forseti. Það er einfaldlega ekki sanngjarnt að við aðrir þingmenn, sem vitum ekki hvað fer fram í skúmaskotum stjórnarliðsins og Framsfl., fáum ekki að vita hvað felst í þessu samkomulagi vegna þess að það virðist breytast frá einni klukkustund til annarrar. Það er ekki hægt að bjóða þingheimi upp á þetta.

Þess vegna held ég, herra forseti, að það sé algerlega nauðsynlegt að fá úr því skorið með einhverjum hætti frá hæstv. umhvrh., annaðhvort á fundi hans, forseta, og formanna þingflokka eða þá úr ræðustól, hvort hann hyggist skirrast við að leggja fram sitt eigið frv., sem hann hefur þó sjálfur lýst að sé grundvöllur þeirrar sáttargjörðar sem hann var sjálfur að lýsa í gær. Annað er ekki hægt að þola. Öðruvísi er ekki hægt fyrir okkur þingmenn að taka afstöðu til þessara mála sem við erum hér að ræða sem eru, eins og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson sagði, á meðal helgustu mála þessarar þjóðar. Hér er verið að ræða grundvallarmál og það er ekki hægt að bjóða þingheimi upp á vinnubrögð baktjaldamakksins og skúmaskotanna sem Framsfl. er að bjóða okkur upp á núna.