Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 21:52:19 (5953)

1998-04-29 21:52:19# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[21:52]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég óska eftir að gert verði hlé á fundinum. Það verður að fara aðeins yfir málið og ræða það. Ég þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir yfirlýsingu hans um að hann telji að margumrætt frv. um skipulags- og byggingarmál eigi að koma á dagskrá. (GÁ: Ég sagði að ég ...) Þingmaðurinn sagðist styðja það og sagðist vilja það og hann er hluti af forsetadæminu og ég óska eftir því að hann verði, eins og aðrir forsetar sem eru hér í kvöld, kallaður til til að fjalla um málið.

Hæstv. starfandi forseti, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, benti á 1. mgr. 63. gr. þingskapa þar sem segir að fundur í þinginu geti ákveðið dagskrá næsta fundar. Það er alveg rétt hjá hæstv. forseta og ég benti á þennan möguleika í gær. Þetta er hins vegar fordæmalaust. Ég hef farið yfir það með starfsmönnum þingsins hvernig þetta á helst að gera. Ég gæti út af fyrir sig flutt tillögu sem væri einhvern veginn á þessa leið: Legg til að umrætt frv. komi á dagskrá næsta fundar. Og látið þá tillögu koma til afgreiðslu og síðan réðu menn því hvaða afstöðu þeir hefðu í þeim efnum.

Ég ræddi þetta mál við hæstv. forseta Alþingis í dag. Hann fór beinlínis fram á að ekki yrði látið reyna á þingviljann í þessu máli í kvöld. Ég féllst á það. Hins vegar tel ég að í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið í kvöld að óhjákvæmilegt sé að ræða það nú við hæstv. forseta hvenær megi láta reyna á þingviljann í þessu efni. Af þeim ástæðum, herra forseti, fer ég fram á að gert verði hlé á fundinum í kortér, tuttugu mínútur til að unnt sé að ræða um málið, hvenær verður látið reyna á þingviljann í þeim efnum til að kanna hvort málið kemst á dagskrá eða ekki.

Ég endurtek það sem við alþýðubandalagsmenn höfum sagt áður: Við leggjum mjög mikla áherslu á að málið komist á dagskrá, mjög mikla. Við teljum mjög mikilvægt að menn geti rætt þetta mál. Það sé mikilvægt að umhvn. fái að fjalla um málið. Við teljum að þetta mál sé hluti af málinu í heild eins og áður hefur komið fram. Það er ósanngjarnt gagnvart okkur að halda umræðunni áfram án þess að ganga úr skugga um það hver verða afdrif þessa umrædda frv.

Þess vegna endurtek ég, herra forseti, í ljósi jákvæðra ummæla hv. þm. Guðna Ágústssonar að ég óska eftir því að fundinum verði frestað og málið rætt hið fyrsta.