Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 21:55:08 (5954)

1998-04-29 21:55:08# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., félmrh. (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[21:55]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er rétt að það komi fram að gefnu tilefni að ég hef enga samninga verið að gera. Enga samninga verið að gera við þingmenn Framsfl. eða ráðherra Framsfl. um frv. til skipulags- og byggingarlaga eða breytingu á skipulags- og byggingarlögum. Ég er heldur ekki umráðamaður skipulags- og byggingarlaga, það er hæstv. umhvrh.

En ég hef látið í ljósi þá skoðun mína að betur færi á að umorða upptalningu tilnefningaraðilanna vegna þess að mér finnst hún ekki vera nógu nákvæm. Ég tek mark á þeirri gagnrýni sem hefur komið fram í ræðustól í umræðunni, að eins og þetta er orðað í frv. má skilja það svo að verið sé að útiloka Flóamenn, Akureyringa og aðra fleiri. Ég tel að hugsunin í þessu frv. sé sú að hleypa landsmönnum eða fulltrúum landsmanna allra að málinu þannig að sem flest sjónarmið komi fram. Þannig að sú tortryggni sem komið hefur fram á að aðalskipulagstillögur hinna einstöku sveitarfélaga skarist --- það sé verið að setja undir þann leka.

Nú stendur að vísu ekki til að afgreiða málið, þ.e. breytinguna á skipulags- og byggingarlögum, á þessu þingi. Stuðningur minn við málið byggist á því að virtur sé réttur til umsagna bæði sveitarfélaga og annarra þeirra aðila sem þurfa að koma að málinu og vilja koma. Það er orðið það áliðið þings að það vinnst ekki tími til að gera það fyrir þinglok nema þá við ætlum að vera hér alveg í sumar.

Að endingu þá finnst mér menn tala nokkuð gróflega. Stundum tala þeir um virðingu þingsins og fjölyrða mikið um það. En stundum vilja þeir reka mál í gegnum þingið án þess að þingið fái tækifæri til að líta á þau. Það er mjög fátítt að mál komi á dagskrá sem taka ekki einhverjum breytingum í þinginu og einmitt þess vegna höfum við löggjafarþing að menn geti skoðað málin og breytt þeim. Ég held a.m.k. að allflest þeirra frv. sem ég hef borið fram í þessu þingi, og ég er búinn að vera hér í nokkuð mörg ár, hafi tekið einhverjum breytingum í meðförum þingsins.

Þar að auki vil ég minna á að það er annað mál, það eru sveitarstjórnarlög á dagskrá, herra forseti.