Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 22:52:38 (5967)

1998-04-29 22:52:38# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[22:52]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Ég tek það fram í byrjun máls míns að ég styð það frv. sem við ræðum, frv. til laga um sveitarstjórnarmál, í öllum aðalatriðum en við frv. sem slíkt og brtt. meiri hluta hv. félmn. geri ég athugasemdir í tveimur atriðum sem ég vil láta fram koma.

Það er í fyrsta lagi við brtt. meiri hluta félmn. við 7. gr. frv. þar sem segir: ,,Sveitarfélög skulu setja sér stefnu um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna`` o.s.frv. Um þetta verð ég að geta þess að í nokkrum tilvikum hér á landi, einkum hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem byggðin er þéttust, eru starfrækt fyrirtæki og stofnanir sveitarfélaga sem ná yfir fleiri en eitt sveitarfélag en eru rekin af einu sveitarfélagi. Þau fyrirtæki, þar sem um það er að ræða, eru hvergi í samkeppni við önnur þannig að aðhald eða val þeirra sem kaupa þjónustu eða vöru er ekki til og þeir hafa ekki um annað að velja. Í grg. fyrir tillögunni segir að líta þurfi sérstaklega til gjaldskrár í þessum tilvikum til að skapa vernd og tekjur af sölu þjónustu og vöru til þess að það dugi fyrir þeirri arðkröfu sem sveitarfélag setur sér að stefnu.

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að mér sýnist að um þetta atriði geti átt við þær athugasemdir sem fram hafa komið í dómsmáli þar sem einn íbúi á þessu svæði bar upp þá skoðun sína að hann mundi ekki vera skyldugur til að greiða slíkt gjald sem væri í raun dulin skattlagning þess sveitarfélags sem rekur fyrirtækið sem veitir þjónustu í öðru sveitarfélagi og þessi maður býr í og hefur ekkert val um að kaupa þá þjónustu eða vöru af öðru fyrirtæki sem kynni hugsanlega að bjóða betri kjör, betra verð eða meiri gæði.

Á annan hátt verð ég nú líka að viðurkenna um þetta, herra forseti, að fyrir hefur komið að arðgjafarkröfur sveitarstjórna í slíkum fyrirtækjum hafa verið hærri en tekjur umfram gjöld. Það eru að vísu mjög tímabundin tilvik.

Annað atriði sem ég geri athugasemd við, og verð að viðurkenna að ég get ekki tekið þátt í að afgreiða með þeim hætti, er í 68. gr. frv. þar sem fjallað er um endurskoðun ársreikninga sveitarfélags. 2. mgr. þessarar greinar er með þeim hætti að sveitarfélagi eða sveitarstjórn sé þar með gert heimilt að fela endurskoðun starfsmönnum sínum. Sveitarfélag má sem sé samkvæmt þessu reka endurskoðunarstofnun á eigin vegum og fela þeirri stofnun að endurskoða alla reikninga sveitarfélagsins. Þetta tel ég að hljóti að vera algjört brot á þeim venjum og kröfum sem við gerum í dag um endurskoðun óháðra endurskoðenda sem eru ekki settir undir ákvarðanir og vald þeirra sem verða að taka við ábendingum þeirra um þessi fjárhagsmál.

Að öðru leyti, herra forseti, viðurkenni ég fúslega og tek undir að með þessu frv. koma fram betri og fyllri ákvæði en áður hafa verið í lögum um sveitarstjórnarmál sem varða fjárhagsmál þeirra og að því er veruleg framför.

Í annan stað tekur þetta frv. af óvissu sem hefur ríkt lengi og við höfum oft rætt í þingsölum, óvissu um rétt og skyldu til stjórnsýslu á landsvæðum utan byggða og utan eignarlanda og hér hefur ítrekað verið rætt um miðhálendi landsins vegna þessa. Þess ber að geta, herra forseti, að einmitt í þessari umræðu hefur verið vísað til þess að í fyrri umfjöllun þingsins um þessi mál hefur komið fram sú skoðun þingmanna úr fleiri en einum þingflokki að mikil þörf sé á því að ráða til lykta þeirri óvissu sem hefur ríkt um eignaryfirráð og lögsögu á þessum landsvæðum. Ég tel mikla framför að því að með þessu frv. og öðrum sem því fylgja um þjóðlendur og um eignarhald og nýtingarrétt á auðlindum í jörðu sé þetta mál leitt til lykta með þeim hætti að við höfum ekki lengur óljós ákvæði né óvissu um stjórnsýslu, um rétt og skyldur til ákvarðana. En með þeim er skyldan og rétturinn settur á herðar sveitarstjórna og ég hlýt að segja það eftir ummæli margra starfsfélaga minna í hv. Alþingi að ég er ósammála þeim mörgum um að treysta ekki né trúa kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum víðs vegar um landið til þess að fara vel með hagsmuni og réttindi íbúa, hvort sem þeir eru búsettir innan marka þeirra sveitarfélaga eða ekki, rétt til aðgangs að hálendissvæðum eða rétt til annarra nytja af þeim landgæðum sem þar er að finna.

Ég tel, herra forseti, að við höfum engar ástæður til að ætla að þessir sveitarstjórnarmenn eða sveitarfélög muni fara miður með þá hagsmuni og ekki gæta réttmætra sjónarmiða um landvernd, um verndun óspilltrar náttúru utan byggðar og eignarlanda sem við erum öll sammála um að er takmörkuð og viðkvæm auðlind sem við viljum gæta sem best. Við hljótum að vekja á því athygli hvert við annað að eins og ástandið hefur verið fram að þessu, og ef við ekki ráðum þessum málum til lykta á þessu þingi, þá hlýtur það að varða eðlilega og nauðsynlega verndun þessarar takmörkuðu og viðkvæmu auðlindar ef enginn hefur rétt né skyldu til að fara með stjórnsýslu á þessum svæðum, enginn fer með þau atriði sem varða eignarumráð og við deilum enn, við hv. þingmenn og aðrir landsmenn, fyrir dómstólum eða á öðrum vettvangi um rétt og skyldu í þessu efni. Auðvitað getum við ekki með löggjöf komið í veg fyrir deilur eða ólík sjónarmið. En löggjöf skapar betri vettvang en áður, ef hún er vel samin, til þess að leysa úr slíkum ágreiningi.

Mér finnst skipta máli, herra forseti, að við veitum því athygli þó að samkvæmt ákvæðum gildandi laga um skipulags- og byggingarmál hafi verið hafist handa við að skipuleggja miðhálendið, í samvinnunefnd, að þar hafa komið fram fjölmargar athugasemdir við þær hugmyndir um skipulag og þær fá allar meðferð, þó svo að þær komi frá einstaklingum, samtökum og fyrirtækjum sem hafa hvorki búsetu né aðsetur innan þeirra sveitarfélaga sem eiga nú land eða lögsögu að miðhálendinu. Þeim er ekki hrundið frá á þeim forsendum að sá sem gerir athugasemdina hafi ekki búsetu og þess vegna ekki rétt til að gera athugasemd eða láta í ljós sjónarmið sín. Það segir mér, herra forseti, að núgildandi ákvæði laga um skipulags- og byggingarmál eru fullfær um að tryggja rétt þessara einstaklinga, samtaka og fyrirtækja og að sjónarmið þeirra verði heyrð. Þau verða tekin til grundvallar á málefnalegum forsendum en ekki hrundið á einhverjum forsendum um búsetu eða fjarlægð. Ég tel einfaldlega, herra forseti, að við munum ekki bæta það ástand með þeim hugmyndum sem hér hafa verið kynntar um nýjar samvinnunefndir eða samstarfsnefndir.