Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 23:13:13 (5974)

1998-04-29 23:13:13# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[23:13]

Ágúst Einarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þegar þessi mál voru rædd fyrr í kvöld kynnti hæstv. forseti þá fyrirætlun sína að reyna á þingmeirihluta eða reyna á í atkvæðagreiðslu hvort frv. umhvrh. kæmi á dagskrá í fyrramálið. Ég tel þessa ákvörðun hafa verið skynsamlega hjá hæstv. forseta og eins og allar ákvarðanir af forsetastóli virðum við þær. Ég tek hins vegar undir sjónarmið hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar hvort í ljósi þess að hér fer fram atkvæðagreiðsla um mál sem er það nátengt þessu máli hvort ekki væri skynsamlegt að fara að huga að lokum umræðunnar. Menn geta þá greitt atkvæði í fyrramálið og hugsanlega eftir fundahöld og ákvörðun forseta ákveðið hvort menn ræði þá málin saman eða hvernig menn haldi áfram. Umræðan er orðin dálítið ruglingsleg vegna þess að menn ræða það mikið um mál sem er ekki komið á dagskrá.

Herra forseti. Það er augljóst að þessi mál þurfa að skýrast. Hæstv. forseti hefur sagt að hann ætli að halda umræðunni áfram og vitaskuld verður orðið við því og umræðan heldur áfram. Ég vil hins vegar beina því til hæstv. forseta þó svo umræðan haldi eitthvað áfram að hann íhugi orð okkar um málsmeðferð þannig að þótt umræðan haldi eitthvað áfram hugi menn samt sem áður að því hvort ekki væri skynsamlegt að bíða með frekari umræðu þar til málin hafa skýrst varðandi seinna málið. Eins og alltaf er það vitaskuld ákvörðun forseta sem við hlýðum en nauðsynlegt er þó að hafa samráð um það við formenn þingflokka eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék að.

(Forseti (ÓE): Forseti metur stöðuna eftir því sem umræðunni vindur fram.)