1998-04-30 00:55:09# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[24:55]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð félaga minna. Það eru nú liðnir 14--15 tímar frá því við hófum þennan fund. Þetta er afar stórt mál og mönnum liggur mikið á hjarta. Þá ber nýrra við ef við förum að vega ræður manna. Margir eru á mælendaskrá og við verðum að vera mjög vel upplögð í vinnuna fram undan í þinginu. Það má ekki gleyma því að fyrir liggur að við munum, þá daga sem eftir lifir þings, byrja hér alltaf á morgnana kl. a.m.k. hálfellefu ef ekki fyrr. Það er auðvitað allt önnur staða gagnvart því að vera fram á nætur en áður fyrr þegar ekki var byrjað fyrr en hálftvö á daginn.

Það er afar mikilvægt að við förum að setja endapunktinn á þennan fund. Við verðum nú líka að horfa á að við höfum reynt að bæta vinnuna í þinginu. Við verðum að huga að vinnutíma þingmanna eins og annarra. Ekki má gleyma því að þetta er frv. frá vinnumálaráðherra og ég þykist viss um að hann mun ekki sækja það mjög fast að við verðum hér á fundi, mikið yfir fimmtán tíma. Klukkan er að verða eitt. Ef við höldum hérna áfram og bætum við eins og einum ræðumanni í viðbót þá held ég að það væri mjög gott. Ég tel að það sé mjög líklegt að fáum fullan stuðning vinnumálaráðherrans við þá ósk.