1998-04-30 00:57:22# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[24:57]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur fyrir ákaflega fróðlega, málefnalega og yfirgripsmikla umfjöllun um þetta frv. til sveitarstjórnarlaga sem hér hefur gengið undir nafninu ,,tertusneiðafrumvarpið`` hjá ýmsum þeim sem hafa um það fjallað.

Eins og komið hefur fram í ræðum manna, þá tvo sólarhringa sem þetta mál hefur verið til umræðu og nú er komið á þriðja sólarhring frá því að við hófum umræðuna, þá er þetta ákaflega viðamikið mál. Ég mun ekki gera að umræðuefni aðrar greinar en 1. gr. frv. Aðrir eru mér kunnugri um þær fjölmörgu greinar frv., á annað hundrað, sem eru hér til umfjöllunar. Það er sem sagt 1. gr. og ákvæði til bráðabirgða sem ég mun gera að umræðuefni.

Breytingin á 1. gr. hefur valdið hvað mestri umræðu í samfélaginu þegar þetta mál hefur verið til umfjöllunar. Breytingin er sú að í stað þess að áður var kveðið á um það í 1. mgr. þessara laga, að byggðin í landinu skiptist í sveitarfélög, kemur nú ákvæði um það að allt landið skiptist í staðbundin sveitarfélög.

Þetta virkar ósköp sakleysislegt en hefur allafdrifaríkar afleiðingar eins og komið hefur fram. Þetta hefur það í för með sér að staðarmörk sveitarfélagasveitarfélaga, sem liggja að miðhálendinu, verða framlengd inn til landsins. ,,Sama gildir um staðarmörk sveitarfélaga á jöklum``, eins og segir hér í ákvæði til bráðabirgða. ,,Skal miðað við sýslumörk þar sem það á við, en heimilt er að víkja frá þeim með samkomulagi viðkomandi sveitarstjórna.``

[25:00]

Ég velti því fyrir mér hvað kalli svo mjög á þessa breytingu. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir spurði einnig þessarar spurningar: ,,Hvað er svona áríðandi?`` Hún benti á að vel mætti una við ástandið eins og það er í dag.

Eins og fram hefur komið í umræðunni erum við jafnaðarmenn mjög ósáttir við þá leið sem farin er í þessu frv. og teljum að veigamesta breytingin í frv. sé sú afdrifaríkasta en það er að landið eigi að skiptast í sveitarfélög en ekki byggðin og afréttirnar eins og var í lögunum áður. Við teljum að þarna sé verið að stíga skref í átt til skipulags sem ekki mun vera einhugur um meðal þjóðarinnar í framtíðinni. Það hefur komið fram mjög ákveðið í umfjöllun og á einn og annan hátt og vil ég benda í því sambandi á auglýsingu frá því á þriðjudaginn var, þeim degi sem við hófum umræðu og umfjöllun um þetta mál. Þar kemur fram áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar frá fjölmörgum einstaklingum, fólki úr ýmsum geirum samfélagsins. Fulltrúar ferðaþjónustu, náttúruverndar, sveitarstjórna, ýmsir fræðimenn, jarðfræðingar og m.a. tveir fyrrverandi umhverfisráðherrar skrifa undir þessa áskorun.

En í þessari áskorun til Alþingis og ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Á Alþingi liggja nú fyrir lagafrv. sem m.a. munu ákveða um alla framtíð, hver fer með stjórnsýslu- og skipulagsrétt á miðhálendinu. Allir stjórnmálaflokkarnir hafa lýst ánægju sinni yfir þjóðlendufrv., sem gerir ráð fyrir að mesti hluti hálendisins verði þjóðareign, enda er það skilningur flestra Íslendinga að svo hafi alltaf verið, sbr. forn lög og dóma. Mikill ágreiningur er hins vegar um frv. til breytingar á sveitarstjórnarlögum, sem gerir ráð fyrir að skipta miðhálendi og jöklum milli sveitarfélaga.

Í ljósi þess að samstaða er um að miðhálendið verði áfram eign þjóðarinnar, teljum við undirrituð höfuðnauðsyn, að ekki verði á þessu þingi bundið með óafturkræfum hætti hvernig stjórnsýslu- og skipulagsmálum verður háttað þar. Meiri tími verði gefinn til opinnar umræðu, þannig að öll þjóðin fái að taka þátt í að ákveða hvernig með mál þessi verður farið í framtíðinni.``

Ég get ekki annað en tekið undir með þeim fjölmenna hópi sem ritar undir þessa áskorun því að vissulega vantar opinbera umræðu. Hún er hafin en hún þarf að vera meiri. Þetta er mjög stórt mál sem er hér á ferðinni og þegar það verður afgreitt þá verður að ríkja um það þjóðarsátt. Það verður að vera sátt um þetta mál á meðal þjóðarinnar, en svo er alls ekki.

Ég gerði athugasemd við það fyrr á fundinum þegar fundarstjórn forseta og störf þingsins voru rædd að hér væri haldið áfram umfjöllun um þetta frv. meðan mörg atriði sem varða frv. umhvrh. sem birt var hér til kynningar eru óútskýrð. Fram hefur komið í umræðunni að menn eru að velta fyrir sér ýmsum breytingum á frv. umhvrh. Ýmsir þingmenn hafa lagt inn í umræðuna hugmyndir sínar um það hvernig þeir vilji og hyggist breyta þessu frv. sem reyndar er ekki til umræðu enn þá og verður fjallað um á morgun og greidd atkvæði um hvort komi hér til umræðu. Ég hefði talið að það þyrfti að vera til umræðu samhliða því frv. sem við erum nú að ræða. Það eru sem sagt áform uppi um að breytingar verði gerðar á frv. umhvrh. fyrir haustið. Það hefur komið fram hjá þingmönnum, þingmönnum í stjórnarliðinu, frá formanni umhvn., fleirum í umhvn. og einnig hefur hæstv. félmrh. lýst yfir þeirri skoðun sinni að það þurfi að breyta frv. Þess vegna er náttúrlega nánast lítilsvirðing við okkur sem erum á mælendaskrá núna að áfram skuli haldið umræðu um þetta mál án þess að svör hafi fengist við því hvernig menn ætla að breyta þessu frv. eða hvenær þeir ætla að afgreiða það eða hvort það fái umfjöllun í þinginu. Það er nánast ósvífni, herra forseti, að bjóða okkur upp á þetta þegar klukkan er að ganga tvö að nóttu, eftir að hafa verið að störfum frá því snemma í morgun og ætlast síðan til þess að við höldum áfram umfjöllun um þetta afdrifaríka og viðamikla mál án þess að svör fáist við stórum spurningum sem varða málið og koma auðvitað við allri umfjöllun sem er um frv. til sveitarstjórnarlaga.

Það hefur verið gagnrýnt mjög harðlega, og ég tek undir þá gagnrýni, hvernig hæstv. umhvrh. hyggst haga þeirri nefnd sem á að fjalla um þessi skipulags- og byggingarmál. Þar vantar algjörlega fulltrúa stórs hluta þjóðarinnar og aðrir eru alls ekki í hlutfalli við þann fjölda sem stendur á bak við þá. Bent hefur verið á að bæði Reykjavík og Reykjanes eru þarna aðeins með þrjá fulltrúa. Ef Vestfirðir eru teknir með þá eru fjórir fulltrúar fyrir mjög stóran hluta landsmanna sem þá koma mjög veikir að þessari umfjöllun. Það hefur líka verið bent á að Akureyringar eigi þarna ekki fulltrúa. Mikið mál var gert úr því að lítill hreppur á Suðurlandi, heimahreppur hv. þm. Guðna Ágústssonar, kæmi ekki að málinu. Það var stórmál fyrr í umfjölluninni. En ýmsir þingmenn sem eru nú fulltrúar fyrir mun stærri svæði, mun fjölmennari svæði, virtust sáttir við þetta meðan mikið var fjasað yfir því að hreppur hv. þm. Guðna Ágústssonar fengi ekki að koma að málinu.

Reyndar kom það fram í máli hv. þm. Guðna Ágústssonar að dreifbýlismenn leyfðu fólki af höfuðborgarsvæðinu að njóta hálendisins, koma austur og eiga þarna góðar stundir á þeirra svæði, hálendinu, svæði þeirra sveitamannanna. Ég verð að segja að þetta mál allt eins og það er upp sett er nánast þannig að það stillir upp þéttbýli andspænis dreifbýli sem má alls ekki eiga sér stað og hefur verið gagnrýnt harðlega. Hvað á það að þýða að stilla málum upp eins og gert er hér? Það er engin furða þó að menn rísi upp. Ég efast ekki um að bæði Reykvíkingar og Reyknesingar eigi eftir að láta meira í sér heyra þegar menn gera sér grein fyrir því um hvað málið snýst. En þetta mál hefur, eins og komið hefur fram í áskorun frá fjölda málsmetandi manna úr samfélaginu og birtist í Morgunblaðinu, ekki fengið næga opinbera umræðu.

Mig langar sambandi við umfjöllun á þessu máli til að vitna aðeins í grein sem prófessor Gunnar G. Schram ritaði í Morgunblaðið í haust þar sem hann fjallar einmitt um miðhálendið sem sameign þjóðarinnar og um þetta frv. sem við erum með til umfjöllunar. Hann segir í greininni, með leyfi forseta:

,,Í greinargerð samvinnunefndarinnar [þ.e. samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins] er gert ráð fyrir því að stjórnsýslan á svæðinu eigi að vera í höndum sveitarfélaganna sem að því liggja. Sama stefna kemur fram í frumvarpi til laga sem félagsmálaráðherra lagði fram í vor um breytingu á sveitarstjórnarlögunum en hefur ekki enn hlotið afgreiðslu á þingi. Þar segir að gengið skuli ,,út frá því að staðarmörk sveitarfélaga sem liggja að miðhálendi Íslands verði framlengd inn til landsins. Sama gildir um staðarmörk sveitarfélaga á jöklum.````

Prófessor Gunnar G. Schram telur þetta vera vafasama stefnu og segir áfram í þessari grein, með leyfi forseta:

,,Kjarni þessara ráðagerða er sá að allt miðhálendið, sem nú er að mestu almenningur og einskis manns land, skuli hvað alla stjórnsýslu snertir falla undir nokkur af sveitarfélögum landsins. Hér er þeirri spurningu varpað fram hvort þetta sé skynsamleg stefna.

Miðhálendið er geysilega víðfeðmt, nær yfir rúmlega 40% af flatarmáli landsins eins og það er venjulega skilgreint. Þær náttúrugersemar og einstöku óbyggðir sem þar er að finna eru ein af mestu auðlindum landsins, þær eigindir sem gera Ísland svo einstakt í augum hins erlenda ferðamanns jafnt sem okkar Íslendinga. Mikill hluti miðhálendisins er hvorki í eigu ríkisins, sveitarfélaga né einstakra bænda, svo sem allmargir hæstaréttardómar hafa staðfest á undanförnum árum. Hér væri hin rétta stefna sú að lýsa því yfir í löggjöf að miðhálendið væri sameign þjóðarinnar allrar og þar með þær dýrmætu náttúruperlur sem þar er að finna. Samhliða ætti að gera meiri hluta þess að þjóðgarði sem tryggði að þar sæti í framtíðinni í öndvegi sjónarmið náttúruverndar og almannaréttar.``

Ég get svo sannarlega tekið undir þessi orð prófessors Gunnars G. Schrams. Hér vantar nefnilega alla mótun í ferðamennsku. Hvernig staðið hefur verið að þeim málum er náttúrlega fyrir neðan allar hellur. Þau mál heyra núna undir samgrh. og hann hefur verið að koma með einhverja málamyndastefnumótun í ferðaþjónustu en það hefur nánast verið kattarþvottur. Og nú með þessum breytingum á sveitarstjórnarlögunum á í raun að setja mótun í ferðamennsku, í ferðaþjónustu, yfir til sveitarfélaganna því að skipulagið mun móta framtíðarstefnu í ferðamálum. Framtíðarstefnu sem hæstv. samgrh. á auðvitað að móta. Sömuleiðis vantar alla stefnumótun í því hvar við viljum hafa okkar þjóðgarða. Það mun einnig lenda á sveitarfélögunum þegar þetta frv. verður orðið að lögum. Og auðvitað er það ekki boðlegt.

[25:15]

Í grein sinni segir Gunnar G. Schram einnig í framhaldi af því sem ég vitnaði til áðan, með leyfi forseta, undir fyrirsögninni Vanbúin stjórnvöld:

,,Af þessum ástæðum felst mikið óréttlæti í þeirri fyrirætlan að útiloka mikinn meiri hluta þjóðarinnar frá öllum ákvörðunum um landnýtingu og stjórnsýslu á miðhálendinu. Það er gert með núverandi tillögum því þar munu engan hlut eiga að máli allir þeir sem búa á suðvesturhorni landsins, auk Vestfirðinga. Auk þess má mjög draga í efa að þau 40 sveitarfélög sem ætlað eru öll völd á miðhálendinu séu í stakk búin til þess að fara með þá stjórnsýslu. Þar er ekki síst um að ræða ákvarðanir um skipulagsmál, byggingarmál og heilbrigðismál. Mörg þessara sveitarfélaga eru fámenn og hafa, þrátt fyrir góðan vilja, ekki yfir þeirri sérþekkingu á þessum sviðum að ráða sem nauðsynleg er og hér getur skipt sköpum. Auk þess býður þessi skipting 40% landsins greinilega upp á ágreining og deilur milli sveitarfélaganna innbyrðis um staðar- og valdmörk á miðhálendinu sem líklegar eru til að æra óstöðugan og standa allri starfsemi þar fyrir þrifum svo dæmin hafa raunar þegar sannað. Hér yrði með öðrum orðum ein helsta íþrótt Íslendinga, landamerkjadeilurnar, hafin í æðra veldi. Hætt er við að skynsamleg landnýtingarsjónarmið og náttúruvernd lyti þar í lægra haldi.``

Hér kemur dr. Gunnar G. Schram inn á eitt af þeim málum sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson varpaði spurningu fram um til hæstv. félmrh. og hann lét ekki svo lítið að svara þó svo hann kæmi upp og hygðist svara en svaraði ekki.

Hv. þm. spurði hæstv. ráðherra að því hvort hann teldi að fámenn sveitarfélög --- Er hæstv. ráðherra í húsinu, herra forseti?

(Forseti (StB): Já, hæstv. ráðherra er í húsinu.)

Ég hefði gjarnan viljað fá svör við þeim spurningum sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson varpaði fram. Þetta eru mjög mikilsverðar spurningar sem auðvitað þarf að fá svör við í þessari umræðu því að prófessor í umhverfisrétti við lagadeild Háskóla Íslands hefur varpað fram spurningum í sömu veru og hv. þm. og ég tel fulla ástæðu til þess að hæstv. ráðherra svari þeirri spurningu hvort fámenn sveitarfélög geti tekist á við flókin og fjárfrek verkefni sem þeim er ætlað í frv., svo sem kannanir og rannsóknir.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma í salinn og mun endurtaka þessa spurningu sem ég var hér að ... (Félmrh.: Ég heyrði hana.) Hæstv. ráðherra heyrði spurninguna og ég vil gjarnan fá svör við henni. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir benti einnig á að fámennum sveitarfélögum er ætlað að rækja ýmis önnur erfið verkefni samkvæmt frv. Ég mun ekki gera þau að umtalsefni en spyr að því hvort hæstv. félmrh. hafi ekki áhyggjur af því að þessi fámennu sveitarfélög geti ekki sinnt þeim verkefnum sem þeim er ætlað samkvæmt 1. gr. frv. Það eru sem sagt verkefni eins og kannanir og rannsóknir. Þau geta verið ansi kostnaðarsöm eins og að láta fara fram umhverfismat þar þörf er á því. Það þyrfti auðvitað að fá svör við þessu.

Ég spyr líka eins og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson sem bar hér fram mjög réttmætar spurningar fyrr í kvöld um þetta mál. Hann hafði t.d. áhyggjur af því hvort þessi fámennu sveitarfélög mundu standast valdamikla einstaklinga innan sveitarfélaganna sem væru að sækjast eftir gögnum og gæðum á hálendinu, hvort fámenn sveitarfélög mundu ekki gefa þar eftir vegna þrýstings frá valdamiklum einstaklingum í sveitarfélaginu. Það er auðvitað full ástæða til þess að velta því fyrir sér þegar málum er háttað eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Fyrst hæstv. ráðherra er nú kominn í salinn verð ég að láta hann vita af, hæstv. forseti, þeim áhyggjum sem ég hef af því hvernig verið er að etja saman þéttbýli og dreifbýli með þessu frv. Það er vissulega áhyggjuefni og hefur komið fram í umræðunni aftur og aftur í umfjöllun um þetta mál. Það á alls ekki að eiga sér stað að menn séu að etja þjóðinni saman, eins og gert er þegar íbúum í þéttbýli er att gegn dreifbýlisbúum og öfugt. Það er eitt af því sem ég hef verulegar áhyggjur af í þessu frv., þ.e. að þarna sé verið að efna til ófriðar milli þessara hópa.

Ég tel nauðsynlegt að þetta mál fái verulega umfjöllun í samfélaginu. Auðvitað ætti þetta mál að fara í þjóðaratkvæði. Þetta er alveg dæmigert mál sem þyrfti þjóðaratkvæðagreiðslu um. Þetta er það stórt mál, mikið grundvallarmál, sem er til umræðu. Ef mál sem þetta yrði lagt undir dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu þá þyrfti það að fá verulega umfjöllun og kynningu. Það er einmitt það sem þetta mál þarf að fá. Það hefur alls ekki fengið næga kynningu og er allt mjög óljóst eins og sýnir sig í umfjölluninni hér, eins og sýnir sig í því hvernig málin hafa verið hér í öllum málatilbúnaði, hvernig mál umhvrh. hefur t.d. komið inn til kynningar svo óljóst að ekki nokkur maður skilur í rauninni hvað þar er verið að fara.

Menn túlka þetta á alla vegu. Stjórnarþingmenn sem hafa látið af fyrirvörum sínum vegna frv. umhvrh. hafa alls ekki skilið þetta frv. á sama hátt og reyndar hefur komið fram í umræðunni að þeir hafa alls ekki skilið málið. Ég efast því um að þetta mál sé tilbúið til að fara í gegnum þingið nú á vordögum.

Það er annað sem mér finnst mjög sérkennilegt í öllu þessu máli og það er að hæstv. umhvrh. hefur verið með nefndavinnu í gangi um ósnortin víðerni í kjölfar þess að þáltill. var samþykkt fyrir ári. En um leið og hæstv. ráðherra stendur fyrir umfjöllun um að vernda skuli víðernin á hálendinu er komið til umfjöllunar og á að samþykkja hér í miklum látum þingmál, frumvarp, þar sem nánast er verið að kippa grundvellinum undan því að hægt sé að varðveita þær náttúruauðlindir sem við eigum á hálendinu, þ.e. víðernin. Þau eru það sem ferðamenn munu sækjast eftir, sem munu verða aðdráttarafl erlendra ferðamanna hingað til lands. Fáar þjóðir eiga annan eins auð og við eigum á hálendinu. Við erum öfunduð af þessu um allan heim. Og nú ætlum við með nokkrum pennastrikum að slá striki yfir þetta allt saman.

Margoft hefur hér verið vitnað í erindi Steinunnar Sigurðardóttur rithöfundar, skólasystur minnar, bekkjarsystur úr menntaskóla. Þær athugasemdir sem koma fram í því erindi eru vissulega réttmætar. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það erindi hér þó full ástæða væri til þess, því að það sem hún segir í því erindi sínu eru orð sem eru vissulega tímabær og hún talar þarna fyrir munn margra Íslendinga. Hún Steinunn veit hvað hún syngur og lýsir þeirri auðlind sem við eigum á hálendinu er hún segir m.a. að þar er þriðja stærsta jökulhvel veraldar og stórbrotnustu gljúfur í Evrópu, mesta heiðagæsavarp í heimi o.s.frv. Fram hjá þessu öllu saman á að líta með þessu frv.

Mig langar til að vitna í mál Steinunnar, reyndar ekki þetta erindi heldur grein sem birtist eftir hana í DV á þriðjudaginn, daginn sem við hófum umræðu um þetta mál. Það sem Steinunn hefur þar að segja á fullt erindi í þingsölum. Hún segir, með leyfi forseta, í grein sem ber yfirskriftina Þjóðhættulegt stjórnarfrumvarp:

,,Ef illa tekst til gæti farið svo að dagsins 28. apríl yrði minnst sem einhvers mesta óheilladags í íslenskri sögu. Þá stendur fyrir dyrum á Alþingi lokaafgreiðsla á stjórnarfrumvarpi um skiptingu 40 prósenta Íslands, hálendisins, milli 40 sveitarfélaga í 40 tertusneiðar sem geta mæst á ólíklegustu stöðum.

Afleiðingar af þessari skipan mála hafa alls ekki verið útskýrðar nægilega fyrir fólkinu í landinu, og það er hörmulegt. Skipting hálendisins mun vara um alla framtíð og hafa þýðingu fyrir hvert einasta íslenskt mannsbarn.

Sumir líta á það sem ranglæti að 4% þjóðarinnar eigi að ráða yfir næstum helmingi þess eina lands sem við byggjum. Aðrir sjá fyrir sér landamerkjadeilur í æðra veldi og stanslausan ófrið. Þetta er hvort tveggja rétt, en þetta er ekki það sem ég hef mestar áhyggjur af. Ég hef áhyggjur af landinu sjálfu, sem við höfum kallað landið okkar, og ég vil verja það. Ég vil verja það fyrir ofbeit, gegndarlausu landslagsraski vegna virkjana og efnistöku. Ég vil verja það fyrir eilífri stóriðju, fyrir skipulagsslysum, fyrir sundurleitu kofa- og sjoppufargani.

Sú skipan mála sem væntanlega verður afgreidd frá Alþingi býður öllum þessum hættum heim. Því vil ég nefna þetta stjórnarfrumvarp félagsmálaráðherra þjóðhættulegt.

[25:30]

Páll Sigurðsson lagaprófessor er einn af mörgum hæfum mönnum sem um frumvarpið hafa fallað og telja það ótækt. Hann segir í grein í Morgunblaðinu 3. apríl: ,,Stjórnsýsla yfir hálendinu ... verður að sjálfsögðu að byggjast á mikilli yfirsýn og víðtækri gæslu almannahagsmuna sem sveitarfélögunum, mörgum fámennum og lítils megandi, yrði ofraun að rísa undir. Fámennið leiðir meðal annars til hættu á hagsmunaárekstrum og vanhæfi. ... Sérstaklega á þetta við um skipulags- og byggingamál hálendisins, þar sem skipuleggjendurnir verða að vera hátt hafnir yfir hrepparíg ...``

Það þarf reyndar ekki lögspeking til að sjá þennan einfalda sannleika. En þingmenn virðast ekki skilja hann. Ef þeir skilja, hvers vegna þegja þeir þá í stórum stíl? Stjórnarþingmenn hafa þagað, utan þrír, Alþýðubandalagið hefur verið máttlaust í andstöðu sinni. Einungis alþýðuflokksþingmenn hafa mótmælt kröftuglega.

Enn einu sinni vaknar spurningin: Hvaða fólk er þetta á Alþingi? Hvað er það að hugsa? Er það svo rígbundið á flokksklafann að það þegir út yfir alla skynsemi og samvisku? Eru það dreifbýlisatkvæðin dýrmætu sem sitja föst í kokinu og varna máls? Það minnsta sem við kjósendur getum nú farið fram á er tími, tími til að ræða og taka þátt í að ákveða hvað verður um landið okkar, í bókstaflegri merkingu.

Ef frv. um tertusneiðarnar 40 verður samþykkt frá Alþingi mun vansi þeirra sem að því stóðu, þeirra sem samþykktu, þeirra sem stóðu aðgerðalausir hjá, verða ævarandi. Kjósendur um allt land eru nú óðum að vakna til vitundar um þetta óheillafrumvarp og þeir munu beita refsivendinum harkalega þegar þeir fá tækifæri til. --- En landinu mun blæða --- það verður ekki aftur tekið.``

Þetta segir okkar virti rithöfundur Steinunn Sigurðardóttir í Dagblaðinu á þriðjudaginn var. Það er vissulega ástæða til þess að huga að ýmsum þeim atriðum sem hún nefnir í þessari grein sinni. Hún veltir því einnig fyrir sér hvort minni sveitarfélögin geti tekist á við það verkefni sem þeim er falið hér. Og kannski ekki að ástæðulausu.

Ég tek undir með Steinunni. Auðvitað á að gefa fólki tækifæri til að ræða þetta mál úti í samfélaginu. Það er sanngjörn krafa almennings að fram fari umræða um þetta mál og það bíði þá a.m.k. til haustsins. Úr því að menn ætla að bíða með frv. umhvrh. til haustsins og huga þar að ýmsum breytingum sem hafa alls ekki komið fram hér, þá á þetta mál að bíða einnig. Og þau eiga að afgreiðast saman. Það er ekkert minna mál að afgreiða þetta frv. en gagnagrunnsmálið sem var sem betur fer ákveðið að bíða með til haustsins. Þetta mál þarf ekkert síður að fá mikla umfjöllun í samfélaginu. Ég tel að hv. stjórnarþingmenn og hæstv. ráðherrar væru menn að meiri ef þeir létu þetta mál liggja til haustsins því það er alls ekki sátt um það í samfélaginu og við megum ekki efna til ófriðar meðal landsmanna vegna þessa frv.

Ég hlýddi snemma í kvöld á ræðu hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar, formanns umhvn. og þingmanns Framsfl., og ég verð að segja að ég get ekki annað en hrósað hv. þm. fyrir málflutning hans. Ég furða mig á því, eins og hann var nú skeleggur og rökfastur í sínu máli, að hann skyldi ekki hafa getað sannfært samflokksmenn sína betur í þessum málatilbúnaði öllum. Það er ótrúlegt að í lok þessarar aldar skuli koma fram mál eins og þetta. Og ætla að bjóða mönnum upp á lausn eins og þá sem kemur fram í frv. umhvrh., að ætla meiri hluta þjóðarinnar, öllu þéttbýlinu á suðvesturhorninu, aðeins þrjá fulltrúa af átján í þeirri nefnd sem þar er lögð til, er alveg með ólíkindum. Það er með ólíkindum að bjóða upp á slíkt. Og að þingmenn sem kjörnir eru af íbúum þessa landsvæðis skuli leyfa sér að taka undir þetta misrétti. Það er ótrúlegt að horfa upp á þetta, gjörsamlega ótrúlegt.

Hv. formaður umhvn. gerði einnig að umtalsefni auglýsingar á deiliskipulagi og ég get tekið undir það sem hann sagði þó ég hafi ekki vitað sérstaklega hvernig þessum málum væri háttað áður, en hann upplýsti það í umræðunni að breytingar á deiliskipulagi ætti aðeins að auglýsa í því sveitarfélagi þar sem breytingin væri gerð. Það finnst mér alveg með ólíkindum. Mun það þá verða þannig að þegar þessi sveitarfélög verða komin með yfirráðin yfir þessum tertusneiðum að nægilegt sé að auglýsa breytingar á deiliskipulagi bara í sjoppunni á svæðinu? Ég var algjörlega gáttuð að heyra það, ef þetta er rétt hjá hv. þm., að það þyrfti ekki að auglýsa þetta nema bara í sveitarfélaginu þar sem breytingarnar eru gerðar. Þetta er náttúrlega hlutur sem á alls ekki að eiga sér stað. Það á auðvitað að auglýsa víðar en bara einhvers staðar á einhverju litlu svæði. Þessi mál varða okkur öll. Það á að taka það fram í lögum að miðhálendið sé sameign þjóðarinnar eins og við jafnaðarmenn höfum farið fram á. Og að bjóða manni upp á það að ef það eigi að breyta þessum tertusneiðum þá megi auglýsa það bara á einhverjum smástöðum. Þetta er alls ekki boðlegt.

Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, formaður umhvn., hafði líka áhyggjur af framtíð gangnamannakofa. Ég er nú hissa á því að framsóknarmenn skuli ekki hafa haft áhyggjur af því með honum, framtíð gangnamannakofa á hálendinu. Það er ótrúlegt að menn skuli ekki hafa uggað að sér í Framsfl. með þá kofa. Hann taldi að framtíð þeirra væri öll í uppnámi og hættu með þessu frv. Ég held að sveitamennirnir í Framsfl. ættu nú að athuga það mál, hvort ekki sé þarna verið að stugga við einhverjum kjósendum þeirra.

Manni virðist að frv. sé nánast atlaga dreifbýlisins, atlaga bændaveldisins að þéttbýlinu, að með þessu frv. sé verið að etja hópum saman.

Ég mundi gjarnan vilja fá fram í umræðunni: Hvað eru menn að hugsa varðandi breytingar á frv. hæstv. umhvrh. fyrir haustið? Hér hafa komið yfirlýsingar frá hv. þm. Árna M. Mathiesen sem menn hafa talað um að sé umhverfisráðherraefni Sjálfstfl. Hann telur að það þurfi að gera miklar breytingar á þessu frv. Sama er að segja um formann umhvn. sem mun náttúrlega hafa forræði á málinu þegar það kemur þangað í haust. Auðvitað þarf að koma fram hvaða breytingar menn ætla sér á þessu frv. Hvað eru menn að hugsa um í þessum efnum? Hversu miklar eiga breytingar að vera og hverjar eru þær?

Auðvitað þarf að fá svar við þessu. Ég geri ráð fyrir því, hæstv. forseti, að því verði svarað í fyrramálið. Ég trúi ekki öðru en að menn muni samþykkja að þetta frv. verði tekið á dagskrá og fái hér umræðu. Það að það skuli ekki verða afgreitt og fá umfjöllun í þinginu kemur auðvitað þessu máli sem hér er til umræðu nú í algjört uppnám eins og sýnir sig. Það er í algjöru uppnámi vegna þess að það er allt óljóst í því hvernig menn ætla að halda á málunum. Allt er í uppnámi.

Það hefur líka verið spurt um það hvernig þau 42 sveitarfélög sem eiga að koma sér saman um 12 fulltrúa í nefnd þá sem umhvrh. leggur til, eiga að velja þá fulltrúa. Hvernig eiga þessi 42 sveitarfélög að velja þessa 12 fulltrúa? Það hafa ekki komið nokkur svör við þeirri spurningu. Ég efast um að menn viti nokkuð hvernig þeir ætla að leysa þetta.

Veit hv. þm. Magnús Stefánsson hvernig menn ætla að leysa þetta með 42 sveitarfélög og 12 fulltrúa? Veit hann það, herra forseti? Ég hef ekki heyrt heldur frá hæstv. félmrh. að hann hafi einhverjar tillögur um það hvernig eigi að velja þessa 12 fulltrúa fyrir þessi 42 sveitarfélög.

Síðan kom upp úr dúrnum í andsvari hv. þm. Guðna Ágústssonar fyrir einum sex eða sjö klukkutímum að tryggja eigi þarna rétt hans hrepp sem ekki á land að hálendinu. Og ég spyr bara hvernig á að tryggja þeirra rétt. Það er greinilega margt óljóst enn í umræðunni um þetta mál allt saman. Það í rauninni allt með ólíkindum, allt þetta mál.

Ég veit ekki hvort ég eigi að gera hér að frekara umræðuefni þá óljósu lausn sem felst í frv. umhvrh. Formaður umhvn. sagði um að umboð þeirrar nefndar væri allt of veikt þar sem hún væri bara umsagnaraðili. Ég tek alveg fyllilega undir það. Það er allt of veikt. Þarna er verið að setja út undan hópa sem láta sig hálendið vissulega varða. Þar hefur verið nefnt til sögunnar útivistarfólk, ferðaþjónustan, fuglaskoðunaráhugamenn, skíðamenn, sleðafólk o.s.frv. Þessir hópar eiga enga aðkomu að þessari nefnd hæstv. ráðherra.

Ég nefni bara eitt sem ég hef verulegar áhyggjur af og snýr að ferðamálunum. Við höfum eytt miklum fjármunum í að byggja upp jákvæða ímynd landsins, sérstaklega í því sem snýr að erlendum ferðamönnum. Miklir fjármunir hafa verið settir í að byggja upp jákvæða ímynd landsins erlendis. Hvað verður um þessa jákvæðu ímynd þegar búið verður að sneiða allt hálendið, auðlind okkar, náttúruperlur okkar á hálendinu, niður í 40 tertusneiðar og menn í mörgum sveitarfélögum verða farnir að vasast í málefnum hálendisins? Ég er ansi hrædd um að sú ímynd muni hrynja þegar það allt saman verður að veruleika.

Þá er auðvitað búið að kasta öllum þessum peningum út í buskann. Öll sú landkynning og öll sú ímyndarsköpun sem hefur farið fram fyrir ærinn tilkostnað skattgreiðenda hefur þá ekki verið til neins. Það er nánast allt fyrir bí.

[25:45]

Ég gæti vissulega haldið lengi áfram að fjalla um þetta mál sem er nánast allt hið ömurlegasta. Lái mér hver sem vill að maður sé orðinn hálfhvekktur yfir þessu öllu saman, öllum þessum málatilbúnaði og þeim vinnubrögðum í þinginu að fjalla um þetta stórmál nánast sólarhringum saman án þess að menn fái almennilega hvíld til þess að mæta til vinnu hressir og kátir að morgni. Já, þeir geta hlegið framsóknarmennirnir sem kalla þetta yfir þjóðina. Ég held að það væri nær að þeir tækju til höndunum og reyndu að afstýra því slysi sem þetta mál er, nema það fái mun meiri umfjöllun.

Ég tek undir með rithöfundi okkar, Steinunni Sigurðardóttur, að landinu mun blæða og það verður ekki aftur tekið ef menn taka sig ekki á og leiðrétta þessa vitleysu sem er að fara hér í gegn. Þetta mál hefur alls ekki fengið næga kynningu og það er veruleg ósátt um það í samfélaginu. Það hefur ekki farið fram hjá okkur þingmönnum, a.m.k. ekki okkur sem erum fulltrúar fyrir meiri hluta þjóðarinnar á suðvesturhorninu. Menn eru mjög ósáttir við að þeim er ekki ætlað að koma að þessu máli nema að mjög litlu leyti. Menn munu ekki sætta sig við þetta. Ég held að framsóknarmenn sem hafa átt erfitt uppdráttar hér í þéttbýlinu ættu huga að huga aðeins að því máli, a.m.k. að fulltrúar þeirra taki upp hagsmuni umbjóðenda sinna.

Herra forseti. Eins og margoft hefur komið fram í umræðunni þá erum við jafnaðarmenn með sérstaka tillögu í séráliti, í nál. frá minni hluta félmn., sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir mælti fyrir við upphaf umræðu um þetta frv. til sveitarstjórnarlaga. Tillaga okkar er sú að miðhálendi Íslands verði sérstök stjórnsýsluleg heild og lúti einni stjórn með þátttöku fulltrúa allra landsmanna. Frv., eins og það er nú, felur í sér, eins og segir í minnihlutaálitinu ,,mestu atlögu að almannarétti allt frá landnámsöld``. Það er vissulega áhyggjuefni að menn ætli að keyra þetta mál í gegn án þess að vera með allt undir, og þar á ég við frv. umhvrh.

Það hefur líka verið bent á það í umsögnum með frv., sem voru til umfjöllunar í félmn., að það verði að ríkja einhugur meðal þjóðarinnar um nýtingu óbyggða Íslands. Það kemur m.a. fram í umsögn frá Félagi leiðsögumanna. Þeir segja einnig að landsmenn allir verði að ráða hvar byggingar og aðrar verklegar framkvæmdir verða og einnig hvaða svæði eru friðuð eða hvar umferð verði takmörkuð. Félag leiðsögumanna telur að slíkum einhug verði stefnt í hættu ef aðeins þau sveitarfélög sem liggja að miðhálendi Íslands hafa þar lögsögu.

Vissulega væri full ástæða til að taka margt fleira til umfjöllunar hér en það er löngu kominn háttatími hjá þingmönnum að mínu áliti. Ég held, herra forseti, að ég fari að láta þessu lokið og komi frekar að málinu aftur á skikkanlegum vinnutíma því það er ekki boðlegt að láta menn standa hér og ræða þetta mál á þessum tíma þegar þjóðin er löngu sofnuð nema hún sé í skjáleik á þeirri stöð þar sem ella ætti að sjónvarpa umræðu úr þinginu. Stjórn þingsins, herra forseti, finnst þessi umræða ekki merkilegri en svo að ekki er ástæða til að sjónvarpa henni eins og annarri umræðu frá þingfundum. Það er hægt að bjóða manni upp á að tala um miðjar nætur á meðan skjáleikur er í gangi á sjónvarpsstöðvunum. Það er allt eins hjá meiri hlutanum. (Gripið fram í: Allt er það eins, liðið hans Sveins.)

Herra forseti. Ég áskil mér rétt til að ræða þetta mál frekar á skikkanlegum vinnutíma. Ég er búin að tala í um það bil klukkustund um málið og hef ekki komið nema að mjög litlu leyti að því sem hefði þurft frekari umfjöllun. Ég mun fara aftur á mælendaskrá síðar þegar skikkanlegri tími er til að fjalla um þetta mál.