1998-04-30 01:52:38# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[25:52]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Fyrir klukkutíma eða svo óskaði ég eftir upplýsingum um það frá forseta Alþingis hvað væri ætlunin að halda lengi hér áfram og þá var því lofað að rætt yrði við okkur fljótlega. Nú hefur það ekki verið gert. Satt að segja kann ég ekki að meta það og spurningin er auðvitað sú hvort staðan er þannig að hér séu komnir nýir siðir. Er núna kannski búið að taka upp siðina sem hæstv. forsrh. beitti í Ráðhúsinu forðum meðan hann var og hét og búinn að stinga Framsfl. í vasann í þeim verkum? Á ekki að gera tilraun til þess að hlusta á stjórnarandstöðuna og ræða það hvenær á að ljúka umræðum?

Það er alveg greinilegt, herra forseti, að þessari umræðu lýkur ekki í nótt. Það er alveg augljóst mál. Þess vegna er í raun ekkert annað eftir fyrir okkur en að semja um það hvenær henni lýkur. Ég teldi eðlilegast að ljúka henni núna, nákvæmlega núna, og alveg út í hött að halda henni áfram.

Þess vegna fer ég fram á það við hæstv. forseta, einkum og sér í lagi þann sem nú situr, sem er þekktur að því að bregðast vel við og var einu sinni kallaður forsetinn með gullhjartað --- var það ekki þessi? (Gripið fram í: Það var þessi.) --- að hann lúti nú svo lágt, stígi niður af tróni sínum og tali við okkur hina óbreyttu þingmenn stjórnarandstöðunnar stundarkorn. (Gripið fram í: Hvar eru þingmenn Sjálfstfl.?)

Það er auðvitað spurning hvort þingmenn og ráðherrar Sjálfstfl. séu í húsinu og hvort kannski mætti kalla þá til fundarins. Er eitthvað af ráðherrum Sjálfstfl. í húsinu, herra forseti?

(Forseti (GÁ): Já.)

(Gripið fram í: Hver?) Það er auðvitað spurning hvort það mætti hugsa sér að kalla í ráðherra Sjálfstfl. til umræðunnar? Ef hún á að halda áfram er alveg lágmark að þeir sem eru í húsinu taki þátt í umræðunni og séu hérna því við höfum margs að spyrja þessa ráðherra Sjálfstfl. ef þeir nenna að láta sjá sig.

Þeir hafa ekki þurft að vera hérna mikið vegna þess að Framsókn sér um þessi verk eins og venjulega þegar verið er að moka flórinn, þá er það Framsókn sem er í þeim verkum af því hún kann reyndar oftar betur á flórrekurnar en íhaldið.

Ég fer eindregið fram á það við hæstv. forseta að núna verði gert hlé, núna, á þessum fundi til að ræða um þinghaldið vegna þess að engin rök eru fyrir því að halda þessum umræðum áfram stundinni lengur.