1998-04-30 01:56:09# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[25:56]

Ágúst Einarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við stjórnarandstæðingar sem höfum talað höfum hagað málum okkar af stillingu í kvöld og nótt. Um klukkan ellefu sagði hæstv. forseti Ólafur G. Einarsson að hann mundi tilkynna um tólfleytið hvernig hagað yrði fundi. Við þingmenn sögðum: ,,Gott og vel. Það er réttur forseta að haga málum þannig.``

Um klukkan rúmlega tólf voru okkur borin þau skilaboð að halda skyldi áfram. Um klukkan eitt yrði hins vegar tilkynnt um framhald fundarins. Enn sögðum við: ,,Gott og vel. Við hlýðum fyrirmælum forseta.`` En um klukkan eitt var sagt: ,,Um tvöleytið verður tilkynnt um framhald fundarins.``

Nú er klukkan orðin tvö og í þriðja skipti, með þriðja hæstv. forseta, því hann er sá þriðji sem við höfum haft á þessum tveimur tímum, fáum við engin svör.

Herra forseti. Þessi vinnubrögð ganga ekki lengur. Ef menn vilja fara í þennan slag þá erum við alveg tilbúnir í hann. Þá skulum við ræða þessi mál á breiðum grundvelli, ræða þessi mál í tengslum við þjóðlendufrv., fá til viðræðu hæstv. forsrh., flm. þjóðlendufrv. Ég tel þá líka rétt að ræða sveitarstjórnarmálið í víðara samhengi út frá fjármálum ríkisins, og þá væri rétt, herra forseti, að fá hæstv. fjmrh. til svara og taka þátt í þessari ítarlegu umræðu sem menn vilja láta hér fara fram því við erum ekki að skorast undan umræðunni. Við erum að biðja um nákvæmari skýringar á því hvernig forseti ætlar að haga hér vinnubrögðum --- það er alveg ljóst að umræðunni lýkur ekki í nótt en mun halda áfram á morgun --- og hvernig menn vilja láta þingstörf halda áfram.

Herra forseti. Ég tek undir þá ósk sem hv. þm. Svavar Gestsson kom fram með, að nú þegar verði gert fundarhlé og þessi mál rædd í tíu mínútur eða svo í fullri vinsemd forseta ásamt formönnum þingflokka svo hægt verði að komast að einhverju samkomulagi um hvernig við ætlum að haga vinnubrögðum.

Það er ekki hægt, herra forseti, í þriðja eða fjórða skiptið núna að segja: ,,Það koma fréttir eftir klukkutíma.`` Það gengur ekki, herra forseti. Við höfum hagað okkur af stillingu og málefnalega í þessari umræðu og munum gera það áfram. En við eigum líka rétt á sanngirni af hálfu stjórnarliða. Ég veit að hæstv. forseti er maður til þess að reyna að stuðla hér að betri vinnubrögðum.

(Forseti (GÁ): Forseti getur tekið undir það að hann vill sanngirni og ná saman um málið. Hann lítur á sig sem forseta þingsins og vill vinna með þeim hætti.)