1998-04-30 01:59:24# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[25:59]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Ágústi Einarssyni og þeirri kröfu sem sett hefur verið fram af hálfu formanns þingflokks Alþb. og óháðra, að þegar í stað verði gert hlé á þessum þingfundi til að ræða um vinnubrögð. Ég verð að segja að mér finnst Alþingi Íslendinga ekki bjóðandi upp á þetta, og kemur þar margt til.

[26:00]

Fyrr í kvöld var því lýst yfir að frv., sem gerir ráð fyrir breytingu á skipulagslögum og tengist því máli sem hér er til umræðu, yrði ekki tekið til umræðu á þinginu og afgreiðslu. Ég lít svo á að það frv. sé óaðskiljanlegur hluti þessarar umræðu. Þetta er nokkuð sem við þurfum að fá botn í, að öðrum kosti er umræða um þetta efni algerlega marklaus.

En ég spyr: Hvað vakir fyrir hæstv. forseta með þessum vinnubrögðum? Er ætlunin að stýra eðlilegri þingumræðu eða er hreinlega verið að reyna að þreyta hv. þm.? Ég hef margoft upplifað það áður eins og mörg okkar sem nú erum stödd í þingsal. Ég minnist þess á sínum tíma þegar frv. um Rafmagnseftirlit ríkisins, þegar ríkisstjórnin var að einkavæða rafmagnseftirlitið, var tekið til umræðu. Hvenær skyldi það hafa verið gert? Það var gert klukkan fjögur eða fimm að morgni, þegar ríkisstjórnin vissi að þjóðin var sofandi, til að reyna að komast hjá því að menn gerðu sér grein fyrir því sem væri að gerast.

Hér er á ferðinni frv. sem menn hafa miklar skoðanir á og menn eru ekki að leika sér heldur vilja þeir rökræða þessi efni og gera kröfu til þess að það sé gert. Menn vilja rökræða frv. við þá sem eru á öndverðum meiði. En hvar skyldu þeir vera? Hvar skyldu þeir vera, að undanskildum hæstv. félmrh. sem hefur verið viðstaddur þessa umræðu? Þeir eru allir fjarstaddir.

Hvar eru fulltrúar Sjálfstfl.? Hér í þinginu er ekki einn einasti fulltrúi Sjálfstfl. Flestir fulltrúar Framsfl., að undanskildum hæstv. félmrh. og einstaka þingmanni Framsfl. eru farnir. Ég vil því mjög eindregið fara þess á leit við hæstv. forseta að hann verði við þeirri kröfu sem formaður þingflokks Alþb. og óháðra setti hér fram, að þegar í stað verði gert hlé á þingstörfum til að ræða um stjórn þessarar umræðu.

(Forseti (GÁ): Forseti vill upplýsa að í húsinu eru nokkrir af þingmönnum Sjálfstfl. þannig að þeir eru hér til staðar.)