1998-04-30 02:03:00# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[26:03]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að það sé ekki ofmælt að í þessu máli eru nokkuð sérstakar aðstæður og það hefur endurspeglast mjög í þeirri miklu umræðu sem hér hefur farið fram. Um þetta mál eru skiptar skoðanir og mörg sjónarmið uppi. Þau eru ekki bara milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það er ekki síður að umræðan hafi verið borin uppi af ólíkum áherslum innan og milli stjórnaflokkanna. Einstakir þingmenn stjórnarflokkanna hafa jafnvel átt í hörðum orðasennum. Það á t.d. við um hæstv. sitjandi forseta og einn hv. þm., flokksbróður hans.

Stjórnarandstaðan hefur að nokkru leyti ólíkar áherslur í þessu máli. Þetta er geysilega stórt og afdrifaríkt mál. Það kemur heldur seint fyrir þingið og er að mörgu leyti vanbúið til afgreiðslu vegna þess samhengis sem það er í við önnur mál. Ekki þarf að orðlengja um það, samanber frv. það sem hæstv. umhvrh. hefur kynnt. Þetta, herra forseti, gerir það að verkum að það er fullkomlega eðlilegt og ekki við öðru að búast en að um þetta mál verði miklar og langar umræður. Það liggur í hlutarins eðli.

Um ellefuleytið í kvöld, í gær á víst að segja, herra forseti, var ég þá níundi maður á mælendaskrá. Ég kom í ræðustól undir þessum sama dagskrárlið, um fundarstjórn forseta, og fór ákaflega hógværlega fram á að svo fljótt sem við yrði komið mundi forseti veita okkur þingmönnum, sem aftastir værum á mælendaskránni, einhverjar upplýsingar um hvers yrði að vænta með þinghaldið. Ég óskaði eftir að fá að vita hvort við yrðum látnir bíða eftir því, jafnvel fram undir morgun, að komast að, eða hvort við mættum frekar vænta þess að fá að tala í málinu á morgun.

Forseti tók þessu vel sem vonlegt var, enda um hógværa og sjálfsagða ósk að ræða og upplýsingum lofað var innan hálfrar stundar eða klukkutíma. Síðan hefur, í tvígang ef ekki í þrígang, verið frestað að veita nokkrar upplýsingar um framhaldið, mönnum sem eru kannski í áttunda eða níunda sæti á mælendaskránni. Mælendaskráin hefur reyndar lítið styst því jafnharðan og einhverjir hafa lokið máli sínu hafa aðrir bæst við.

Nú, herra forseti, fer ég fram á, reyndar með nokkuð meiri þunga en fyrr, að þessu linni og forseti geri hlé á fundinum eins og hér hefur verið óskað eftir. Síðan yrði að veita einhverjar upplýsingar, sem mark væri á takandi, um það hvort fundinum verði yfir höfuð fram haldið, sem ég tel reyndar mesta óráð að gera, og þá hvernig þessu starfi verði háttað að öðru leyti, t.d. hvenær málið verði tekið fyrir á morgun. Ég held að það þjóni afar litlum tilgangi að halda þessu miklu lengur áfram í ósætti í nótt og hygginn maður eins og forseti ætti að verða við þessum sjálfsögðu óskum, gera hlé á fundinum og bjóða til ráðslags um málið.