Tillaga um dagskrá næsta fundar

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 10:46:00 (6011)

1998-04-30 10:46:00# 122. lþ. 115.91 fundur 331#B tillaga um dagskrá næsta fundar#, SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[10:46]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er oft spurning á augnablikum eins og þessum hvernig á að finna samjöfnuð. Það reynist vera erfitt í þessu máli, held ég. Mér dettur þó það í hug að aldrei hafi niðurlæging þingræðisins orðið eins mikil og í dag þegar flm. máls neitaði að samþykkja að það kæmi til umræðu, þegar stjórnarliðið allt neitar að samþykkja að mál fari í nefnd, þegar stjórnarliðið allt neitar að samþykkja að mál fari til umsagnar. Þó liggur það fyrir og hefur vakað í þessu máli allan tímann að ef þetta frv. fengi þinglega meðferð mundi það auðvelda meðferð annarra mála. Menn hljóta því að velta því fyrir sér hvort orðin svik og brigð eiga við á þessari alvarlegu stundu.

Ósvífni stjórnarliðsins er svo mikil að ekki heyrist einu sinni hringla í hlekkjunum eins og stundum er þegar verið er að binda þá í atkvæðagreiðslum. Þeir virðast una glaðir við sitt að neita þinginu um að taka mál af þessu tagi fyrir. Í sporum forseta mundi ég á þessari stundu blygðast mín fyrir meiri hluta Alþingis. Ég segi já við tillögunni um það að þingræðið fái að hafa sinn gang.