Rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:02:00 (6020)

1998-04-30 11:02:00# 122. lþ. 115.93 fundur 333#B rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:02]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér hafa átt sér stað mikil tíðindi. Heill þingflokkur hefur nú flutt rökstudda tillögu um að taka mál út af dagskrá og það er mál sem sami þingflokkur ætlaði sér að styðja stjórnarflokkana í vegna sáttatillögu sem rædd var á milli manna áður en þetta mál kom á dagskrá og er ég þá að vísa til sveitarstjórnarfrv.

Virðulegi forseti. Ég hafði uppi stór orð í ræðu minni um þetta frv. fyrr í umræðunni og nefndi valdníðslu ríkisstjórnarflokkanna. Þjóð og þingi er nú ljóst að þar var ekkert ofsagt. Nú hefur hver sem á hefur hlustað fengið að heyra að hér er farið fram með fullkominni valdníðslu.

Virðulegi forseti. Þingflokksformaður Framsfl. hefur ítrekað komið í ræðustól Alþingis til að vísa til þess að gert hafi verið um það samkomulag í félmn. að tillaga yrði flutt, kynnt á þingi en ekki afgreidd og í annað skipti ætla ég að upplýsa þingmenn um það að engin slík tillaga var rædd í félmn. Það sem var rætt á milli þeirra sem ætluðu að styðja sveitarstjórnarfrv. og tillögu um hálendið hefur átt sér stað á milli manna en ekki á formlegum fundi í félmn. Þetta er ég búin að segja áður. Þetta hefur verið stutt af stjórnarliðum sem sæti eiga í félmn.

Það er nauðsynlegt eins og mál hafa þróast að það sé a.m.k. farið rétt með hér í sölum Alþingis. Nóg er nú samt.