Rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:03:02 (6021)

1998-04-30 11:03:02# 122. lþ. 115.93 fundur 333#B rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:03]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þetta var furðuleg yfirlýsing hjá hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur, nýkjörnum þingflokksformanni Sjálfstfl., að koma hér upp þegar nýbúið er að fella tillögu sem við lögðum fram um að tiltekið mál kæmi á dagskrá og ráðast á stjórnarandstöðuna og brigsla henni um að það væri venja hjá henni að hún vildi ekki taka mál til umræðu hér undir þinglok og fara með fleipur sem hæfir ekki alvöru þessa máls.

Við getum verið með misjafnar skoðanir um þetta tiltekna mál. En þetta er alvörumál sem hér er verið að ræða.

Það liggur ljóst fyrir að í hugum okkar stjórnarandstæðinga og velflestra stjórnarliða er umræðan um sveitarstjórnarmálin nátengd frv. umhvrh. Það liggur alveg ljóst fyrir. Stjórnarliðar hafa hafnað því í atkvæðagreiðslu að taka mál umhvrh. á dagskrá, fordæmalaust. Við teljum að hér sé verið að brjóta þingvenju. Við ásökum hæstv. forseta um að gæta ekki að virðingu þingsins við þessa málsmeðferð og þessu máli er vitaskuld ekki lokið. En þegar hv. þm., nýkjörinn formaður þingflokks Sjálfstfl., kemur hér upp með stráksskap þá er augljóst með hvaða hætti stjórnarliðar vilja að þetta þing haldi áfram og þá jafnvel eitthvað fram yfir það sem menn hafa ætlað sér áður. Það er ekki sómi að þessari afgreiðslu meiri hlutans en meiri hlutinn hefur, eins og hæstv. félmrh. hefur sagt, rétt til þess að hafa rangt fyrir sér. Ég ætla ekki að skorast undan málefnalegri umræðu og deilum um efnið en ég frábið mér svona stráksskap og kjánalæti af hv. formanni þingflokks Sjálfstfl.