Rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:15:00 (6027)

1998-04-30 11:15:00# 122. lþ. 115.93 fundur 333#B rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga# (aths. um störf þingsins), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:15]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hefur komið fram að mikið var gert til þess að reyna að ná sáttum um þetta mál. Ég segi það fyrir mitt leyti að ég skrifaði í þeirri trú undir nefndarálit meiri hlutans með þeirri bókun sem var að finna í meirihlutaálitinu. Ekki hvarflaði annað að mér en frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum væri lagt fram til þess að afgreiða það. Það kom a.m.k. aldrei neitt annað fram gagnvart þeirri sem hér stendur. Það eru mér því gjörsamlega ný tíðindi þegar stjórnarþingmenn koma í pontu og lýsa því yfir --- ég held að ég hafi skrifað það rétt eftir að það var sagt áðan --- ,,það stóð aldrei til að afgreiða málið``. Ég er mjög döpur yfir þeim vinnubrögðum sem eru viðhöfð hér og ég beini því til hæstv. forseta að mér finnst í raun eina leiðin út úr þessum vanda vera sú að fresta þessum málum til haustsins. Ekkert knýr á um að sveitarstjórnarlögin séu afgreidd núna þó að segja megi að formlega séð líti lagabálkurinn ekki vel út þegar búið er að taka út úr honum kosningaþáttinn en það breytir í sjálfu sér engu gagnvart sveitarfélögunum. Það væri því langsamlega best að fresta nú þessum málum og að við gæfum okkur tíma til þess í haust að afgreiða þessi mál samhliða. Þá yrði vonandi komin meiri og breiðari sátt um afgreiðslu málsins en er að finna í þingsölum.