Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:27:02 (6035)

1998-04-30 11:27:02# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:27]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Ekki fer á milli mála að frv. til sveitarstjórnarlaga er til 2. umr. Þetta frv. sem verður vonandi að lögum innan tíðar er afar mikilvægt. Ég hlýt að segja það í upphafi ræðu minnar að auðvitað skiptir mjög miklu máli að þetta frv. verði afgreitt og sett ný sveitarstjórnarlöggjöf þannig að þeir sveitarstjórnarmenn sem verða kjörnir í sveitarstjórnarkosningunum á þessu vori vinni frá fyrsta degi á grundvelli þeirrar löggjafar sem verið er að fjalla um.

Veigamestu efnisbreytingarnar á frv. sem lagt var fram eru þríþættar. Eins og hefur rækilega komið fram er það í fyrsta lagi að öllu landinu verði skipt í sveitarfélög en ekki einungis byggðum og afréttum. Í öðru lagi, sem er til mikilla bóta, eru felld brott öll ákvæði laga um kosningu til sveitarstjórna og sett sérstök löggjöf þar um og í þriðja lagi eru gerðar breytingar á skyldum sveitarfélaga varðandi upplýsingagjöf um fjármál sín og úrræði félmrn. til þess að bregðast við alvarlegum fjárhagsvanda sveitarfélags. Þau ákvæði eru styrkt.

Í umræðum hér sem hafa orðið allnokkrar, herra forseti, hefur ekki komið fram veigamikil efnisleg gagnrýni á aðalatriði frv. Fyrst og fremst hefur ágreiningur komið fram um skipulagsmál en veigamikil efnisleg gagnrýni hefur ekki verið sett fram. Ég vil, herra forseti, nefna nokkur atriði, ekki sem sérstaka gagnrýni á frv. síður en svo. Ég tel að það sé vandað að allri gerð og skipti miklu máli. En ég vil nefna nokkur atriði.

Í brtt. meiri hluta hv. félmn. kemur fram í 3. lið brtt. við 7. gr. frv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Sveitarfélög skulu setja sér stefnu um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna og stofnana og er heimilt að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið er í rekstri þeirra.``

[11:30]

Þetta er nauðsynlegt ákvæði og mikilvægt gagnvart sveitarfélögunum. Með því er skýrt í löggjöf hvernig sveitarfélögin geti sett fyrirtækjum sínum arðgreiðslu- og arðgjafarmarkmið. Hins vegar hefði ég talið, og vil að það komi hér fram, að þurft hefði að setja skýrari ákvæði um þetta, reglur um hvernig staðið verði að þessu af hálfu sveitarfélaganna. Ég vænti þess að í framhaldi af þessari lagasetningu verði sett reglugerð sem taki á þessu atriði þannig að viðunandi sé. Það er óeðlilegt að sveitarfélögin hafi algerlega frjálsar hendur til gjaldtöku, eða skattlagningar þeirra sem njóta þjónustu.

Í annan stað vil ég nefna ákvæði sem er undir 11. lið brtt. Þar er gerð breyting á 94. gr. frv. þannig að heimilt verði að sameina sveitarfélög yfir mörk kjördæma. Ég vil draga þetta fram sérstaklega vegna þess að ég tel að þetta sé veigamikið atriði sem stuðla muni að, einfalda og auðvelda sameiningu sveitarfélaganna. Það gæti ef til vill verið huggun harmi gegn, þeim sem haft hafa miklar áhyggjur af smæð og aflleysi sveitarfélaganna. Ég tel að þetta ákvæði muni auðvelda og hvetja til þess að sveitarfélög sameinist, jafnvel á milli kjördæma.

Í 10. lið í brtt. er fjallað um 87. gr. frv. Þar er undirstrikað að Samband ísl. sveitarfélaga sé sameiginlegur málsvari sveitarfélaganna í landinu. Ég tel þetta nauðsynlega viðbót við frumvarpsgreinina eins og hún er orðuð.

Í VII. kafla frv. er sérstaklega fjallað um samvinnu sveitarfélaga og í 81. gr. er tíundaður sá vettvangur sem samvinna sveitarfélaga getur farið fram á. Þetta vil ég nefna ekki síst vegna frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum sem mjög hefur verið til umræðu. Í því frv. er gert ráð fyrir samstarfi um skipulagsmál á hálendinu, milli þeirra sveitarfélaga sem þar koma að en einnig aðila eins og Samband ísl. sveitarfélaga og sett tiltekin ákvæði um það hvar þeir sem yrðu tilnefndir skulu búa, sem ég tel út af fyrir sig ekki skynsamlegt. En hvað um það. Ég tel að með því að undirstrika svo rækilega hlutverk Sambands ísl. sveitarfélaga í 87. gr. sveitarstjórnarlaga, þá auðveldi það eðlilegan framgang og aðkomu Sambands ísl. sveitarfélaga að þessum breytingum varðandi skipulags- og byggingarlögin og ætti að stuðla að því að vel verði staðið að skipulagi hálendisins.

Umræðan hér hefur borið vott um að menn hafi vantreyst sveitarfélögunum til þess að fara með skipulagsmál á hálendi. Ég tel að það sé flest ef ekki allt ofmælt sem þar er sagt af hv. þm. Ég tel að sveitarfélögin hafi góða burði til að sinna þessari skyldu sinni, að sjá um skipulagsmál á hálendi ekki síður en annars staðar. Hins vegar eru í núgildandi skipulags- og byggingarlögum fullgild ákvæði að mínu mati til að hægt sé að standa þannig að málum að viðunandi sé. (ÖS: Að skipulagi miðhálendisins?) Að skipulagi miðhálendisins.

Gagnrýnin sem komið hefur fram hjá hv. þm., á að ekki sé hægt að treysta sveitarfélögunum til þess að sinna þessu, byggist á því að þau hafi ekki afl til þess eða getu. Lögum samkvæmt gegnir skipulagsstjóri ríkisins mjög mikilvægu hlutverki í skipulagsmálum. Hann er ráðgjafi, hann fjallar um skipulagsmálin og kemur að svæðisskipulagi og síðast en ekki síst staðfestir umhvrh. það skipulag sem gert er að undangenginni umfjöllun í sveitarstjórnum og, eftir atvikum, svæðisskipulagsstjórnum.

Ég sé því ekkert sem skapar hættu gagnvart skipulagi hálendisins í því frv. sem hér er verið að fjalla um vegna þess að í gegnum svæðisskipulagsvinnuna geta fulltrúar sveitarfélaga, síðan skipulagsstjóri og síðast umhvrh. farið höndum um skipulagið og haft áhrif á gerð skipulags. Ég tel að óþarflega mikil svartsýni sé hjá hv. þm. sem hafa gagnrýnt þetta og tel að þarna eigi að vera hægt að standa vel að málum. Ég tel hins vegar að til þess að tryggja þetta sem best sé til vinnandi að ná samkomulagi um breytingar á skipulags- og byggingarlögum sem tryggja þetta enn betur og styrki þau ákvæði sem varða svæðisskipulagsvinnuna og komu samstarfsnefndar að þeirri vinnu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja um þetta frv. Varðandi breytingar á lögum um skipulags- og byggingarmál vil ég segja að ég tel ekki skynsamlegt af hv. þm. að ætlast til þess að breytingar á þeirri löggjöf verði keyrðar í gegnum þingið á síðustu dögum þingsins um leið og verið er að afgreiða sveitarstjórnarlög sem hafa fengið mjög ítarlega og góða umfjöllun. Ég held að það sé óskynsamlegt að keyra breytingar á skipulags- og byggingarlögum í gegnum þingið án þess að hægt verði að leita umsagna sveitarfélaganna í landinu. Það er ljóst að ef gera á breytingar á þeirri löggjöf, þá verður að leita umsagna og kalla til aðila. Þar eru auðvitað fyrst og fremst sveitarfélögin. Það væri því ekki góður kostur að gera það núna á síðustu dögum þingsins. Ég minni á þá gagnrýni sem komið hefur fram gagnvart öðrum veigamiklum málum sem menn hafa talið að ekki væri tími til þess að reka í gegnum þingið á stuttum tíma í þinglok.