Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:39:12 (6036)

1998-04-30 11:39:12# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. taldi sérstaklega athyglisvert að ekki hefði komið fram veigamikil efnisgagnrýni á frv. sem hér um ræðir, fyrir utan þessi ákvæði sem tengjast hálendinu. Skyldi nú ekki ástæðan, herra forseti, vera sú að frv. er í raun og veru ákaflega efnisrýrt. Það er merkilega innihaldslítið í ljósi þess að eiga að heita heildarendurskoðun á sveitarstjórnarlögum og fyrir minn smekk verð ég, herra forseti, að segja þetta afar metnaðarlítið heildarfrv. frá hæstv. félmrh. Það er leitun að nýmælum eða einhverju sem tíðindum sætir í því. Þá er auðvitað komið að lykilspurningu málsins. Er þá ekki hv. þm. Sturla Böðvarsson, þrautreyndur sveitarstjórnarmaður, sammála því að það skipti engu máli hvort þessi snepill fer í gegn í vor eða ekki. Það eru enn frekari rök fyrir því að fresta málinu að í sveitarstjórnarfrv. er ekki neitt sem skiptir sköpum fyrir sveitarstjórnarstigið í landinu. Þess vegna er algerlega skaðlaust að það bíði til haustsins.