Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:41:45 (6038)

1998-04-30 11:41:45# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:41]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst svolítið holur tónn í þessu hjá hv. þm. og ekki mjög sannfærandi þegar hv. þm. var að reyna að færa rök fyrir því að þetta þyrfti að afgreiðast af því að í því væri eitthvað sem máli skipti. Staðreyndin er sú að fyrir utan þetta, sem vissulega er stórmál og varðar skipulagslögsögu sveitarfélaganna, ákvæði 1. gr. og síðan ákvæði til bráðabirgða sem er ágreiningshluti málsins, þá er ósköp lítið í þessu frv. sem tíðindum sætir. Mér er kunnugt um það, var upplýstur um það af velviljuðum mönnum, að í umsögn borgarlögmanns til borgarráðs hafi ósköp einfaldlega staðið að þarna væri harla fátt sem tíðindum sætti og þyrfti ekki að fara um það mörgum orðum, punktur. Borgarlögmaður taldi ekki ástæðu til að fara í málalengingar um þetta innihaldsrýra mál. Við mörgu því sem umdeilt hefur verið í sveitarstjórnarlöggjöfinni eða umrætt, t.d. lágmarksíbúatala sveitarfélaga, er ekki hróflað. Þetta frv. sætir engum tíðindum í neinu slíku tilliti þó þar séu einhver lagfæringarákvæði t.d. hvað varðar fjármál sveitarfélaga og kann að vera allt gott um það að segja. Ég bið því hv. þm. um betri rök en þessi fyrir því að ekki megi fresta málinu til haustsins.