Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:47:27 (6042)

1998-04-30 11:47:27# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:47]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar við erum að tala um miðhálendið þá erum við að tala um sameign landsmanna. Það á að vera markmið okkar og metnaður að sem flestir komi að þessum málum og um þetta verði sátt og samlyndi. Það hefur ekki verið. Skipulagstillögur í frv. eru þannig að stór hluti landsmanna kemur ekki að þessu. Vitaskuld eiga þéttbýlisbúar ekkert meiri kröfu en aðrir en þeir eiga jafnmikla kröfu og aðrir að koma að málunum með sanngjörnum hætti. Málið snýst ekki um að reka neinn fleyg þar á milli. Málið snýst um að reyna að búa til skynsamlegt skipulag á þessum málum.

Við höfum lagt til að þetta svæði verði sérstakt stjórnsýslusvæði og aðkoma kjörinna fulltrúa verði tryggð þannig að allir komi að þessu á sanngjarnan hátt, en það er augsýnilegt að hv. þm. vill hafa þessa þröngu hagsmunagæslu og sem mun þegar fram líða stundir líklega stuðla að ófriði einmitt milli þéttbýlis og dreifbýlis. Það er einmitt það sem við, sem leggjum til aðrar leiðir, viljum forðast.