Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:51:40 (6045)

1998-04-30 11:51:40# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:51]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað varðar fjármálaþátt frv. þá hef ég ekki heyrt það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði. Ég þekki það ekki þannig að ég get ekki svarað því. En ég tel að fjármálaþáttur frv. sé mjög mikilvægur vegna þess að hann undirstrikar skyldur sveitarfélaganna til þess að vinna vel að áætlanagerð og eftirliti fjármála sveitarfélaganna.

Hvað varðar það sem hv. þm. nefndi um skipulag alls landsins þá tel ég, eins og ég hef margítrekað, að svæðisskipulagsvinnan kemur auðvitað að öllu landi og þar af leiðandi einnig öllu hálendi. Samstarfsnefndinni er væntanlega ætlað að vinna að þessu þannig að sæmilegt samstarf náist á milli sveitarfélaga innan svæðisskipulagsvinnunnar og ég tel að skipulags- og byggingarlögin eins og þau eru núna, með þeim breytingum sem hafa verið ræddar, muni tryggja eðlilega framvindu málsins.