Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:53:24 (6046)

1998-04-30 11:53:24# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:53]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé einhver misskilningur uppi hjá hv. þm. Sjálfstfl. um hvað það er sem 12. gr. skipulagslaganna heimilar. Það er ekki verið að tala þar, að mínu viti, um skipulagningu lands utan marka sveitarfélaga. Ég tek eftir því að hv. þm. Kristján Pálsson var mér sammála og þar með ósammála hv. þm. Sturlu Böðvarssyni og raunar líka hv. þm. Árna M. Mathiesen. (Gripið fram í: Það getur ekki verið.) Ég tel þess vegna, herra forseti, að þingmenn Sjálfstfl. ættu að lesa þetta svolítið betur. Að vísu hafa allir þrír sem ég nefndi talað um að styrkja þyrfti 12. gr. en þeir hafa hins vegar ekki sagt hvernig ætti að gera það. (ÁMM: Jú, jú.) Hæstv. umhvrh. er annarrar skoðunar því að hann hefur lagt fram sitt frv. Hv. þm. Árni Mathiesen segir: ,,Jú, jú.`` Ég las ræðu hans, hef hana hér í útskrift og ég átti erfitt með að átta mig á hvernig hann vildi styrkja 12. gr. Ég er viss um að í umræðum síðar í dag eða nótt eða á morgun muni hann útskýra það miklu betur.