Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 12:05:17 (6056)

1998-04-30 12:05:17# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[12:05]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þessi umræða sem hefur staðið í meira en tvö dægur er auðvitað afskaplega sérkennileg. Hún er sérkennileg vegna þess að í umræðunni hafa gerst hlutir sem eru ekki nokkur fordæmi fyrir sem ég hef hvorki orðið var við áður þegar ég hef verið að þingstörfum síðustu sjö árin og mér er tjáð af þeim sem mér eru miklu reyndari að hafi aldrei gerst áður.

Undir miðri umræðunni eða eftir að hún hófst hefur verið lagt fram frv. af hæstv. umhvrh. sem hefur verið kynnt sem einhvers konar sáttargjörð af hálfu ríkisstjórnarinnar gagnvart hluta stjórnarandstöðunnar. Þessi hluti stjórnarandstöðunnar, eins og birtist í félmn., eru Alþb. og a.m.k. formaður félmn. sem er utan flokka.

Það gerist síðan í umræðunni, herra forseti, að aftur og aftur er upplýst að verið er að gera einhvers konar hrossakaup innan Framsfl. til þess að kaupa til fylgis við frv. þá sem hafa staðið uppi í hárinu á hæstv. ráðherrum. Það hefur komið fram að næstum því allir sem hafa talað af hálfu Framsfl. hafa með einum eða öðrum hætti lýst einhvers konar vilja til þess að breyta frv. Meira að segja Brúnastaðabóndinn sjálfur, hv. þm. Guðni Ágústsson, upplýsti í ræðu í gær að að sjálfsögðu væri nauðsynlegt að véla um þetta frv. betur og breyta því í einhverjum greinum. Þetta er auðvitað með öllu ólíðandi, herra forseti.

Það mál sem verið er að ræða, sveitarstjórnarmál, er í sjálfu sér mikilvægt en þær greinar sem hafa verið hvað mest áberandi í umræðunni er bráðabirgðaákvæðið og það er að sjálfsögðu 1. gr. Þetta eru þær greinar sem gera ráð fyrir því að staðarmörk sveitarfélaga verði framlengd inn á miðhálendið. Þetta er orsök þeirra miklu deilna sem hafa staðið síðustu daga. Aðdragandi þeirra var talsverður og innan félmn. höfðu menn skipst á skoðunum um þetta og í þeim tilgangi að reyna að sætta sjónarmið er kynnt frv. sem á að leggja fram. Það er þetta frv. hæstv. umhvrh.

Tveir hv. þm. stjórnarliðsins, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og hv. þm. Pétur H. Blöndal, gera ákveðna fyrirvara við frv. til sveitarstjórnarlaga. Í áliti meiri hluta nefndarinnar sem þau standa að illu heilli er gerð grein fyrir þessum fyrirvörum og þar segir, herra forseti, að þau geti ekki staðið að frv. nema með fyrirvara vegna þess að þau telji að fulltrúar landsins alls eigi að koma að skipulagi á miðhálendinu. Þegar sáttargerðinni sjálfri, frv. hæstv. umhvrh., er síðan dreift kemur í ljós að þessir tveir hv. þm. hafa verið sviknir. Það kemur einfaldlega í ljós að það er með engu móti hægt að halda því fram, eins og frv. lítur út núna, herra forseti, að fulltrúar alls landsins komi að skipulagi miðhálendisins.

Ég vek athygli á því að í frumvarpsgerðinni, sem hér hefur verið dreift og ég vænti þess að sé e.t.v. hin sama og kann enn að vera í umferð, er talað um að fulltrúar þeirra sveitarfélaga, sem liggja að miðhálendinu, eigi að skipa 12 fulltrúa í stjórnarnefndina og síðan eru taldir upp aðrir sex fulltrúar sem eiga líka að koma úr öðrum stöðum. En það er alveg ljóst að fjölmörg sveitarfélög falla óbætt hjá garði. Ég bendi á stór sveitarfélög eins og Akureyri. Það hefur enga möguleika á því að koma áhrifum sínum til framkvæmda. Ég bendi á smá sveitarfélög eins og Villingaholtshrepp. Ég bendi á Hraungerðishrepp sem sem vor ástkæri forseti, hv. þm. Guðni Ágústsson, er borinn og barnfæddur og ber enn sterkar taugar til. Af hverju á að gera þetta fólk að landleysingjum þegar kemur að miðhálendinu? Ég spyr, herra forseti: Getur það verið að hv. þm. Pétur H. Blöndal sem er yfirleitt manna vandaðastur í vinnubrögðum og ítarlegastur í framsetningu hafi látið teyma sig á asnaeyrunum? Getur það verið að hann hafi fallið frá fyrirvara sínum, eins og hann gerði í merkri ræðu sinni í gær, á röngum forsendum? Ég held því fram, herra forseti, að svo sé. Ég held því fram að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki bara dregið þessa tvo hv. þingmenn stjórnarliðsins á asnaeyrunum. Ég held því fram að hún hafi líka beitt blekkingum gagnvart ábyrgðarfullum stjórnmálamönnum úr Alþb. sem töldu sig hafa náð samkomulagi.

Síðan kemur í ljós í umræðum hér, herra forseti, að aftur og aftur er verið að gera einhvers konar baktjaldasamninga innan Framsfl. Hvernig stendur á því, herra forseti, að alls er freistað til þess að reyna að stýfa vængi þeirra sem eru að fljúga sig lausa frá þeim fráleitu frv. sem hafa komið fram í þessum málum? Það er vegna þess að innan Framsfl. ríkja miklar deilur um þetta mál.

Innan Sjálfstfl. eru líka deilur en þær eru öðruvísi. Það er Sjálfstfl. sem hefur staðið í ístaðið og ekki viljað að frv. hæstv. umhvrh. verði lagt fram. Og hvers vegna? Vegna þess að nánast allir sjálfstæðismenn sem hafa talað í þessari umræðu telja það óþarft.

Hv. þm. Árni M. Mathiesen gekk einna lengst vegna þess að í röksemdafærslu sinni klykkti hann út með því að segja að frv. væri ófullnægjandi í alvarlegum atriðum. Hv. þm. Pétur Blöndal tók undir að því mætti breyta, Kristján Pálsson líka og svo mætti lengi telja.

Innan Framsfl. var staðan þannig, herra forseti, að fjórir þingmenn höfðu gert fyrirvara við málið þegar það kom fram fyrst. Það var hv. þm. Gunnlaugur M. Sigmundsson, þingmaður Vestf. Það var hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og stallbróðir hennar af Suðurnesjum, hv. þm. Hjálmar Árnason. Og það var hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson sem ekki aðeins er formaður umhvn. heldur er hann varaformaður þingflokks Framsfl.

Hv. þm. Gunnlaugur M. Sigmundsson gerði fyrirvara sinn vegna þess að hann taldi að fulltrúar Vestfirðinga hefðu enga aðild að málinu. Sjálfur er ég sprottinn úr vestfirskri moldu og síst vil ég lasta það að Vestfirðingar komi að málinu. En ég bendi á að í mínu eigin kjördæmi sem er tugfalt stærra að mannfjölda en Vestfirðir, koma aðeins tveir fulltrúar. En auðvitað nægði þetta, herra forseti, til þess að hv. þm. Gunnlaugur M. Sigmundsson féll frá fyrirvara sínum.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom og hélt ræðu í gær eða fyrradag þar sem hún bókstaflega gumaði af því að það væri hún sem hefði náð fram þeirri sáttargjörð sem birtist í því frv. hæstv. umhvrh. sem hann þorir ekki að láta ræða í þinginu. Hún taldi sér það sérlega til tekna að það væru hugmyndir hennar sem í því kæmu fram. Það var hins vegar dapurlegt á að hlusta þegar ræðu hv. þm. vatt fram vegna þess að þá kom í ljós að hún skildi til að mynda ekki hvert verksvið svæðisskipulagsnefndarinnar er né yfir höfuð hvert verksvið slíkra nefnda, samvinnunefnda eða einstakra svæðisskipulagsnefnda felur í sér. Hún taldi til að mynda að byggingarmálin væru öll komin undir þessa nefnd. Það kom glöggt fram í hennar máli. Ég innti hana nokkuð eftir því, herra forseti, hver skilningur hennar á þessu væri og það kom í ljós að hv. þm. var fullkomlega blönk að þessu leyti. Með öðrum orðum, sá ágæti þingmaður sem kom hingað og barði sér á brjóst eftir að hafa slegið sig til riddara í ásýnd fjölmiðlanna og þjóðarinnar, kom hingað og sagði: ,,Sjáið hverju ég hef náð fram með mínum einarða vilja.`` Og í ljós kom að hún hafði ekki einu sinni skilið hvað það var sem hún hafði náð fram. Þetta, herra forseti, var giska dapurlegt.

Enn dapurlegra var það síðan að í ljós kom að hún gerði sér ekki grein fyrir því að frv. fullnægði ekki þeim skilyrðum sem hv. þm. hafði sett upp til þess að falla frá fyrirvara sínum.

Ég rifja hins vegar upp, herra forseti, að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og stallbróðir hennar, Hjálmar Árnason, riðu ekki einsömul í þessu máli. Á bak við þau stóð ályktun Framsfl. á Suðurnesjum. Málið var auðvitað rætt þar í þaula. Hvers vegna? Vegna þess að þetta er mál sem skiptir alla þéttbýlisbúa miklu máli. Á Suðurnesjum komu framsóknarmenn saman og ræddu þetta mál og niðurstaða þeirra varð sú að ekki væri hægt að sætta sig við það frv. sem var upphaflega fram sett. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sem illu heilli er ekki stödd í þingsal og getur því ekki hlýtt á mál mitt kom ekki bara fram á ráðstefnu til þess að mótmæla hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni sem henni fannst þá ekki ganga nógu langt, heldur skrifaði hún greinar og kom fram í fjölmiðlum þar sem hún ítrekaði að hún mundi ekki standa að frv. óbreyttu. Niðurstaðan er hins vegar sú að hv. þm. hefur náð því fram að fólk hennar, kjósendur hennar í Reykjanesi, ná þeim glæsilega ávinningi að hafa 1/18 af samvinnustjórninni. Hv. þm. kemur síðan hingað, ber sér á brjóst og segir: ,,Ég náði þeim áfanga að næstfjölmennasta kjördæmi landsins fær allra náðarsamlegast þann mola af borðum hæstv. ríkisstjórnar að hafa einn fulltrúa af 18 til þess að véla um skipulag miðhálendisins.`` Það er langt síðan, herra forseti, að ég hef orðið vitni að jafndapurlegum ósigri og þessum. Mér þykir líka að verið sé að bíta höfuðið af skömminni að hrósa sér síðan af því.

[12:15]

Af þessum þingmönnum Framsfl. stendur einn upp úr. Það er hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson sem viðraði sína fyrirvara í upphafi máls síns þegar frv. var lagt fram með þeim hætti að hann var miklu hófsamari í málflutningi sínum en t.d. þeir þingmenn aðrir sem ég hef hér nefnt úr Framsfl. En hann hertist þegar á leið og þó fyrst fannst manni sem harkan brynni sem logandi eldur úr augum hans þegar þessu hræðilega hraklega frv. hæstv. umhvrh. var dreift í sölum í gær. Ég held að enginn af þeim fjölmörgu sem hér hafa talað, með fullri virðingu fyrir mörgum ágætum talsmönnum bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, hafi gert sér jafnskýra grein fyrir því og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson hversu gallað það frv. var.

Hann benti t.d. hv. þingkonu Siv Friðleifsdóttur á að fjölmargir smáhreppar, sem hvorki tilheyra Reykjaneskjördæmi og að sjálfsögðu ekki Reykjavík né eru aðlægir miðhálendinu, eru sviptir öllum möguleikum á því að koma að skipulagi þeirrar perlu sem miðhálendið er. Ég spyr þess vegna herra forseta: Er það forsvaranlegt að íbúar þessara hreppa skuli teknir sérstaklega út fyrir sviga, gerðir að einhvers konar annars flokks borgurum og sagt við þá: ,,Þið megið ekki koma að skipulagi þessa mikilvæga svæðis.`` Ef hv. þm. Guðni Ágústsson, óðalsbóndasonur frá Brúnastöðum, heyrði mál mitt, þá mundi ég að sjálfsögðu spyrja: Sættir hann sig við þessa meðferð á sínu ágæta fólki? Að sjálfsögðu gerir hann það ekki.

Herra forseti. Hv. þm. Guðni Ágústsson kom upp í ræðustól í gær og benti á það í umræðum um fundarstjórn forseta að á þessu frv. væri einmitt þessi meinbugur sem ég var að reifa. Hann sagði að það væri ekki ásættanlegt að t.d. íbúarnir í fæðingarhreppi hans og í mörgum smærri hreppum í kjördæmi hans væru sviptir möguleikanum til þess að fara eins og aðrir Íslendingar með einhvers konar áhrif á skipulag miðhálendisins.

Hv. þm. upplýsti það jafnframt að hann hefði rætt við hæstv. umhvrh. og hæstv. félmrh. og ekki bara annar þeirra heldur báðir hefðu fullvissað hann um að þeir mundu beita sér fyrir því að frv. hæstv. umhvrh. sem hér var dreift til kynningar í gær yrði breytt þannig að í stað þess að sveitarfélög aðlæg miðhálendi ættu að skipa 12 fulltrúa þá kæmu héraðsnefndir. Þarna var verið að reyna að draga úr þessum alvarlega galla sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson benti á og sem hv. þm. Guðni Ágústsson hafði ekki skilið áður en sá á svipstundu og lagðist gegn.

Herra forseti. Ég er að reyna að útskýra að frá því að frv. var fyrir tveimur dögum varpað hér eins og handsprengju inn í umræðurnar, þá hafa menn í óða önn innan Framsfl. verið í því sem heitir á erlendri tungu ,,Damage Control`` eða slysavörn, að reyna að sefa öldur reiðinnar sem þar rísa. Það er gert þannig að menn eru teknir á eintal í skúmaskotum, inn í myndaherbergi, inn í ýmsa afkima þingsins og þar er verið að véla um hvernig frv. á að líta út. Þar er verið að gera samninga. Þar er verið að ráða til lykta þeim málum sem eru undirstaða þess ágreinings sem hér hefur komið fram.

Herra forseti. Ég veit að forsetadæmið er mér sammála um að þetta eru auðvitað vinnubrögð sem eru algerlega ólíðandi. Svona er ekki hægt að þola. Þingheimur hlýtur að krefjast þess af hæstv. forseta að menn njóti jafnræðis. Stjórnarandstöðuþingmenn, eins og t.d. hv. þingmenn Alþb. sem voru aðilar að þeirri sáttargjörð sem nú hefur verið rofin, eiga auðvitað heimtingu á að fá að fylgjast með því til jafns við stjórnarliðana hvaða breytingum frv. tekur. Það er sanngjörn krafa og annað eru vinnubrögð sem er ekki hægt að réttlæta. En því miður var það svo að hæstv. umhvrh. treysti sér ekki til þess að greiða atkvæði með því að hans eigið frv. kæmi á dagskrá. Þetta mál sem er raunar stærsta málið að því er ég hygg og að því er stjórnarandstaðan hyggur í þeirri umræðu sem hér liggur undir þó að sjálft frv. hæstv. ráðherra hafi ekki fengist á dagskrá. Það er hins vegar ekki þungvægara en svo í augum tiltekinna þingmanna stjórnarliðsins, eins og hv. þm. og nýkjörins formanns þingflokks sjálfstæðismanna, að hún taldi þetta lítið mál. Þarna birtist auðvitað gap ginnunga í þeim skilningi sem stjórnarandstaðan og stjórnarliðið hefur á þessu máli. Þetta er lykilatriði. Ég fullyrði það, herra forseti, að með þessu er verið að blekkja stjórnarandstöðuna. Sér í lagi er verið að blekkja þá stjórnarandstæðinga sem létu teygjast til fylgis við það frv. til sveitarstjórnarlaga sem hér liggur fyrir á grundvelli þess að tekist hefði sátt um það hvernig ætti að koma að stjórn skipulagsvinnunnar á miðhálendinu. Enginn hefur lýst þessu betur en hv. þm. Ögmundur Jónasson. Enginn hefur lýst betur þeirri upplifun svika sem Alþb. taldi sig verða fyrir með framvindu málsins en hv. þm. Ögmundur Jónasson og enginn hefur stigið skrefið jafnrækilega til fulls til að slíta sig frá þessu svikasamkomulagi eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sem lýsti því einfaldlega yfir, eins og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir líka, að með þessu væri auðvitað grundvöllur samkomulagsins og þar með fylgis Alþb. við frv. brostinn.

Þessi óhreinu vinnubrögð sem eru nýlunda hér valda því auðvitað, herra forseti, að þeir þingmenn sem hafa tekið mark á því að í frv. fælist einhvers konar málamiðlun treysta ekki stjórnarliðunum. Það er nýlunda í þessum sölum að menn noti orð eins og hér voru notuð fyrr í morgun af ýmsum hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Þau orð eru hins vegar spegill þeirra vonbrigða sem menn upplifa vegna þessara vinnubragða.

Ég spyr líka, herra forseti: Er einhvers staðar kunnugt, einhvers staðar á byggðu bóli, í einhverju þjóðþingi á allri kringlunni, að það gerist að einn hæstv. ráðherra leggi fram frv. til kynningar en hafni því síðan sjálfur að málið komi á dagskrá, hafni því í atkvæðagreiðslu, fái alla stjórnarliðana til þess að styðja sig í því? Getur verið að það sé vegna þess að innan stjórnarinnar er rammur ágreiningur? Hv. þm. Árni M. Mathiesen tók sér talsvert vald hér í gær þegar hann kom upp og mælti kategórískt fyrir munn hæstv. umhvrh. að þetta mál yrði ekki á dagskrá. Það hefði verið lagt fram til kynningar og hæstv. umhvrh. mundi ekki æskja þess að það færi á dagskrá.

Það kom í ljós að hryggsúlan í hv. þm. Árna M. Mathiesen er giska sterk eins og ég auðvitað þekki og hann hafði hæstv. umhvrh. undir. Það er athyglisvert að það er hv. þm. Árni M. Mathiesen sem hefur haft forgöngu fyrir þingmönnum Sjálfstfl. varðandi afstöðu til þessa frv. Það er hann sem fyrstur kom upp af hálfu Sjálfstfl. og lýsti því að það gengi ekki nógu langt í ákveðnum atriðum og lýsti því jafnframt að hann teldi að frv. væri óþarft, hægt væri að ná markmiðum þess, eins og hann sagði og ég mun koma að síðar í dag í ræðu minni, með því að beita 12. gr. núgildandi skipulagslaga að breyttum sveitarstjórnarlögum og e.t.v. með því að styrkja greinina. Hann taldi að þar væri kominn fullur flötur á því að ná fram þeim markmiðum um aðkomu fleiri aðila sem hæstv. umhvrh. gerði að talsverðu máli og reifaði sem helsta tilgang síns frv. í ræðunni sem hann flutti er hann fleygði því hérna inn. Það sem meira var að hv. þm. Árni Mathiesen taldi reyndar að það væri hægt með gagngerðri breytingu á nákvæmlega því fyrirkomulagi sem hæstv. umhvrh. lagði til að tryggja einmitt lýðræðislegri afkomu og ég er reyndar hv. þm. sammála um það eins og ég mun e.t.v. reifa hérna síðar.

Staðan er sem sagt þannig, herra forseti, að þegar við erum að ræða þetta mál þá blasir það eiginlega við að nánast allir þingmenn stjórnarliðanna sem hafa komið að efnislegri umræðu hafa lýst yfir vilja sínum til þess að breyta frv. Stöku stjórnarliði sem hefur einnig tekið þátt í umræðum um stjórn forseta hefur viðrað svipuð viðhorf.

Ég sagði áðan að af hálfu Sjálfstfl. væri það hv. þm. Árni Mathiesen sem reifaði ákveðin viðhorf en ég vek athygli á því og rifja það upp, herra forseti, að ekki hafði hæstv. umhvrh. nema rétt lokið máli sínu þegar hann kynnti frv. til breytinga á skipulagslögum en hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson spratt upp eins og fjöður og lýsti strax alvarlegum athugasemdum sínum við þetta frv. Hv. formaður umhvn. lýsti því í mjög mergjuðu máli, vel rökstuddu og útfærðu, að honum væri ómögulegt að styðja málið af mörgum ástæðum.

Það eru ekki bara þessir tveir sem hafa lýst fyrirvörum við málið. Fyrir utan hv. þm. Árna M. Mathiesen og Ólaf Örn Haraldsson kom hv. þm. Kristján Pálsson einnig upp í gær. Hann mærði að vísu frv. í fyrstu en þegar því var lokið þá tók hv. þm. að lýsa því yfir að hann hefði gjarnan viljað sjá fulltrúa ferðaþjónustu, hann hefði viljað sjá fulltrúa útivistarmanna, ferðafélaga og náttúruverndarsamtaka koma að stjórn skipulagsvinnunnar á miðhálendinu. Ég spurði hv. þm. í andsvari hvort hann væri þá reiðubúinn til þess að beita sér fyrir breytingum á frv. sem mundu leiða til þess að þeir aðilar ættu færi á því. Hv. þm. kvað já við. Þar með voru þeir orðnir þrír sem ekki felldu sig við frv. hæstv. umhvrh. í óbreyttum farvegi.

Hv. þm. Guðni Ágústsson tók til máls í gær og setti þinghald í uppnám þegar hann upplýsti að hann hefði heldur ekki getað fellt sig við tiltekna kafla í frv. hæstv. ráðherra og hefði, eins og ég hef þegar reifað, rætt breytingar við tvo ráðherra og fengið vilyrði frá þeim um að þeim yrði fylgt. Þar með eru hinir óbreyttu þingmenn stjórnarliðsins orðnir fjórir sem hafa reifað einhvers konar vilja til að breyta frv. og þar með óánægju sína með það að einhverju leyti.

Ég tel þó að mestu tíðindin í þessu hafi orðið, herra forseti, þegar hæstv. félmrh. Páll Pétursson kvaddi sér hljóðs í þeirri sömu umræðu og hv. þm. Guðni Ágústsson vakti með upplýsingum sínum í umræðunni í gær og lýsti því yfir sjálfur að það væri forsendan fyrir ákveðnum hlutum í frv. til sveitarstjórnarlaga að breytingar yrðu gerðar á frv. hæstv. umhvrh. Hann tiltók tvö atriði sem hann taldi algerlega nauðsynlegt að breyta. Annað er einmitt sú breyting að skipta út fulltrúum sveitarfélaga og gera í staðinn að fulltrúum héraðsnefnda. Þarna erum við komnnir með fimm hv. þm. stjórnarliðsins sem hafa lýst yfir að frv. hæstv. umhvrh. sé ófullnægjandi. Einn af þeim er ráðherra. Sá sjötti bættist svo í hópinn rétt áðan, herra forseti, þegar hv. þm. Sturla Böðvarsson fetaði í fótspor hv. þm. Árna M. Mathiesens og lýsti því yfir að líkast til væri hægt að ná svipuðum markmiðum og frv. hæstv. umhvrh. miðar að með núgildandi lögum um skipulagsmál að breyttum sveitarstjórnarlögum samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir. Með öðrum orðum, hann var að segja eins og hv. þm. Árni M. Mathiesen sagði nokkrum sinnum í gær, að í rauninni væri frv. óþarft. Þetta, herra forseti, speglar auðvitað ákveðinn lykilágreining milli stjórnarflokkanna. Þingmenn Sjálfstfl. hafa a.m.k. þrír lýst því yfir í umræðunni að hægt væri að ná markmiðum frv. með því að beita styrktri löggjöf eða styrktri 12. gr. núgildandi laga um skipulagsmál og þar með eru þeir að segja að hæstv. umhvrh. hafi í rauninni verið að leggja fram frv. sem þeir fella sig ekki við og telja óþarft. Þar með eru þeir auðvitað líka að segja, með þessu, að sterklega komi til greina að frv. verði breytt. Sá þingmaður sem einn situr í salnum núna, herra forseti, lýsti því beinlínis yfir að hann mundi beita sér fyrir því að frv. yrði breytt í sumar og tók það fram aftur og aftur að málið væri hér einungis til kynningar og að sjálfsögðu yrði því breytt. Það eru náttúrlega engin gleðitíðindi að heyra slíkt fyrir fulltrúa þeirrar aumu stjórnarandstöðu sem taldi að hún hefði gert einhvers konar samning. Hv. þm. Árni M. Mathiesen brosir yfir því en það nú eigi að síður nokkurt alvörumál að hafa það yfir höfði sér, hafandi gert samkomulag, að Sjálfstfl. ætli enn einu sinni að valta yfir Framsfl. Auðvitað vofir yfir þessu sú hótun að frv. eigi að breyta eða jafnvel að það eigi að draga til baka vegna þess eins og talsmaður Sjálfstfl. í umhvn. sem hér situr í salnum lýsti yfir, að það er í rauninni óþarft.

[12:30]

Herra forseti. Ég hef rætt nokkuð aðganginn að þessu máli sem auðvitað hefði verið með öllu tilefnislaust ef ekki hefði komið til þessara hraklegu vinnubragða af hálfu stjórnarliðsins. Það hefur verið kvartað nokkuð undan því í umræðunni, herra forseti, að það frv. sem hér er á dagskrá, þ.e. frv. til sveitarstjórnarlaga, hafi ekki hlotið nægan sess í umræðunni. Hv. stjórnarliðar hafa jafnvel farið í fjölmiðla og kvartað undan því á öldum ljósvakans að stjórnarandstæðingar séu að gera sér leik að því að ræða ekki það mál sem er á dagskrá heldur ræði þeir frv. sem ekki er komið á dagskrá. Þó er það ljóst að hver einasti stjórnarliði sem hér hefur tekið til máls hefur rætt þetta frv. Um stjórnarliðana gildir það núna, herra forseti, eins og gildir um kýrnar á nýársnótt, að þeir hafa skyndilega fengið málið vegna þess að þeir ræða hér hver um annan þveran frv. sem liggur fyrir. Yfirleitt er það svo að þeir eru málstola eða heftir, múlbundnir af forustumönnum sínum þegar kemur að þessum tíma þinghaldsins. En þeir hafa eigi að síður hver um annan þveran tekið til máls og allir, hver og einn einasti, hefur rætt þær breytingar á skipulagslögum sem voru kynntar í frv. hæstv. umhvrh. Það situr því síst á þeim að hlaupa með það undir nafnleynd í Ríkisútvarpið og kvarta undan því að þingmenn stjórnarandstöðunnar séu með einhvers konar leiðindi hér eða einhvers konar tafir. Menn hafa einfaldlega verið að ræða það mál sem er hið raunverulega ágreiningsefni sem stjórnarliðið sjálft hefur tengt frv. til sveitarstjórnarlaga með ákveðinni sátt við hluta af stjórnarandstöðunni, en hefur nú rofið.

Um það frv. sem hér liggur hins vegar fyrir, herra forseti, frv. til sveitarstjórnarlaga, er það að segja að mér þykja breytingarnar á því vera afskaplega lítilvægar. Það er auðvitað sláandi þegar maður horfir til þess að þetta eru lög sem hafa verið í gildi síðan 1986. Á þeim 12 árum sem síðan eru liðin hafa orðið verulegar sviptingar á vettvangi sveitarstjórnarmála. Þar hafa orðið gjörbreytingar sem stappa kannski nærri að vera stökkbreytingar, a.m.k. fyrir sum sveitarfélög sem ekki eru lengur til vegna þess að þau hafa runnið saman við önnur. Á þessum tíma er það alveg ljóst að af hálfu stjórnvalda hefur verið mikill þrýstingur á að sveitarfélög sameinuðust, m.a. og kannski ekki síst til þess að hægt sé að flytja til þeirra í ríkari mæli aukin verkefni. Þetta er partur af lýðræðislegri valddreifingu sem segja má að um ríki orðið eins konar sátt til að mynda á Alþingi Íslendinga. Þess vegna hefði maður talið að þegar menn loksins taka sig til og breyta þessum lögum eftir 12 ár þá mundu menn gera verulega bragarbót á, menn mundu taka á málum sem lytu að einhverjum grundvallaratriðum. Ég tel sjálfur að ekki sé breytingar nema á einum grundvallarþætti að finna í þessu frv. og það eru þrjú, jafnvel fjögur atriði sem varða fjármál sveitarfélaga. En annað, herra forseti, er varla hægt að kalla verulegar breytingar. Það er merkilegt þegar farið er yfir umsagnir í þessu máli, sem ég ætla ekki að gera hér og ætla ekki að þreyta þingmenn á, að þá kemur fram að í gögnum frá stærsta sveitarfélaginu, Reykjavíkurborg, að það er skoðun ágæts borgarlögmanns að breytingarnar skipti varla nokkru máli. Hann segir eftirfarandi í umsögn sinni til borgarráðs frá 17. mars á þessum vetri, með leyfi forseta:

,,Breytingarnar eru ekki stórvægilegar en fyrst og fremst er verið að sníða af annmarka og bæta við ákvæðum sem reynslan hefur leitt í ljós að vantað hefur.`` Síðan segir hann þessi gullvægu orð: ,,Ekki þykir ástæða til þess að telja breytingarnar upp.``

Herra forseti. Hér hefur hver stjórnarliðinn á fætur öðrum komið, ekki síst hæstv. félmrh., og barið sér á brjóst yfir því hvað þetta sé merkilegt frv. og þetta séu mikil kaflaskipti í sögu sveitarstjórnarmála á Íslandi og það kemur í ljós að borgarlögmaður, sem ekki er beinlínis hallur undir stjórnarandstöðuna, gefur því þann dóm að hann nennir ekki einu sinni að reifa þessar breytingar í umsögn sinni til borgarráðs. Hann telur þær með öðrum orðum ekki skipta nokkru einasta máli. Það var athyglisvert í máli hv. þm. Sturlu Böðvarssonar áðan að þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti honum á að breytingarnar væru ekki sérstaklega mikilvægar, þá greip hann til varna og til sérstaks ákvæðis sem er að finna í breytingartillögum meiri hlutans þar sem kveðið er á um arðgreiðslur fyrirtækja í eigu sveitarfélaga. En það vill svo til að sú breyting var hvorki upprunnin meðal meiri hluta félmn. né heldur í félmrn. Nei, þá breytingu orðrétta er einmitt að finna í þessu ágæta bréfi hins hógværa borgarlögmanns til borgarráðs. Með öðrum orðum, einu veigamiklu breytingarnar sem sveitarstjórnargúrúinn í þessum sölum, hv. þm. Sturla Böðvarsson, telur að skipti verulegu máli, eru breytingar sem komu utan frá og ekki voru lagðar til af hálfu hæstv. félmrh.

Kvartað hefur verið undan því, herra forseti, og kannski af einhverju tilefni, að þeir sem hafa rætt þetta frv. hér hafi ekki farið efnislega í það. Þess vegna ætla ég að leyfa mér, herra forseti, nú í fyrri hluta ræðu minnar, að fara svolitlum efnislegum orðum um það sem mér þykir horfa til bóta og líka það sem mér þykir vanta. Í þessu frv. er það auðvitað höfuðgallinn að mínu viti, sem kemur strax fram í 1. gr., að þar er lagt til að landið skiptist allt í sveitarfélög en ekki aðeins byggðin og afréttir. Á þessu er síðan hert í bráðabirgðaákvæðinu. Hérna er um grundvallaratriði að ræða sem ég á svo eftir að ræða síðar. En fyrst ég er kominn í efnislega umræðu um frv. sjálft er ljóst að hér er verið að stíga mikið óheillaskref. Mér hefur láðst, herra forseti, að taka með mér skýrslu sem skrifuð var að tilhlutan fyrsta umhverfisráðherrans sem Íslendingar áttu, Júlíusar Sólnes. Það var skýrsla sem skilað var til þingsins að mig minnir árið 1990 og þar var einmitt tekið á þessu. Þar var nefnd vísra manna. Þar voru fulltrúar allra ráðuneytanna og fulltrúar allra stjórnmálaflokka og þar var nákvæmlega tekið á þessu. Þar var ræddur sá möguleiki að draga staðarmörk sveitarfélaga inn á miðhálendið. Niðurstaða þessa fólks sem vélaði um þetta í eitt eða tvö ár var að það væri varla gerlegt, herra forseti. Niðurstaðan var einmitt sú að það væri varla gerlegt. Þarna átti líka sæti einn fulltrúi félmrn. Þess vegna tel ég, herra forseti, án þess að ég ætli að rekja efni þeirrar skýrslu, að full rök séu fyrir því sem búið er að færa að þessi tilhögun er ekki af hinu góða. Hún er einfaldlega slæm.

Í þeirri skýrslu var einmitt að finna ágæta skilgreiningu hafða eftir fyrrum forseta Alþingis og forsetaframbjóðanda, Gísla Sveinssyni, á orðinu afréttir. Ég vildi ræða það talsvert vegna þess að hér kemur fram sú skoðun hæstv. félmrh. að hann túlkar lögin þannig að landið allt skiptist í sveitarfélög en ekki einvörðungu byggðin og afréttir. Við hæstv. félmrh. ræddum þetta nefnilega einhvern tíma fyrr á þessu þingi og þá kom fram ákveðin skoðun á því hvað fólst í orðinu afréttir. Ég hefði gjarnan viljað, hefði ég haft þessa skýrslu hér við höndina, lesa upp úr máli Gísla Sveinssonar. En það eru ekki tök á því, herra forseti.

Í þeim breytingum sem hérna eru lagðar til er það virðingarvert og ber að fagna því að loksins er lögð af sú skylda sem sveitarfélögum er lögð á herðar með gildandi lögum varðandi nafngiftir. Það þarf ekki lengur að kalla sveitarfélög byggð eða bæ. Þessi ákvæði gildandi laga hafa illu heilli orðið uppspretta hræðilegra orðskrípa þegar glæsileg nöfn eru skeytt saman við byggð eða borg og þegar viðskeytið er komið verða þessi fallegu nöfn að hálfgerðum nafnleysum og ris þeirra og flug sem menn hafa upplifað týnist. Þetta skiptir auðvitað allverulegu máli, t.d. fyrir sjálfsmynd þeirra sem þarna búa og þess vegna fagna ég því að þetta er svona.

Hérna er líka lögð til af hálfu meiri hluta félmn. ákveðin breyting á ákvæðinu til bráðabirgða sem ég hef rætt í nokkru máli. Þar er lagt til að óbyggðanefndinni, sem er að finna í frv. um þjóðlendur og hér verður rætt einhvern tíma í næstu viku, verði falið nýtt hlutverk og hún eigi nú ekki aðeins að véla um eignarhald og kalla eftir kröfum um eignarhald á miðhálendinu til þess að gera okkur að lokum kleift það sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson orðaði svo glæsilega í blaðagrein í Morgunblaðinu, að ljúka landámi Íslendinga með því að slá eign okkar á miðhálendið. Lagt er til að óbyggðanefndin eigi að fara í það núna að skera úr um ágreining um stjórnsýslumörk og önnur mörk á miðhálendinu. Þetta er út af fyrir sig ekki heimskuleg hugmynd og raunar ágæt á grundvelli þess bráðabirgðaákvæðis sem er að finna í frv. sem ég er hins vegar á móti. En ég velti því hins vegar fyrir mér í þessari umræðu, herra forseti, vegna þess að við jafnaðarmenn erum með hugmyndir um að miðhálendið verði ein stjórnsýslueining, að kannski hefði verið flötur á því að nota einmitt óbyggðanefndina í þeim tilgangi. Það hefði verið hægt að styrkja hana eins og hún kemur fyrir í þjóðlendufrv. og færa henni það hlutverk að verða eins konar stjórnsýslunefnd, eins konar hreppsnefnd fyrir miðhálendið. Ég hefði talið það afskaplega jákvætt.

Herra forseti. Lögð er til breyting á 94. gr. sveitarstjórnarlaganna þannig að nú er hægt að sameina sveitarfélög yfir mörk kjördæma án þess að það hafi áhrif á skipan kjördæmanna þegar kemur að alþingiskosningum. Þetta er mjög mikilvægt atriði vegna þess að þó að dæmin séu fá þá eru þau nokkur og eitt nýlegt um þörfina á því að gera svona og um vilja íbúanna til þess að takast á herðar slíkar breytingar. Ég tel að þessi breyting á 94. gr. sé í rauninni alveg prýðileg.

[12:45]

Að því er varðar sveitarstjórnarlagafrv. sem hérna er til umræðu vildi ég ræða þær breytingar sem gerðar eru varðandi fjármál sveitarfélaga. Ég held nefnilega að það sem skiptir jafnvel mestu máli í þessu frv. sé hvernig sveitarfélögin eru öguð í fjármálum. Við þekkjum auðvitað öll að þau hafa í sumum tilvikum safnað óhóflegum skuldum og þurft hefur að grípa til neyðarráðstafana þeim til bjargar. Ég vek sérstaka athygli á því, herra forseti, að í frv. sem liggur fyrir, 61. gr., segir, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórn skal árlega gæta þess svo sem kostur er að heildarútgjöld sveitarfélags, þar með talin rekstrarútgjöld, fari ekki fram úr heildartekjum þess.``

Hvað þýðir þetta, herra forseti? Ég skil þetta raunar svo, góðu heilli, að þarna sé í rauninni verið að banna sveitarfélögum að safna skuldum. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi. Þegar málinu vindur fram mun þetta auðvitað leiða til þess að heildarútgjöld sveitarfélaga fari ekki fram úr heildartekjum þess, með öðrum orðum, að skuldasöfnun linni. Þetta er afar jákvætt mál.

Ég hegg líka eftir því að í brtt. meiri hluta félmn. við 61. gr., þ.e. í b-lið 7. brtt., er þetta undirstrikað með því að 3. málsl. 2. mgr. er gerður að sérstakri nýrri 3. mgr. Ég veit að hæstv. forseti sem hefur nokkra reynslu af sveitarstjórnarmálum, fyrir utan yfirgripsmikla þekkingu á því eins og flestu öðru, er mér sammála um að þetta hlýtur að vera afskaplega gott fyrir sveitarfélögin þegar fram í sækir. Ég held að þetta hljóti að teljast mjög jákvætt.

Þegar við lesum 75. gr. og 76. gr. kemur fram að eftirlit með fjárreiðum sveitarfélaga er styrkt verulega. Í 75. gr. er rætt um eftirlitsnefnd eins og reyndar í 74. gr. en þar segir um hlutverk hennar að þegar sveitarstjórn er komin í fjárþröng þannig að hún geti ekki staðið í skilum, þá beri henni að tilkynna það til eftirlitsnefndarinnar. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Eftirlitsnefnd skal þá tafarlaust láta fara fram rannsókn á fjárreiðum og rekstri sveitarfélagsins og leggja síðan fyrir sveitarstjórn að bæta það sem áfátt kann að reynast innan hæfilegs frests.``

Síðan segir í 3. mgr., með leyfi forseta:

,,Komi í ljós við rannsókn að fjárhagur sveitarfélags sé slíkur að það geti ekki með eðlilegum rekstri staðið straum af lögboðnum útgjöldum eða öðrum skuldbindingum sínum er ráðuneytinu heimilt að tillögu eftirlitsnefndar að veita sveitarfélaginu styrk eða lán úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til þess að koma fjárhag sveitarfélagsins á réttan kjöl með þeim skilyrðum sem ráðuneytið setur.``

Þetta er mikilvægt. Þetta er grundvöllur þess að samtök sveitarfélaga muni, eins og kemur fram í þessum málsskjölum sem hérna liggja fyrir, gera sérstakar reglur um það hvernig sveitarfélögin eigi að haga sér undir slíkum kringumstæðum. Vegna þess að það er Jöfnunarsjóður sveitarfélaganna sem samkvæmt þessum lögum á að hlaupa undir bagga með sveitarfélögum sem lenda í nauð, þá þýðir það, herra forseti, að þessar reglur hljóta að verða mjög stríðar. Þegar við lesum 75. gr. og berum hana saman við 76. gr. og þá breytingu sem gerð er í tillögu meiri hlutans í brtt. 7.b, þá sjáum við auðvitað að sá fjárhagsfótur sem sveitarfélögin standa á er styrktur allverulega.

Í 76. gr. er talað um að ráðherra geti að tillögu þessarar eftirlitsnefndar svipt sveitarfélagið sjálfsforræði. Það er hastarlegt inngrip en sýnir hins vegar að verulega fast er tekið á getu sveitarfélaganna til þess að reisa sér hurðarása um öxl.

Ég tel, herra forseti, eins og ég sagði áður en hv. frsm. kom í salinn, að þessar breytingar séu veigamestu breytingarnar á frv. til sveitarstjórnarlaga. Ég tel að þær séu mjög til bóta. Það eina sem gengur ekki alveg upp í mínum huga varðandi þetta ferli sem hér er sett af stað, þar sem mér þykir sem ég sjái þrjá nýja þröskulda fyrir óhóflegri eyðslu og skuldasöfnun sveitarfélaganna, er hvernig þetta verði framkvæmt. Til þess að þetta geti gengið eftir þarf eftirlitsnefndin auðvitað að komast á snoðir um að viðkomandi sveitarfélag sé í einhvers konar fjárþröng. Hvernig á eftirlitsnefndin að komast á snoðir um það? Það segir í 1. mgr. 75. gr.:

,,Komist sveitarfélag í fjárþröng þannig að sveitarstjórn telur sér eigi unnt að standa í skilum skal hún tilkynna það til eftirlitsnefndar skv. 74. gr. Ákvörðun um slíka tilkynningu skal tekin eftir tvær umræður í sveitarstjórn.``

Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé nógu sterkt. Ég ímynda mér að það versta sem komið geti fyrir sveitarstjórn sé að hún sé nánast greiðsluþrota og auglýst sé fyrir allri landsbyggðinni að málum hennar sé svo háttað að hún þurfi að leggjast á gjörgæslu hjá eftirlitsnefnd félmrn. Ég er sammála ferlinu en það er einfaldlega mannlegt að reyna að skjóta sér hjá slíku. Ég ímynda mér að áður en menn grípa til svo hastarlegra viðbragða að láta eftirlitsnefndina vita, þá gerist það sama og gerist innan margra fyrirtækja sem lenda í fjárþröng. Menn ætla að taka sér tak. Menn ætla að verða að betri mönnum. Menn ætla að verða sér úti um auknar tekjur með auknum álögum eða með því að draga saman í rekstri svo ekki þurfi að koma til þeirrar niðurlægingar að tilkynna sig til eftirlitsnefndarinnar.

Það má auðvitað vera að ég hafi ekki skilið hlutverk eftirlitsnefndarinnar eins og það er skýrt í 74. gr. en ég velti ég því fyrir mér hvernig nefndin á að komast að raun um þetta. Er nóg að hún athugi árlega reikningsskil sveitarfélaganna og beri við þann kvarða sem kemur þarna fram einhvers staðar? Ég er ekki viss um það en spyr hv. þm. Magnús Stefánsson hvort hann telji að ferlið sé tryggt að því leyti að eftirlitsnefndin komist á snoðir um þá vankanta sem upp kunna að koma í fjárhagsmálum.

Ég gat um það áðan, herra forseti, að mér hefði, fyrir utan þetta, þótt lítil nýmæli í þessu frv. til sveitarstjórnarlaga og þau lytu öll með einhverjum hætti að fjármálum. Hv. þm. Sturla Böðvarsson minntist sérstaklega á eitt sem varðar arðgreiðslu af fyrirtækjum sveitarfélaga til sveitarfélaganna. Hann taldi það mikið nýmæli og það er alveg hárrétt. Það er mikið nýmæli. Það er hins vegar nýmæli sem ekki kom frá hæstv. félmrh. Uppruna þess er að leita í umsögn Reykjavíkurborgar og þaðan er það komið. Nú er verið að gera breytingu á 7. gr. sveitarstjórnarlaganna þar sem fjallað er um almennar skyldur sveitarfélaga. Þar er á það bent að fjölmörg sveitarfélög hafi rekið á sína ábyrgð margvísleg þjónustufyrirtæki og fyrirtækin hafa náttúrlega á köflum greitt sveitarsjóðnum arð ef þurfa þykir. Hins vegar hefur aldrei verið nein lagastoð undir þessu og það er að tilmælum Reykjavíkurborgar sem þetta er sett fram.

Ég er alveg sannfærður um að það er þörf á lagastoð undir reglum af þessu tagi. En er það endilega æskilegt fyrir borgarana að gefa sveitarstjórnum með þessum hætti lögbundið leyfi til þess að hækka gjöld sín? Ég tel að í þessu felist ekkert annað. Ef sveitarstjórnirnar mega haga gjaldskrá sinni, sem til þessa hefur verið staðfest í félmrn., þannig að tekjurnar sem stofnanirnar hafa standa ekki einungis undir rekstri þjónustunnar heldur skili þær líka arði í sveitarsjóðinn, þá er verið að gefa lögbundna heimild til þess að hækka þessa gjaldtöku.

Ég spyr: Hvenær hættir gjald að vera gjald og breytir yfir í skatt? Er ekki sveitarfélögunum með þessu gefin lögbundin heimild til þess að fara að borgurunum með dulda skattheimtu?

Í framhjáhlaupi, af því að ég horfi framan í andlit hv. þm. Árna M. Mathiesens sem er annar af þingmönnum Hafnfirðinga. (Gripið fram í.) Ég hef ekki haldið því fram í þessari ræðu þó ég telji að hans bíði glæst framtíð á mörgum sviðum. Það er þó ljóst að sveitarfélögin í nágrenni Reykjavíkur kaupa margvíslega þjónustu af Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg hefur sökum aldurs síns, stærðar og ágætrar stjórnunar í gegnum tíðina byggt upp mjög góð fyrirtæki sem þjóna borgarbúunum. Reykjavíkurborg hefur byggt upp veitufyrirtæki og hin aðlægu sveitarfélög kaupa þessa þjónustu af henni. Nú er ég ekki að leggjast gegn því að Reykjavíkurborg fái ærnar tekjur. En ég velti því fyrir mér hvort þessi lagastoð sem þarna á að skjóta inn í 7. gr. sveitarstjórnarlaganna geri ekki Reykjavíkurborg kleift að leggja skatt, ekki bara á sína eigin íbúa heldur líka íbúa nágrannasveitarfélaganna.

Ef til að mynda Kópavogur kaupir vatn af Reykjavík og gjaldskrá Reykjavíkurborgar er svo hagað að það megi bæði standa undir þjónustu fyrirtækisins og eigi líka að vera einhvers konar arðsfótur, þýðir það ekki að Reykjavíkurborg sé farin að skattleggja Kópavog? Ég les þetta út úr þessu. Þó að ég sé ekki að mæla gegn því að einhvers konar praxís sem árum saman hefur verið við lýði skuli nú verndaður með lagastoð, þá veit ég ekki hvort við séum að stíga heillaspor. Ég spyr hv. þm. Magnús Stefánsson, frsm. nál. meiri hlutans, hvort hann telji að þetta sé framfaraspor. Ég er ekki alveg sannfærður um það.

Það hefur verið þannig að sveitarsjóður hefur getað gengið í ábyrgðir. Samkvæmt 89. gr. gildandi laga getur sveitarsjóður gengið í sjálfskuldarábyrgð fyrir sín eigin fyrirtæki en sveitarstjórnin getur hins vegar veitt einfalda ábyrgð til annarra aðila gegn tryggingum sem hún metur gildar. Ég vek athygli á því, af því að ég hef sagt það hér að það séu fjögur atriði fjármálalegs eðlis sem eru til bóta í þessu frv. og ég hef þegar reifað þrjú, að þetta varðar hið fjórða. Samkvæmt 73. gr. frv., og við því var ekkert hróflað í meðförum nefndarinnar, má ekki lengur binda sveitarsjóð í ábyrgðir vegna skuldbindingar annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins. Þetta tel ég vera til stórra bóta. Við sáum, þegar þjóðin gekk í gegnum erfiða efnahagskreppu fyrir nokkrum árum, að máttvana sveitarfélög glímdu við atvinnuleysi, mannflótta, nánast mannfækkun af hallærum, og urðu nauðug viljug að grípa til allra mögulegra bragða til þess að halda atvinnunni í plássinu. Ég er ekki að mæla gegn því, herra forseti, en þegar menn eru að verja hólmann sinn þá seilast þeir stundum of langt.

Auðvitað gerist það þegar menn leggja kapp á að efla byggðina sína, reyna að afla nýrra starfa eða bara halda störfum, koma í veg fyrir að störfin seytli út úr samfélaginu, að farið er út í björgunaraðgerðir sem felast í því að veita fyrirtækjum ábyrgðir, þ.e. öðrum en stofnunum sveitarfélaganna. Við sáum það aftur og aftur, víðs vegar um landið, að menn freistuðu þess að hjálpa fyrirtækjum til þess að halda kvóta í byggðarlaginu vegna þess að öflugri og stærri fyrirtæki komu eins og gammar með klærnar á undan niður í viðkomandi byggðarlög. Þau ætluðu að seilast í feitasta bitann sem auðvitað var kvótinn og taka hann burt úr byggðarlaginu.

[13:00]

Sums staðar leiddi þetta til gríðarlegs ófarnaðar. Sums staðar voru menn heppnir, eins og á Vopnafirði, þar sem sveitarsjóðurinn lagði fé í fyrirtæki sem efldist síðan og margfaldaðist að gildi og og þær upphæðir sem þar voru lagðar í fyrirtækið fyrir hönd sveitarbúa margfölduðust. En eins og ég veit að hv. þm. mundu taka undir með mér: Það er ekki hlutverk sveitarstjórna að vera að spekúlera. Það eru menn eins og þeir sem fara með undirtökin í fjármálalífinu og kunna á vélar þess sem eiga auðvitað að gera það, herra forseti.

Herra forseti. Ég hef farið nokkrum orðum um það sem mér þykir til bóta í þessu frv. um sveitarstjórnarmálin en ég hef líka mælt ákveðin varnaðarorð gagnvart tilteknum atriðum. En ég get ekki annað en tekið undir með borgarlögmanninum í Reykjavík sem segir að í þessu frv. sé fátt nýmæla. Þegar sá ágæti borgarlögmaður ritar borgarráði bréf um það þá segir hann einfaldlega að það sé ekki þess virði að rifja það upp vegna þess að þau séu svo lítil. Sú breyting sem er gerð og skiptir máli kemur síðan frá borgarráði og borgarlögmanninum sjálfum inn í þingið.

Ég velti því fyrir mér hvernig stendur á því í þessum heimi sem við lifum núna, þar sem hlutverk sveitarfélaganna er stöðugt að breytast, þar sem verksvið þeirra er að færast út, þar sem þau eru takast í fang aukin verkefni: Af hverju er því ekki svarað með einhverjum hætti í frv.? Frv. hefur verið við lýði frá 1986, það er kominn tólf ára reynslutími á það og á þeim tíma hefur allt umhverfi sveitarfélaganna gjörbreyst.

Ég minni á að það var hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sem beitti sér fyrir því í stóli félmrh. að hrinda af stað þeirri miklu sameiningarumræðu sem leiddi til mikillar sameiningar sveitarfélaga. Það hefur leitt til þess að þeim hefur stórfækkað en það var erfitt í byrjun. Eins og menn muna eftir fór skriðan ekki af stað fyrr en bara núna fyrir um tveimur árum og er góðu heilli ekki lokið enn þá. En þá gekk svo illa að koma þessum samruna sveitarfélaga af stað að menn ræddu það þá í fullri alvöru hvort það ætti að beita einhvers konar lögþvingunum. Menn ræddu það einum tveimur eða þremur sinnum í tengslum við ýmiss konar frumvörp. Menn féllu nú frá því.

Eigi að síður er það þannig að við erum öðrum þræði að þvinga sveitarfélög til þess að sameinast. Hvernig erum við að því? Við erum stöðugt að láta þau fá aukin verkefni. Við erum að færa til þeirra menntamál, við ætlum að færa til þeirra málefni fatlaðra, aldraðra, og þetta er viljinn í þjóðfélaginu. Þetta er partur af þeirri lýðræðislegu valddreifingu sem hefur myndast um sátt millum flestra stjórnmálaflokka og er ekki lengur spurning um stjórnmálaviðhorf heldur um kynslóðir. Þær kynslóðir sem núna eru að renna sitt skeið inn í valdapíramída samfélagsins eru þeirrar skoðunar að það eigi að færa völdin með þessum hætti út til sveitarfélaganna. Á hverju byggja menn það? Á hugsuninni um grenndarlýðræði, leyfa mönnum að hafa sem mest ítök í næsta nágrenni sínu. Þannig held ég líka að heill manna og hamingju sé best borgið. Menn eiga að fá að ráða sem mestu sem næst sér eins og kostur er. Um það er ekki deilt. Þess vegna erum við að færa þessi verkefni út til sveitarfélaganna, leyfum þeim að haga þeim eins og þeir geta.

En sum þessara sveitarfélaga eru örfámenn. Hvernig stendur þá á því að í þessu frv. nota menn ekki tækifærið og stíga það skref að hafa ekki lengur 50 íbúa sem lágmarkseiningu sveitarfélags? Við höfum séð í næsta nágrenni höfuðborgarinnar deilur sem hafa tætt sundur sveitarfélög þegar komið hefur að sameiningarkosningum, þar sem menn hafa verið að flytja inn fólk utan að, skrásetja það jafnvel á eyðibýlum þar sem er neglt fyrir gluggana. Til hvers? Til þess að ná upp fjöldanum og til þess að ná upp atkvæðum þegar menn eru að ræða um sameiningu.

Hvers vegna ekki að stækka þetta dálítið hressilega, herra forseti? Ég tek eftir því að hv. þm. Árni M. Mathiesen er farinn að líta á klukkuna og ég get fullvissað hann um að senn líður að lokum ræðu minnar. Hv. þm. má ekki fara því að ég á eftir að ávarpa hann sérstaklega um skipulagsmálin. Hann má hins vegar bregða sér frá til annarra þarfa ef hann kemur aftur.

En ég vek athygli á því að í dag heimilum við líka að breyttum þessum lögum, eins og breytingar liggja fyrir, sveitarfélögum að vera áfram 50 manns. Hvaða verk eru á sviði 50 manna sveitarfélaga? Það eru öldrunarmál. Það er partur af heilsugæslu, það eru menntamál, það er dagvist, það eru holræsi, það er menningarstarf eins og rekstur bókasafna, rekstur annarra safna og svo mætti lengi telja. Það er ljóst að hin smærri sveitarfélög anna þessu ekki. Það er ekki hagkvæmt fyrir íbúana að málið sé með þessum hætti.

Því segi ég það, herra forseti: Ég er þeirrar skoðunar, þó ég sé mikill valddreifingarmaður og sé illu heilli laus við allar miðstýringaráráttur fortíðar minnar þá tel ég að það hefði átt að nota tækifærið og stækka eininguna sem er fóturinn undir lágmarkssveitarfélögunum. Það má kalla það þvingun, það má færa rök að því að það sé eins konar lögþvingun en ég hef fært hér rök að því, tel ég, að þau eru hvort eð er beitt annars konar þvingunum með stöðugum flutningi verkefna yfir til þeirra.

Herra forseti. Við erum öðrum þræði að ræða hérna hálendismálin, og ekkert öðrum þræði, það er auðvitað það sem hér liggur undir í umræðunni. Hér hefur komið afspyrnuvont frv. frá hæstv. félmrh. sem á að vera eins konar málamiðlun. Auðvitað kom í ljós, eins og ég hef rakið, a.m.k. einu sinni ef ekki tvisvar í ræðu minni, a.m.k. þeir hlutar stjórnarandstöðunnar sem voru vélaðir til fylgis við þá málamiðlun voru einfaldlega blekktir. Það hefur einfaldlega komið fram að það er ekkert víst að frv. verði lagt fram aftur vegna þess að Sjálfstfl. styður það bersýnilega ekki. Það er ekkert víst að það verði lagt fram í núverandi mynd og það hefur leitt til þess að það er alveg ljóst að þeir úr stjórnarandstöðunni sem hafa lýst fylgi við það í upphafi máls gera það ekki lengur. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir lýsti því yfir að það væri með öllu óvíst hvort stuðningur hennar við málið fylgdi. Auðvitað kom fram í máli hennar, eins og ég á e.t.v. eftir að rekja síðar í ræðu minni, að hún lýsti í ræðu sinni í gær skoðunum sem ganga á skjön við þetta frv.

En sáttargerðin fólst í því, herra forseti, að það á að taka skipulagsmál miðhálendisins út fyrir sviga og það á að láta sérstaka samvinnunefnd fara höndum um skipulagsmálin. Þessi tillaga er algjörlega gölluð eins og kemur fram í greinargerðinni. Samvinnunefndin hefur ekki nema umsagnarrétt og hún fullnægir alls ekki þeim lýðræðisskilyrðum sem a.m.k. jafnaðarmenn setja. En það hefur komið fram aftur og aftur í máli hv. þm. Sjálfstfl. að þeir telja að þetta sé óþarft. Hv. þm. Árni M. Mathiesen hefur gengið lengst í því og hann sagði í fyrsta lagi að frv. hæstv. umhvrh. væri ófullnægjandi, það fullnægði ekki óskum hans um aðkomu annarra aðila en þar eru nefndir að málinu.

Ég tek undir það með honum. Hv. þm. Árni Mathiesen taldi líka að það væri óþarft að leggja frv. fram og hann taldi að það væri hægt að beita 12. gr. skipulagslaganna, að vísu orðaði hann það svo ,,með því að styrkja hana til þess að ná þessu fram.`` Ég viðurkenni það, herra forseti, að ég misskildi hv. þm. Árna M. Mathiesen vegna þess að sú stærð sem ég gleymdi að taka inn í jöfnuna var það að hv. þm. talaði væntanlega miðað við að sveitarstjórnarfrv. væri samþykkt. (Gripið fram í.) Hann gerði það ekki? Ja, þá hef ég ekki misskilið hann, en ég taldi það.

Hv. þm. Árni M. Mathiesen er a.m.k. þeirrar skoðunar að það eigi fleiri að koma að þessu. Það kann vel að vera að hann telji að hans kjördæmi sé ekki nógu vel representerað. Ég a.m.k. er þeirrar skoðunar að hann gerði kjósendum sínum skömm til ef hann féllist á að það hefði næga fulltrúa, einn af átján.

En hann ræddi að það væri nauðsynlegt að koma öðrum viðhorfum að. Hann nefndi sérstaklega ferðafélög minnir mig og náttúruverndarsjónarmið og þær atvinnugreinar sem tengjast miðhálendinu. Ég virði það alveg. Hv. þm. sagði þess vegna tvennt sem skiptir máli í umræðunni og sem við a.m.k. stjórnarandstæðingar, sem búum við þá óvissu sem ríkir í þessu máli af hálfu stjórnarinnar, verðum að hafa í huga vegna þess að hv. þm. er áhrifamaður í þessum efnum.

Hann sagði að miklu betra væri að ná fram sjónarmiðum þeirra sem vilja fá fjölbreyttari aðkomu að málinu, fá önnur viðhorf, með því að fella niður tilnefningarnar. Hann sagði að í staðinn ætti umhvrh. að bera pólitíska ábyrgð á skipulagi og stjórnun miðhálendisins eftir atvikum miðað við þær tillögur sem hann reifaði og að í stað þess að fulltrúar væru tilnefndir þá væru þeir skipaðir.

Ég held að þetta sé rétt hjá hv. þm. Ég tel náttúrlega að þetta gangi ekki nándar nærri nógu langt en ég tel að hugmynd hv. þm. sé snöggt um skárri en það sem kemur fram í frv. hæstv. umhvrh. Vegna þess að ef umhvrh. hefur einfaldlega skipunarrétt án þess að þurfa að taka við tilnefningum getur hann gætt þessara sjónarmiða. Auðvitað er það miklu betra. Þá er hægt að láta fulltrúa útivistarsamtaka, ferðafélaga og náttúruverndarsamtaka koma að. Í dag er það bókstaflega útilokað, miðað við þá hugmynd sem hæstv. umhvrh. hefur illu heilli lagt hér fram.

Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvernig hv. þm. hugsaði sér að þetta yrði framkvæmt. En hann gerði það hins vegar klárlega á grundvelli 12. gr. Ég tók eftir því að þegar hv. þm. Kristján Pálsson talaði hafði hann annan skilning á 12. gr. en hv. þm. Árni M. Mathiesen en þann sama og ég. Sem er reyndar skilningur sem má líka --- með góðum vilja að vísu --- lesa út úr ákveðnu meirihlutaáliti hérna.

En það segir, herra forseti, í 12. gr. skipulags- og byggingarlaga sem við samþykktum fyrir sléttu ári:

,,Svæðisskipulag skal gert að frumkvæði viðkomandi sveitarstjórna eða Skipulagsstofnunar í því skyni að samræma stefnu sveitarstjórna um þróun byggðar og landnotkunar á minnst 12 ára tímabili.``

Síðan segir:

,,Svæðisskipulag skal taka til alls lands þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli.``

Til ,,alls lands þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli.``

Þess vegna held ég því fram, herra forseti, að að óbreyttum sveitarstjórnarlögum, að ósamþykktri 1. gr. frv. til sveitarstjórnarlaga sem liggur núna fyrir, gangi hugmynd hv. þm. Árna M. Mathiesens ekki upp því að þarna er klárlega talað um að það eigi að taka til alls ,,lands`` þeirra sveitarfélaga sem eiga hlut að máli. Ekki landa sem liggja handan við mörk sveitarfélaga --- ég tel það alls ekki.

Og síðar segir í 6. mgr. þessara laga:

,,Á svæðum, þar sem ágreiningur er milli sveitarstjórna um landnotkun eða þar sem stefnumörkun í landnotkun varðar verulega hagsmuni þeirra sem búa utan viðkomandi svæðis, getur umhverfisráðherra ákveðið að skipa sérstaka nefnd til að gera tillögu að svæðisskipulagi. Slíkt svæðisskipulag getur náð til hluta lands innan marka viðkomandi sveitarfélaga.``

Ég held því fram, herra forseti, að sú tillaga sem hv. þm. Árni M. Mathiesen reifaði í máli sínu standist ekki miðað við síðasta málslið 2. mgr. 12. gr. sem fjallar um svæðisskipulag vegna þess að þar er það bara fortakslaust sagt að svæðisskipulagið skuli einungis ná til alls lands þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli. Ég held að þegar hv. þm. Árni M. Mathiesen var að reifa það að 12. gr. dygði væri hann í rauninni að eiga við það sem segir í 6. mgr. að þar sem ágreiningur er milli sveitarstjórna um landnotkun eða stefnumörkun og varðar verulega hagsmuni þeirra sem ,,búa utan viðkomandi svæðis`` þá getur umhvrh. búið til svæðisskipulagsnefnd. Þar með held ég að hann hafi í virðingarverðri viðleitni sinni til þess að auka lýðræðið í þessu máli verið að hugsa sem svo að þarna væri kominn rökstuðningurinn í lögunum fyrir því að kalla til fulltrúa sveitarfélaga sem eru ekki aðilar að miðhálendinu, sem búa sem sagt utan og fjarri. Það er nefnilega þannig eins og hv. þm. gefur til kynna með fagurri höfuðhneigingu.

Ég held því fram að ekki sé hægt að gera þetta á grundvelli þessarar lagagreinar og hv. þm. Kristján Pálsson talaði þannig í gær að mér sýndist sem hann væri mér glögglega sammála í þessum efnum.

[13:15]

Þessi atriði vildi ég reifa í ræðu minni gagnvart hv. þm. Árna Mathiesen. Hann talaði málefnalega um þetta og mér fannst hann vel eiga það skilið að í máli mínu kæmi fram, þar sem ég hef verið harður andstæðingur þessa máls, að ég tel þrátt fyrir allt að af þessu tvennu gangi hugmynd Árna M. Mathiesens miklu lengra í lýðræðisátt. Ég tel að hún sé að tvennu leyti æskilegri, þ.e. í fyrsta lagi að með því að umhvrh. skipi ekki eftir tilnefningum heldur skipi bara sjálfur gefst möguleiki á því að leyfa þeim að koma að sem eru utan þessa hóps. Jafnframt held ég að lýðræðishugsjónarinnar yrði miklu betur gætt.

Ég tel að ef svo hrapallega tekst til að stjórnarliðið ætlar ekki að hlusta á þau rök sem færð hafa verið fyrir því að miðhálendið verði að einni stjórnsýslueiningu og ætlar að fara þá leið sem hér hefur verið reifuð í máli hv. þm. og jafnframt í frv. umhvrh., þá sé hugmynd hv. þm. Árna M. Mathiesens illskárri og rökrænt gengur hún betur upp.

Af því að ég skildi ekki þann hluta ræðu hv. þm. í gær, varðandi það að styrkja þyrfti 12. gr. þá hélt ég að hann ætti við þá grein sem ég las upp hérna áðan, í 2. mgr. 12. gr. Ég fékk útskrift af ræðu hv. þm. og las hana út í gegn. Ég sá ekki alveg hvernig hann ætlaði sér að styrkja 12. gr. Ég held hins vegar, herra forseti, að auðvitað ætti hv. þm. að gleyma þessu og taka bara þátt í því að gera þetta almennilega. Hann ætti að leyfa sér að leika eftir þeim lýðræðishugsjónum sem ég veit að hann fylgir í svona málum, þó að í ýmsum öðrum pólitískum efnum deili ég ekki skoðunum hans.

Herra forseti. Nú hef ég rætt hér frv. til sveitarstjórnarlaga og geri ekki sérstaka kröfu til þess að frsm. meiri hlutans hlýði á það sem núna kemur á eftir en hann ræður því alveg sjálfur. Ég ætla þá aðeins að leyfa mér þann munað að ræða hér það frv. sem hæstv. umhvrh. lagði hér fram, kastaði fram af skyndingu, þorði ekki að standa við og lét Sjálfstfl. kúga sig til þess að koma í veg fyrir að það yrði lagt fram til umræðu.

Ég vona, herra forseti, að hæstv. forseti misvirði það ekki við mig þó að ég taki svolítinn tíma til þess að ræða þetta. Hér talar auðvitað fyrrv. umhvrh. sem með ýmsum hætti kom að þessu máli. Ég vildi inna hæstv. forseta eftir því hvenær hann hyggist gera hlé.

(Forseti (ÓE): Forseti vill nú spyrja á móti, það eru u.þ.b. 15 mínútur síðan forseta virtist hv. þm. vera að komast í lokakaflann en hefur væntanlega misskilið hann. Forseti spyr því hversu langt hann telji sig eiga eftir af ræðunni. Ætlunin var að gera hálftíma matarhlé.)

Ég á svona 20--30 mínútur eftir af ræðunni.

(Forseti (ÓE): Þá spyr forseti hvort hv. þm. vilji ekki gera hlé á ræðu sinni í trausti þess að hann tapi ekki niður þræðinum þegar hann byrjar aftur.)

Jú, ég get fallist á það fyrst hæstv. forseti óskar eftir því.

(Forseti (ÓE): Þá verður gert hlé þangað til klukkuna vantar tíu mínútur í tvö.)