Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 14:38:36 (6061)

1998-04-30 14:38:36# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[14:38]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Vandamálið sem við erum reyna að leysa kemur ekki upp nema frv. verði samþykkt. Þá gildir bara áfram sú ágæta svæðisskipulagsnefnd sem hann sjálfur skipaði á sínum tíma.

En ég fagna því hins vegar að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er sammála mér um að veita þurfi betri aðkomu að svæðisskipulagsnefndinni, það sem hann kallaði ,,lýðræðislegri aðkomu``. Ég get ekki hins vegar fundið því stað í tillögu jafnaðarmanna, í tillögu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Þar er gert ráð fyrir átta tilnefningum, þar af fjórum úr ráðuneytunum og fjórum frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Þar kemur því ekkert fram um hagsmunasamtökin sem ég hef rætt um hér og m.a. hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson hefur líka rætt um. Ef við hugsum til þess og þeirrar nefndar sem hv. þm. skipaði þegar hann var ráðherra, þá er engin lýðræðisleg aðkoma þar. Þar eru tólf fulltrúar héraðsnefndanna og einn fulltrúi ráðuneytisins.

Ég hins vegar fagna því að hann skuli hafa tekið trú í þessu máli og farið mikinn, enda er það í anda þeirra sem taka seint trú að ganga hart fram og besta dæmið um það er auðvitað Páll postuli.