Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 14:40:12 (6062)

1998-04-30 14:40:12# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[14:40]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Sú trú sem ég kann að hafa tekið hefur þá komið yfir mig hægt og bítandi, ég varð ekki lostinn eldingu eins og Sál var á leiðinni til Damskus.

En, herra forseti, ég vil fyrst segja að varðandi þá nefnd sem hv. þm. Árni M. Mathiesen segir að ég hafi skipað afar ólýðræðislega, þá er náttúrlega óhjákvæmilegt annað en að segja að þarna er um eins konar tátólógíu að ræða hjá hv. þm. Ég var reyrður í viðjar laga sem hv. þm. hafði fyrst samþykkt í umhvn. og síðan hér í Alþingi. Ég hafði enga aðkomu, ég gat sjálfur skipað einn. Þessi eini sem skipaði, kom úr Reykjavík. Allir hinir voru samkvæmt lögunum tilnefndir af héraðsnefndum samkvæmt lögum sem hv. þm. samþykkti. (ÁMM: Þú samþykktir þau líka.) Já ég gerði það líka, það er alveg hárrétt, herra forseti. Enda taldi ég að þar væri alveg skýrt, samanber nefndarálit sem hv. þm. átti aðild að, að með engu móti væri stjórnsýslunni á svæðinu breytt.

Ég hef líka fært rök að því, herra forseti, að af tvennu illu sé tillagan sem hv. þm. hefur reifað hér, illskárri en tillaga hæstv. umhvrh. í þessu máli. Munurinn á tillögu jafnaðarmanna og tillögum þeirra, tillögu þeirri sem hv. þm. kom með hér í ræðu og hugmyndum í frv. hæstv. umhvrh., er auðvitað sá að við erum ekki aðeins að tala um skipulagið heldur erum við að tala um stjórnsýsluna alla, þar með talið löggæsluna. Þarna er um átta fulltrúa að ræða.

Það má deila um það, eins og hv. þm. sagði og sjálfsagt að hann hafi þá skoðun, hvort þar sé tryggð nægileg aðkoma t.d. úr náttúruverndargeiranum. Þó bendi ég á hvaða ráðuneyti hafa þar aðild að. Við mundum náttúrlega vænta þess að eitt þeirra ætti sérstaklega að gæta þeirra viðhorfa. Annað ætti sérstaklega að gæta viðhorfa ferðaþjónustu. Sveitarfélögin --- ég gæti sætt mig við að landsbyggðin hefði tvo af þessum fjórum.

Við erum hins vegar að ræða algjörlega óskylda hluti vegna þess að þetta er öll stjórnsýslan. Ég held að menn megi ekki gleyma því að það þarf að horfa til framtíðar, ekki síst varðandi löggæsluna.