Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 14:47:08 (6066)

1998-04-30 14:47:08# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[14:47]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þau mál sem eru á dagskrá þessa fundar eru eitt og sama málið þó að þau séu lögð fyrir Alþingi í þremur frumvörpum. M.a. þess vegna er mjög eðlilegt að þeir ráðherrar sem bera ábyrgð á þessum málaflokkum séu viðstaddir umræðuna svo að hægt sé að beina spurningum til þeirra ef ástæða þykir til. Ég þakka sérstaklega tveimur ráðherrum sem hafa verið mjög þaulsætnir undir umræðunni, þ.e. hæstv. félmrh. og hæstv. umhvrh., og vil láta umhvrh. vita af því með fyrirvara að þegar líður á ræðu mína mun ég beina til hans ákveðnum spurningum.

En í morgun, þegar þingstörfin í dag voru til umræðu, bað ég forseta að beita sér fyrir því að þriðji ráðherrann, forsrh., sem virðist hafa mest áhrif ráðherra á afgreiðslu mála hér í þinginu, sýndi þinginu líka þann sóma að vera viðstaddur umræðuna því að hann ber ábyrgð á einu af þeim þremur málum sem eru til umræðu og hann ber öðrum ráðherrum meiri ábyrgð á þeim starfsháttum sem hæstv. ríkisstjórn vill viðhafa á Alþingi. Jafnaugljóst og áberandi og hæstv. félmrh. og hæstv. umhvrh. gera sér far um að vera viðstaddir umræðuna, þó að þeim þyki hún stundum nokkuð þreytandi, þá er það áberandi að hæstv. forsrh. kýs að vera fjarverandi. Ég fer þess eindregið á leit og ítreka ósk mína við hæstv. forseta að hann beiti sér fyrir því að allir þeir ráðherrar sem eiga hlut að máli í þessum þremur samtvinnuðu málum séu viðstaddir frá upphafi til enda þeirra þingfunda sem fjalla um þau. Ég ítreka enn og aftur að ég gagnrýni síður en svo þá tvo ráðherra sem hér eru því að þeir hafa sinnt þingskyldum sínum en ég tel að hæstv. forsrh. hafi ekki gert það að sama skapi en honum ber skylda til þess að vera við og fylgjast með umræðum og vera reiðubúinn að svara spurningum sem beint er til hans.

Það er ekkert undarlegt þó svo að umræðan sem fer nú fram um eitt af þessum þremur samtvinnuðu málum, sé mikil. Þessi umræða hefur staðið með litlum hléum á Alþingi alla þessa öld. Hún hófst árið 1905 eða 1906, ég man ekki hvort árið það var, þegar námulögin voru til umræðu á Alþingi. Hún hélt síðan áfram í snörpum umræðum sem urðu um eignarhald á fossum og virkjanarétti og hefur staðið alla þessa öld með litlum hléum. Fjölmargir þingmenn hafa komið að umræðunni, hafa flutt tillögur varðandi þau mál, hafa látið í ljós skoðun sína í umræðum á þinginu, bæði þingmenn sem eru löngu horfnir úr þessum sal og líka þingmenn sem eiga enn sæti hér. Því er ekki óeðlilegt að miklar umræður séu um málið þegar hillir undir það að Alþingi ætli loksins að drífa sig í að taka þær ákvarðanir sem það hefur hliðrað sér hjá að taka í heila öld.

Það væri vissulega, herra forseti, ástæða til þess að rekja þessa sögu því að hún er um margt merkileg. Hún er merkileg fyrir þá sök hve illa hefur gengið að ná fram í gegnum Alþingi Íslendinga sjálfsögðum réttindum þorra þjóðarinnar til síns eigin lands. Sjónarmið tiltölulega fárra landeigenda hafa alltaf orðið ofan á á Alþingi í gegnum alla umræðuna og allar þær afgreiðslur sem hafa farið fram. Þó svo oft hafi það gerst að ríkisstjórnir og stjórnskipaðar nefndir hafi útbúið frv. sem lögð hafa verið fyrir Alþingi þar sem tilgangurinn hefur verið sá að tryggja almenningi rétt til eigin lands hefur meiri hluti Alþingis ávallt snúið þeim tillögum á haus, breytt niðurstöðunum og afgreitt málin hinum fáu í vil, afgreitt málin í þágu sérhagsmuna á kostnað almannahagsmuna. Vissulega væri full ástæða til þess að rekja þá sögu til þess að setja þessi mál í samhengi. Ég mun hins vegar ekki gera það nú en sjálfsagt mun gefast tilefni til þess einhvern tíma síðar og þá sögu þarf nauðsynlega að rekja.

Það er líka ýmislegt umhugsunarvert sem hefur komið fram á þessari löngu vegferð, t.d. hve dómstólar á Íslandi hafa tekið gjörólíkt á þessum málum ef borið er saman við niðurstöður, a.m.k. í vestanverðri Evrópu. Sú regla hefur t.d. verið í gildi, allt frá öðrum áratug 16. aldar, í flestum ríkjum í Evrópu, að það land og þau landgæði sem enginn einstaklingur gæti sannað eignarrétt sinn á skyldi tilheyra ríkinu. Þessi regla var fyrst leidd í lög í norska ríkinu árið 1512 eða þar um bil og var sótt til sambærilegra laga sem voru þá í gildi í Þýskalandi og hefur síðan verið réttarvenja í flestum ríkjum Vestur-Evrópu. Þessi lög voru í gildi á Íslandi á meðan við vorum í ríkjasambandi við Noreg. Þessi lög voru í gildi á Íslandi á meðan við vorum í danska ríkjasambandinu. Það er mjög eftirtektarvert að í öllum þeim umræðum sem áttu sér stað á hinu háa Alþingi um land og landsréttindi allt fram undir miðja þessa öld gengu þingmenn á Alþingi Íslendinga út frá því sem gefnu að þessi réttarvenja væri líka í gildi hér, þ.e. það land og þau landgæði sem enginn ætti væru sjálfkrafa eign ríkisins, eign almennings.

Hins vegar var ekki fyrr en með frægum hæstaréttardómi á níunda áratugnum sem Hæstiréttur Íslands, að vísu með þremur atkvæðum gegn tveimur, komst að þeirri niðurstöðu að Ísland skæri sig úr hvað þetta varðaði. Þ.e. að hér á Íslandi, öfugt við það sem gilt hafði sem réttarvenja hér áður en Íslendingar öðluðust sjálfstæði og öfugt við þá réttarvenju sem gildir í nálægum ríkjum, þá væri land sem enginn einstaklingur gæti sannað eignarhald sitt á, ekki í eigu þjóðarinnar, ekki í eigu ríkisins, heldur einhvers konar ónumið land, land sem enginn gæti gert eignarréttarlegt tilkall til.

Meðal annars vegna þessarar niðurstöðu Hæstaréttar komust stjórnvöld að þeirri niðurstöðu að setja þyrfti sérstök lög um þetta, að það land og þau landgæði sem enginn á, skuli teljast sameign þjóðarinnar eða skuli öllu heldur teljast eign íslenska ríkisins. Það tók hvorki meira né minna en fjórtán ár að fá formælendur sérhagsmunaveldisins í Sjálfstfl. og Framsfl. til þess að fallast á að slík lög yrðu sett. Þau lög er verið að setja í þjóðlendufrv. sem er líka á dagskrá þessa þingfundar.

Það frv. sem er til meðferðar nú fjallar því ekki um eignarhaldið, þ.e. um hvernig skuli skorið úr um hvar skilin séu á milli almenningseignar og einkaeignar á landi og landgæðum. Það fjallar hins vegar að verulegu leyti um hvernig nýta skuli þessi gæði, þ.e. hver það er sem hefur með höndum stjórnsýsluna á miðhálendi Íslands. Sá sem hefur með höndum stjórnsýsluna á miðhálendinu hefur í höndum sínum mikil völd um það hvernig nýta skuli auðlindir miðhálendisins, m.a. í gegnum aðkomu sína að skipulagsmálum. Það frv. sem við ræðum hér, sveitarstjórnarlögin, fjallar því um mjög stóran þátt í auðlindapólitíkinni, þ.e. hver það er sem stjórnar og hver það er sem getur tekið veigamiklar ákvarðanir um nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar á hálendi Íslands í gegnum aðkomu sína að því máli í gegnum skipulagsvinnu.

Vissulega væri full ástæða til þess, þó erfitt sé, að reyna að draga upp einhverja mynd af þeim verðmætum sem hér eru í húfi. Þegar talað er um að afhenda einhverjum tilteknum aðila stjórnsýslu á nýtingu verðmæta er auðvitað mjög ákjósanlegt að menn reyni að átta sig á því hvers virði þau verðmæti eru sem verið er að fjalla um. Hvaða peningalega mat er hægt að leggja á hálendið og þau verðmæti sem kunna að vera þar til ráðstöfunar? Það er mjög erfitt að gera það því umhverfi, fegurð og náttúra verða ekki metin til verðs. En sumar af þeim auðlindum sem þarna er verið að fjalla um verða þó metnar til verðs. Og það eru engin smávegis verðmæti, herra forseti, sem menn eru hér að ræða um hver á að fara með stjórnsýslu á og hver á að fara að verulegu leyti með ráðstöfunarréttinn yfir.

Ef við lítum fyrst á það verðmæti á miðhálendi Íslands sem auðveldast er að hengja verðmerkingarmiða á er það að sjálfsögðu orkan. Orka fallvatna og jarðhita. Nú nýtum við mestallan lághita í nágrenni við byggð á Íslandi. Sú tegund orku er fyrst og fremst til þess fallin að nýtast til atriða eins og húshitunar, ylræktar, við sundlaugar, til snjóbræðslu o.s.frv. Sú orka lághita sem við nýtum er ekki nema að mjög litlu leyti, ef nokkru leyti, á því svæði sem heyrir til miðhálendis Íslands. Þar er ekki um að ræða nema sjálfrennandi vatn sem notað er í sundlaugar og hugsanlega til þess að hita skála ferðafélaga og annarra aðila. En sá lághiti sem við nýtum í dag, miðað við óbreytta nýtingu hans, mun duga Íslendingum í 80 þúsund ár, þ.e. sá lághiti sem er nú notaður til þess að hita íbúðarhús, sundlaugar, snjóbræðslukerfi o.s.frv. og er aðallega sóttur í lághitasvæði í byggð mun duga þessari þjóð í 80 þúsund ár. Það eru engin smáverðmæti þar.

[15:00]

Miklu verðmætari en lághitinn er hins vegar háhitinn sem nýtist fyrst og fremst til raforkuframleiðslu en ekki til þeirra þarfa sem ég lýsti áðan. Orka þekktra háhitasvæða á Íslandi er gríðarlega mikil, ótrúlega mikil. Þessi háhitasvæði eru öll á miðhálendi landsins eða meginþorri þeirra, þó að finna megi á einstaka stað á heimalöndum eða í einkaeignarlandi einhvern möguleika til borunar eftir háhita.

Einhvern tíma hef ég sagt að ef litið væri á orkuvinnslugetu allra þekktra háhitasvæða á Íslandi, sem tæknilega væri unnt að nýta, þá væri orka þessara háhitasvæða álíka mikil eins og finnanleg er í 2/3 hlutum af þekktum olíulindum í heiminum sem hagkvæmt er að nýta.

Jarðhita og olíu má bera saman vegna þess að hvorugt er endurnýjanleg orkulind. Olíulindir þorna og djúphiti þornar líka með sama hætti, þ.e. eyðist það sem af er tekið, og háhitasvæði eiga sér ekki nema takmarkaða nýtingarmöguleika. Þannig að menn geta borið saman þessar tvær ólíku tegundir orku.

Í þeirri grein sem ég las --- sem mig minnir að sé eftir fyrrv. orkumálastjóra --- var skýrt frá því að tæknilega virkjanlegur háhiti á Íslandi samsvaraði um 2/3 hlutum af því sem þá var vitað um að væri til í olíulindum heims sem hagkvæmt væri að nýta. En mjög stór hluti af þessum háhita á Íslandi er hins vegar á svæðum sem af ýmsum ástæðum eru þannig að þar verður háhiti ekki virkjaður vegna umhverfisaðstæðna eða vegna þess hve dýr virkjunarkostur það yrði. Þá er ég t.d. að tala um háhita undir jöklum og á öðrum svæðum þar sem óhóflegur kostnaður við virkjunina, þó hún sé tæknilega framkvæmanleg, gerir það að verkum að í hana verður ekki ráðist, og enn fremur þar sem háhiti er á svæðum þar sem ekki er talin ástæða til eða möguleiki á vegna umhverfisaðstæðna að virkja slíkan háhita. Hagkvæmur virkjunarkostur háhita á Íslandi, að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða, er því miklu minni en sá tæknilegi virkjunarkostur sem fyrir er.

Talið er að unnt sé með þessum hætti að virkja háhita á Íslandi sem hefði orkuvinnslugetu á ári upp á um 30--35 teravattstundir. Nú þegar er búið að nýta innan við eina teravattstund af þessari orkulind. Mestöll orka háhitasvæðanna á Íslandi er því enn þá ónýtt, og mestöll þessi orka, ónýtta orka, er á miðhálendi Íslands.

Ef við lítum á möguleika til virkjunar vatnsfalla er sá möguleiki einnig að mestu leyti á miðhálendi Íslands. Þar er áætlað að eftir sé að virkja af hagkvæmum virkjunarkostum svona álíka mikið og óvirkjað er af djúphita í jörðu og ég nefndi áðan. Þannig að líklegt er að á hálendi Íslands séu ónýttir virkjunarmöguleikar fyrir um 60--65 teravattstunda framleiðslu á ári.

Ef reynt er að hengja verðmiða á þessa auðlind á miðhálendinu, og miðað við t.d. það orkuverð frá stöðvarvegg sem nú er selt til stóriðju --- aðra viðmiðun höfum við ekki --- þá er verðmæti þessara orkulinda álíka mikið og talið er, miðað við núverandi verð á kvóta, að sé verðmæti allra fiskimiða við Ísland að teknu tilliti til þess að væri allur sá kvóti seldur á frjálsum markaði mundi verðið að öllum líkindum lækka verulega.

Auðvitað eru ýmsir vankantar á því að hengja verðmiða á þennan hátt á auðlind sem ekki hefur verið nýtt, vegna þess að verðmætið myndast ekki fyrr en einhver er reiðubúinn til að kaupa og sá kaupandi liggur að sjálfsögðu ekki á lausu í dag, þannig að segja má að þessar orkulindir séu einskis virði þangað til einhver kaupandi finnst. En þetta er þó það mat sem menn hafa reynt að leggja á ónýtta orku á miðhálendi Íslands, miðað við það verð sem kaupendur hafa verið reiðubúnir að kaupa þessa orku á fram að þessu. Og auðvitað munu þau verðmæti myndast en á löngum tíma.

En það sem ég er að segja er að aðeins þessi eina auðlind, sem öll eða því næst öll er á miðhálendi Íslands, er líklega jafnverðmæt og öll fiskimið Íslands. Skiptir þá ekki máli fyrir þjóðarheildina, spyr ég, hver það er sem fer með nýtingarstjórnina á þessari sameiginlegu auðlind okkar allra? Skiptir okkur ekki máli hvort það eru fulltrúar þjóðarheildarinnar sem koma að þeim málum eða fulltrúar aðeins lítils hluta þjóðarinnar, jafnvel aðeins 4% landsmanna?

Með sama hætti er út af fyrir sig hægt að hengja verðmiða á ýmsar aðrar auðlindir náttúrunnar á hálendi Íslands. Það væri hægt, miðað við upplýsingar um tekjur Íslendinga af ferðamönnum í dag, að gera einhverja útreikninga á því hve miðhálendið sem paradís ferðamanna er mikils virði í augum þeirra sem ferðast um það í dag og borga fjármuni fyrir. Ef menn líta t.d. á líklegt verðmæti af gróðri og beitarréttindum, sem er að fá uppi á miðhálendi Íslands, þá kæmi mér ekki á óvart, miðað við verðmæti t.d. þess búsmala sem gengur á þessu landi og er slátrað á hverju hausti, að verðmæti beitarréttindanna væri í kringum 15--20 milljarðar ef reynt væri að setja verðmiða þar á. Og svona gætu menn auðvitað haldið áfram að reyna að meta og setja verðmiða á þessa þætti ef menn endilega vilja.

En sá þáttur sem sennilega er öllum Íslendingum kærastur, sem er náttúrufegurðin og náttúran, verður auðvitað aldrei metinn til fjár. En engu að síður er það alveg ljóst að á miðhálendi Íslands eru feikilega verðmætar auðlindir, sem a.m.k. í huga þjóðarinnar eru sameiginleg eign hennar, sem allir Íslendingar vilja að hægt sé að nota til sameiginlegra þarfa fyrir landsmenn og uppbyggingar í atvinnulífi þeirra allra. Auðvitað gefur það auga leið að miklu máli skiptir hver á heldur, hvaða aðili það er sem fer með stjórnina á því landi þar sem þessar verðmætu auðlindir eru fyrir.

Þarna erum við ekki bara að taka ákvörðun um hvaða sveitarstjórnir eigi að koma að umferð á hálendissvæðinu. Við erum að taka ákvörðun um hvaða fulltrúar eiga að koma að því að móta nýtingarstefnu á verðmætustu auðlindum sem Ísland á í landi og á, verðmætum sem eru miklu meira virði í beinhörðum peningum en þau verðmæti sem finnanleg eru undan ströndum landsins.

Við höfum séð afleiðingarnar af því að láta fáum einstaklingum eftir ráðstöfunar- og nýtingarrétt á auðlindum fiskimiðanna. Þær afleiðingar eru flestum ef ekki öllum kunnar. Varla hittast svo menn á Íslandi að ekki sé talað um hvaða afleiðingar hafi orðið fyrir einstaklinga, til aukins misréttis fyrir byggðirnar í landinu af þeirri ráðstöfun sem gerð var á Alþingi fyrir tíu árum eða svo og fór þá í gegnum þingið án þess að almenningur, hinn almenni kjósandi, gerði sér nokkra grein fyrir hvað þar væri verið að gera en er nú að vakna við vondan draum tíu árum síðar. Ég leyfi mér að fullyrða það, virðulegi forseti, að almenningur á Íslandi sem horfir nú blinda auganu á þá afgreiðslu sem á að eiga sér stað á Alþingi nú á vordögum á þeim auðlindum sem eftir eru í eigu þjóðarinnar, auðlindum í jörðinni og auðlindum á jörðu mun hafa um ýmislegt annað að tala eftir tíu ár héðan í frá en misréttið sem felst í kvótakerfinu og ráðstöfun auðlinda sjávarins því það misrétti sem verið er að undirbyggja með afgreiðslunni sem hér á að fara fram verður miklu meira, stærra og alvarlegra en það misrétti sem afgreitt var með kvótalögunum á sínum tíma.

Auðvitað er það samt miklu meira sem er athugavert við þessa afgreiðslu en eingöngu þá að afhenda litlum sveitarfélögum, 40 litlum sveitarfélögum, stjórnsýsluna á miðhálendinu hvað varðar skipulagsmál, vegna þess að þeirra hlutskipti á að vera, verði þetta samþykkt, miklu meira en bara aðkoman að skipulagsmálum einum. Hlutverk þessara litlu sveitarfélaga, sem sum hver hafa ekki nema um 100 og jafnvel færri íbúa, á m.a. að vera heilbrigðis- og mengunareftirlit á öllu miðhálendi landsins upp á miðja jökla, almannavarnir á öllu þessu svæði, byggingareftirlit á öllu þessu svæði, löggæslumál að verulegu leyti á öllu þessu svæði og stjórn beitar- og gróðurverndar á öllu þessu svæði.

[15:15]

Ég spyr: Hefur okkur Íslendingum tekist svo vel með mengunareftirlit og heilbrigðiseftirlit á hálendinu, svo ekki sé talað um gróðurvernd og beitarstjórnun í óbreyttu skipulagi, að ástæða sé til þess að fela því óbreytta skipulagi forræði þessara mála áfram og bæta þar verulega við? Er það t.d. tilviljun að í svæðisskipulagi hálendisins, sem hæstv. umhvrh. hugðist staðfesta, að þeim lögum settum sem eru til umræðu, skuli ekki vikið aukateknu orði að stærsta vandamáli Íslands sem er gróðureyðingin á hálendi landsins? Þetta land er að fjúka burt. Hér á sér stað stærsta eyðimerkurmyndun í heiminum vegna umgengninnar um gróðurlendið á hálendinu. Þegar fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem við hér ræðum um koma að gerð svæðisskipulagstillögu fyrir þetta sama hálendi er þetta sá eini þáttur sem er ekki svo mikið sem drepið á í skipulagstillögunum. Stærsta vandamál hálendisins, gróðureyðing, mengun, jarðvegseyðing er ekki einu sinni tekið til umræðu, það er ekki minnst á það í svæðisskipulaginu. Finnst mönnum virkilega að þá sé ástæða til að færa fulltrúum þeirra sem hafa unnið að þessu svæðisskipulagi enn meiri völd, enn meiri völd á þessu svæði en þeir hafa haft, til þess að gera betur í þessum málum en tillögur þeirra um svæðisskipulag sýna að þeir séu reiðubúnir til?

Virðulegi forseti. Mér finnst full ástæða til þess við þessar aðstæður að benda á að meðal þeirra raka sem eru færð fyrir því að rétt sé að þessi litlu, aðliggjandi sveitarfélög öðlist meiri rétt til stjórnar miðhálendisins en önnur, eru m.a. í þá veru að íbúar þeirra þekki þessi hálendissvæði miklu betur en flestir ef ekki allir aðrir. En eins og hv. alþingismaður Össur Skarphéðinsson sagði áðan: Hver var það sem uppgötvaði miðhálendi Íslands og kynnti það fyrir íslensku þjóðinni? (Gripið fram í: Fjalla-Eyvindur.) Fjalla-Eyvindur uppgötvaði að hluta til hálendi Íslands, það er rétt, en hann passaði sig á því að kynna það ekki fyrir íslensku þjóðinni vegna þess að hann vissi að ef hann kynnti það fyrir íbúum aðliggjandi sveitarfélaga mundi hann þar hvergi eiga griðland. Svo þó að Fjalla-Eyvindur þekkti talsvert vel til miðhálendisins, eða a.m.k. ákveðna hluta þess sjálfur, var hann ekki í því hlutverki að kynna það fyrir öðrum Íslendingum. Þeir sem voru í því hlutverki voru fyrst erlendir fræðimenn, síðan íslenskir vísindamenn, sem m.a. bjuggu í Kaupmannahöfn og dvöldust þar lungann úr sinni ævi. Í þriðja lagi ferðaforustumenn, eins og Guðmundur Jónasson og fleiri góðir menn, sem bjuggu í henni Reykjavík. Þannig að þeir sem eiga heiðurinn og þakkirnar af því að kynna hálendið fyrir íslenskum almenningi eru fyrst og fremst þessir aðilar. Skyldi ekki maður eins og t.d. Ómar Ragnarsson fréttamaður þekkja miðhálendi Íslands betur en þorrinn af þeim sem býr í aðliggjandi sveitarfélögum?

Þannig er það nú einu sinni að ferðamenn, umhverfisverndarmenn, alþingismenn eins og sá ágæti maður Hjörleifur Guttormsson eða Ólafur Örn Haraldsson, sem hér sitja, þekkja miðhálendi Íslands betur en flestir aðrir. Ef menn ætla að segja að í krafti þekkingar eigi menn að hafa áhrif eru það fyrst og fremst þessir aðilar sem samkvæmt þeim rökum ættu að hafa áhrif á ráðstöfun þeirra auðlinda sem hægt er að meta til verðs eða ekki hægt að meta til verðs, sem hægt er að finna á miðhálendi Íslands.

Það að menn séu eitthvað nær þessu miðhálendi en aðrir eru heldur ekki rök vegna þess að stór hluti þeirra svæða sem frv. gerir ráð fyrir að verði skipt upp á milli aðliggjandi sveitarfélaga er í slíkri órafjarlægð frá þeim, að það skiptir miklu minna máli hver fjarlægðin er t.d. frá efsta bæ í viðkomandi hreppi til næsta þéttbýlisstaðar en frá efsta bæ í viðkomandi hreppi til endimarka þess lands sem vald sveitarfélagsins á að ná til. Í því sambandi má nefna allt Ódáðahraun, svæði norðan Vatnajökuls, Sprengisand, Nýjadal, Veiðivatnasvæðið og svæðið fyrir norðan Tungnaárjökul og alla jökla landsins að Vatnajökli meðtöldum. Að halda því t.d. fram að íbúi í aðliggjandi sveitarfélagi þekki Vatnajökul betur en nokkur Íslendingur með lögheimili í Reykjavík er fjarri lagi. Mjög margir með lögheimili í Reykjavík þekkja Vatnajökul miklu betur en nokkur aðili gerir með lögheimili utan Reykjavíkur. Þumalfingursregla um að menn eigi að njóta áhrifa til stjórnunar á þessu svæði í samræmi við þekkingu sína á því er ekki til þess fallin að styðja þá tillögu sem gerð er í frv. til sveitarstjórnarlaga sem hæstv. félmrh. flytur.

Herra forseti. Þá vildi ég snúa mér að því frv. sem er ekki á dagskrá, en hæstv. umhvrh. tók á dagskrá, að vísu undir öðrum dagskrárlið hér í gær og lagði fram til kynningar, en svo að vitnað sé til keimlíks máls og umfjöllun fjölmiðla um niðurstöður þess á Alþingi þá vann hæstv. umhvrh. þann stórpólitíska sigur í dag að honum tókst að koma í veg fyrir að frv. hans hlyti afgreiðslu. Fyrir örfáum dögum var annar ráðherra Framsfl. sem lagði fram frv. um gagnagrunn. Þegar sá ráðherra Framsfl. lagði fram það frv. tók sá ráðherra það sérstaklega fram í framsöguræðu sinni að hann ætlaði sér ekki að bregða fæti fyrir frv. sem hann flytti. Engu að síður varð niðurstaðan sú að afgreiðslu frv. var frestað. Að sjálfsögðu mætti ráðherrann í viðtal við fjölmiðla og fjölmiðlungur spurði hann fyrir agndofa hlustendum: Var þetta ekki stórkostlegur pólitískur sigur fyrir þig, að frv. sem þú fluttir hlaut ekki afgreiðslu? Ráðherra brá að sjálfsögðu við að heyra þessa furðulegu spurningu en svaraði síðan játandi.

Nú hefur slíkt gerst aftur á Alþingi hjá ráðherra sama flokks. Hann vann þann stórkostlega pólitíska sigur í dag að frv. sem hann flutti fékkst ekki tekið til umræðu. Munurinn á þessum hæstv. ráðherra og hinum ráðherranum úr Framsfl. var sá að hæstv. umhvrh. bað sjálfur um þessa afgreiðslu, þ.e. hinn pólitíski sigur hans í dag varð fyrst og fremst fyrir frumkvæði hans sjálfs. Hann vann þennan pólitíska sigur afdráttarlaust með fylgismönnum sínum og ég óska honum til hamingju með það.

Vegna þess að hann vann þennan pólitíska sigur í dag er útilokað fyrir mig og aðra þingmenn að taka frv., sem hann kynnti, til umræðu með öðrum hætti en hann gerði sjálfur, þ.e. með þeim hætti að ræða það undir þessum dagskrárlið og óska eftir skýringum hæstv. ráðherra á ýmsum þáttum í því frv. því að fram hefur komið að það frv. hans, frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, sé grundvöllur að einhverri sáttargerð milli þingmanna stjórnarflokkanna, þó svo að ekki nema einn af þeim þingmönnum, sem tekið hefur til máls í umræðu um þetta mál, hafi lýst sig fylgjandi þeirri sáttargerð. Engu að síður virðist svo vera að þetta frv. sé grundvöllur að sáttargerð og því er nauðsynlegt að spyrja hæstv. ráðherra um nokkur efnisatriði í frv.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu skuli tilnefna samtals tólf fulltrúa. Nú eru þessi sveitarfélög 42 talsins þannig að 30 þeirra fá engan fulltrúa í þessa samstarfsnefnd. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig gerir hann ráð fyrir því að sveitarfélögin 42, hrepparnir 42, sem liggja að miðhálendinu, komi sér saman um tilnefningu tólf fulltrúa? Á hvaða vettvangi á það að gerast? Eiga það t.d. að vera hrepparnir sem hafa flesta íbúana sem tilnefna? Á þetta að vera eftir einhverri landshornaskiptingu þannig að álíka margir fulltrúar komi úr hverju kjördæmi sem á hreppa sem eru aðliggjandi að miðhálendinu o.s.frv.? Það er nauðsynlegt að fá skýringu frá hæstv. ráðherra um það hvernig hann hugsar þessa framkvæmd.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að að loknum sveitarstjórnarkosningum meti samvinnunefndin hvort ástæða sé til að endurskoða svæðisskipulagið. Gott og vel. Hvert á viðkomandi samvinnunefnd að senda þá niðurstöðu sína? Við skulum segja sem svo að samvinnunefndin komist að þeirri niðurstöðu að ástæða sé að endurskoða svæðisskipulagið en skipulagsyfirvöld nú eða þær sveitarstjórnir sem hlut eiga að máli séu bara einfaldlega ekki á sama máli og segi nei. Hvað gerist þá? Hvert er þá valdsvið samvinnunefndarinnar, hvað getur hún gert í málinu?

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að þessi samvinnunefnd sé tillöguaðili, umsagnaraðili. Hvaða vigt hefur umsögn hennar? Er gert t.d. ráð fyrir því að setja reglugerð um að ekki sé hægt að samþykkja skipulag sem gangi gegn tillögu samvinnunefndarinnar? Eða er þetta bara svipað og fjöldamargir umsagnaraðilar utan úr bæ geta komið að og sent umsögn sína um slíka skipulagstillögu og að staða samvinnunefndarinnar sé ekki á neinn hátt öflugri eða sterkari hvað aðkomuna varðar en annarra umsagnaraðila? Það er ekki að sjá af frv. að samvinnunefndin hafi neinn meiri rétt til að tekið sé tillit til umsagnar hennar en aðrir umsagnaraðilar sem kunna að koma að málinu. Hvernig hugsar hæstv. ráðherra sér þessa framkvæmd?

Í fjórða lagi er sagt í 2. gr. að Skipulagsstofnunin skuli leita álits samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins sbr. 12. gr. a á tillögum að svæðisskipulagi miðhálendisins, sem unnið er að á vegum samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins sem skipuð var árið 1993, áður en Skipulagsstofnun gerir tillögu til ráðherra um lokaafgreiðslu.

Nú hafði áður komið fram hjá ráðherranum í 1. umr. um þetta frv., að hæstv. ráðherra taldi að yrði tillaga hæstv. félmrh., sem liggur nú til umræðu og afgreiðslu í sveitarstjórnarlögum, samþykkt væri honum ekkert að vanbúnaði að staðfesta svæðisskipulagstillöguna sem fyrir honum liggur núna og taka þá tillit til þeirra fjölmörgu athugasemda sem borist höfðu. Hann upplýsti það í umræðum að hann gerði ráð fyrir því að hann mundi þá samþykkja eða staðfesta slíka tillögu að breyttu breytanda á hausti komanda.

Nú er eðlilegt að spurt sé: Í frv. er gert ráð fyrir því að tillagan sé ekki staðfest, tillagan kom raunverulega ekki fram frá Skipulagsstofnun til ráðherra fyrr en samvinnunefndin sé búin að gefa umsögn sína. Auðvitað er ljóst að það er ekkert smáverkefni að yfirfara ekki bara allar athugasemdir sem komið hafa fram á svæðisskipulaginu heldur að gera sjálfstæða athugun eins og nefndin á að gera á málinu frá byrjun því að ekki er ætlast til að samvinnunefndin taki bara til umfjöllunar svæðisskipulagstillöguna eins og hún liggur fyrir og athugasemdir við hana heldur verður ekki skilið af 2. gr. annað en að ætlast sé til að samvinnunefndin hafi sjálfstæða aðkomu að málinu og fari ofan í alla sauma málsins, þ.e. að ætlast sé til að nefndin vinni verkið aftur að verulegu leyti. Ég spyr hæstv. ráðherra hvaða frest hann ætli að gefa samvinnunefndinni. Gerir hann enn ráð fyrir að hann muni staðfesta svæðisskipulagið verði frv. þetta samþykkt á komandi hausti? Eða hvaða tíma ætlar hann að gefa nefndinni til að ljúka störfum sínum?

[15:30]

Herra forseti. Það er vissulega ástæða til að fjalla hér nokkuð um þátt einstakra hv. þm. í þessu máli. Sérstaklega gleður það mig að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir skuli vera mætt hér. Hún virtist ætla að hafa þann hátt á þessu máli að gefa yfirlýsingu um að allt væri klappað og klárt héðan úr ræðustóli og hlaupa síðan á brott. Það hefur hún hins vegar ekki gert. Hún situr hér, reiðubúin að standa fyrir máli sínu. Það er mjög ánægjulegt.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gekk þingmanna lengst í að gagnrýna þetta mál þegar það kom til 1. umr. Hún reið á vaðið, fyrst og ein stjórnarþingmanna við 1. umr. að því er ég man, að minnsta kosti fyrsti og eini þingmaður Framsfl. sem tók til máls við 1. umr. og gagnrýndi það. Hún kvaðst ekki geta samþykkt þetta mál þar sem svo freklega væri gengið á hagsmuni íbúa þéttbýlisins. Mér er minnisstætt hvernig hún orðaði þá afstöðu. Hún sagði að á bak við sig hefði hún stuðning og ályktun kjördæmissamtaka framsóknarmanna í Reykjaneskjördæmi, en kjördæmisráðið væri fulltrúi hvorki meira né minna en fjórðungsins af kjósendum Framsfl. Hún kom í ræðustól og sagðist vera andvíg tillögu hæstv. félmrh. um takmörkun á réttindum íbúa þéttbýlisins og kvaðst tala sem fulltrúi fjórðungs kjósenda Framsfl.

Nú spyr ég hv. þm.: Hefur hún nú eins og þá á bak við sig samþykkt kjördæmisráðs framsóknarmanna úr Reykjaneskjördæmi um að þessi niðurstaða sé fullnægjandi? Telur kjördæmisráðið fullnægjandi að kjósendur í Reykjaneskjördæmi fái einn sjötugasta af atkvæðis- og áhrifarétti annarra sem fjalla eiga um skipulag og stjórn miðhálendisins? Er það fullnægjandi?

Í annan stað, af því að hv. þm. var nú aðili að þessari málamiðlun, vil ég gjarnan heyra svör hennar. Hún hlýtur að hafa svör við því, herra forseti, sem ég spurði um áðan. Ég ætla að biðja hv. þm. að leggja við hlustirnar. Hvernig mundi hún leggja til að hinir 12 fulltrúar sveitarfélaganna 42, sem eiga aðild að miðhálendinu, verði valdir? Hvernig sér hún valdsvið þeirrar samvinnunefndar sem mynda á? Að hve miklu leyti er vald þeirra meira en réttindi annarra umsagnaraðila? Hvar er að sjá stað slíkum réttindum í 1. gr. frv.? Hvaða áhrif hefur samvinnunefndin umfram aðra umsagnaraðila og hvernig er það tryggt í frv. að tillit verði tekið til athugasemda hennar?

Í þriðja lagi vil ég spyrja: Komist samvinnunefndin að þeirri niðurstöðu að ástæða sé til að endurskoða svæðisskipulag en skipulagsyfirvöld og þau sveitarfélög sem um er að ræða segja nei, hvernig á þá með málið að fara? Hver yrði þá réttur samvinnunefndarinnar?

Í fjórða lagi þætti mér fróðlegt að vita hvenær samvinnunefndin eigi að ljúka störfum áður en Skipulagsstofnun gerir tillögu til ráðherra um lokaafgreiðslu svæðisskipulagsins, sem liggur fyrir Skipulagsstofnun og ráðherra nú á þessari stundu? Hvað samdi þingmaðurinn um að samvinnunefndin hefði langan tíma til að gera athugasemdir og gefa umsagnir sínar áður en umhvrh. staðfestir tillögur svæðisskipulagsins? Umhvrh. hefur áður lýst yfir á Alþingi að hann ætlaði sér að gera það í haust. Hvað samdi hv. þm. um langan frest í þessu efni?

Herra forseti. Það er vissulega ástæða til að fara yfir mun fleiri mál. Ég er hér með margar umsagnir sem full ástæða væri til að fara vandlega í, en ætla aðeins, með leyfi forseta, að nefna örfá atriði úr þeim. Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur flutti erindið Um daginn og veginn í Víðsjá á Rás 1 mánudaginn 27. apríl. Þar sagði hún m.a., með leyfi forseta:

,,Skipulagning og skipting 40% prósenta Íslands sem má kalla nýtt landnám hlýtur að vera eitt af þýðingarmestu og afdrifaríkustu málum í sögu okkar. Í staðinn fyrir að taka á því með ábyrgum hætti þá útbýtir Alþingi valdi til aðskipuleggja hálendið áður en ákveðið er hver á að stjórna þar. Ofan á þetta bætist svo hin sérstæða samsetning skipulagsnefndarinnar. Meðferð þessa máls frá hendi Alþingis er svo frumstæð og gerræðisleg og andstæð almennri skynsemi að stofnunin bíður varanlegan álitshnekki af, og steininn mun taka úr ef svo fer sem horfir að stjórnarfrumvarp félagsmálaráðherra verður samþykkt á morgun, þar sem 40 sveitarfélögum, sumum mjög fámennum, er falin stjórn hálendisins.``

Rithöfundurinn segir síðan í lok máls síns, með leyfi forseta:

,,Því eigum við heimtingu á að þingmenn taki á sig rögg og viðurkenni mistök, að þeir bretti upp ermar, og segi: Hér er verk að vinna. Nú tökum við okkur góðan tíma í að endurskoða allt sem hálendið varðar, með þátttöku kjósenda okkar, hvaðan sem þeir koma, og færustu manna. Tertusneiðafrumvarpið hefur mætt andstöðu almennings, fjölmennra félagasamtaka, ríkisstofnana, og þess fagfólks sem gleggsta yfirsýn hefur um hvað er raunverulega á ferðinni, og hverjar afleiðingar geta orðið. Andstaðan er of mikil og víðtæk til þess að Alþingi geti hunsað hana. Það allra minnsta sem við getum farið fram á er tími til að afla grunnupplýsinga, tími til stefnumótunar, tími til nútímalegrar skipulagsvinnu, með öðrum orðum tími til að taka góðar og ábyrgar ákvarðanir í þessu stórmáli fyrir framtíð landsins okkar.``

Þetta sagði rithöfundurinn Steinunn Sigurðardóttir mánudaginn 27. apríl sl. í Víðsjá á Rás 1. Virðulegi forseti. Hún talar fyrir hönd, að ég held, allra þeirra aðila sem eiga hagsmuna að gæta og veitt hafa umsögn um þetta mál. Hún talar fyrir hönd ferðafélaga, náttúrulífssamtaka, náttúruverndarsamtaka og áhugaaðila um réttindi á hálendi Íslands. Hið sama kemur fram í viðtali við framkvæmdarstjóra Ferðafélags Íslands í Morgunblaðinu í morgun. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Framkvæmdarstjóri Ferðafélags Íslands telur frumvarp umhverfisráðherra um breytingu á skipulags- og byggingarlögum ekki ganga nógu langt og því muni sveitarfélögin sem land eiga að hálendinu enn ráða því. ,,Ítök þeirra eru mun meiri en ítök þéttbýlisbúa geta nokkurn tímann orðið,`` sagði Kristján M. Baldursson, framkvæmdastjóri Ferðafélagsins.

,,Þessi sveitarfélög eru í miklum meiri hluta þó að þéttbýlisbúar fái tvo fulltrúa af 18,`` sagði Kristján enn fremur og telur hann að ekki hafi með því tekist að draga úr áhrifum sveitarfélaganna og því sé málið í slæmri stöðu enn þá. ,,Hálendið ætti að vera eitt stjórnsýslu- og skipulagssvæði, það er álit okkar og annarra útivistarsamtaka sem hafa lýst áliti sínu. Það verður að tryggja bæði rétt þeirra sem hafa aðstöðu og atvinnustarfsemi á hálendinu og útivistarfólks.´´

Þetta sagði framkvæmdarstjóri Ferðafélags Íslands og tekur með þessum orðum, þar sem hann segist ekki aðeins tala fyrir sín samtök heldur annarra útvistarsamtaka, í einu og öllu undir þá tillögu sem jafnaðarmenn hafa flutt hér á Alþingi og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir gerði rækilega grein fyrir fyrr í umræðunni. Síðan segir framkvæmdarstjóri Ferðafélagsins í sama viðtali við Morgunblaðið, með leyfi forseta: ,,Kristján sagði skynsamlegast í stöðunni að fresta afgreiðslu frumvarps til sveitarstjórnarlaga og geyma þá umræðu til hausts ásamt frumvarpi umhverfisráðherra. Hann kvað líklegt að Ferðafélagið og önnur svipuð samtök mundu gefa sameiginlegt álit á stöðu málanna.´´

Virðulegi forseti. Þetta er afstaða þeirra sem mæla fyrir munn almannahagsmunasjónarmiða í málinu en ekki sérhagsmunasjónarmiða. Vissulega er ástæða fyrir hv. Alþingi að taka afstöðu til þessara tillagna og til þessara umsagna. Ég vil í lokin koma að einu máli sem vissulega er skylt þeirri niðurstöðu sem ég lýsti áðan.

Ég hef í dag óskað eftir því að fá upplýst frá skrifstofu Alþingis hvaða mál bíði 2. umr. Okkur alþingismönnum hefur verið frá því skýrt að stefnt sé að því að þinglausnir verði föstudaginn 8. næsta mánaðar. Eldhúsdagsumræða á að vera nk. miðvikudag. Miðað við þessi markmið hafa, m.a. í samráði við stjórnarandstöðuna, verið haldnir kvöldfundir í þessari viku. Um það hefur verið samkomulag og við höfum miðað við að þinglausnir verði á föstudaginn eftir viku og eldhúsdagsumræður verði á miðvikudagskvöld. Um annað höfum við ekki verið látin vita. Þannig hefur samkomulagið verið. Nú stendur það þannig að ég hef í höndum lista frá skrifstofu Alþingis, sem útbúinn var í dag, um þau stjórnarmál sem óafgreidd eru á þessari stundu.

Herra forseti. Úr nefndum eru komin 43 frv. sem bíða 2. umr. við þessar aðstæður. Mörg þessara 43 frv. eru mál sem krefjast munu mikillar umræðu hér á Alþingi. Ég skal nefna nokkur þeirra frv. sem munu án efa kosta mikla umræðu. Það eru náttúrlega sveitarstjórnarlögin sem hér liggja fyrir. Það er eftirlitsstarfsemi hins opinbera sem mikill ágreiningur er um í efh.- og viðskn. Það er eignarhald og nýting á auðlindum í jörðu. Þingsins bíða þjóðlendufrv., frv. um gjald af áfengi, frv. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt er varðar vaxtabætur, frv. um tekjuskatt og eignarskatt er varðar lækkun á skatthlutfalli fyrirtækja niður í það lægsta sem þekkist í Evrópu. Eftir á að ræða um framleiðslu og sölu á búvörum, um eftirlit með fjármálastarfsemi. Stjórn veiða á norsk-íslenska síldarstofninum mun sjálfsagt þurfa nokkra umræðu að ógleymdum húsnæðismálunum.

[15:45]

Þessi mál eru í hópi 43 frumvarpa sem óafgreidd eru nú og bíða 2. umr. Við stjórnarandstæðingar vitum ekki betur en að eldhúsdagsumræða eigi að vera næstkomandi miðvikudag og þinglausnir á föstudag. Í því trausti höfum við fallist á langa næturfundi í þessari viku. Þetta voru bara stjórnarfrv. sem óafgreidd eru, virðulegi forseti. Þá er eftir að telja stjórnartillögur sem óafgreiddar eru, sem eru einar sjö eða níu, þingsályktunartillögur frá ríkisstjórninni og síðan allnokkur mál frá einstökum þingmönnum sem samkomulag hefur náðst um í þingnefndum að afgreiða, bæði stjórnarþingmönnum og stjórnarandstöðuþingmönnum. Því vil ég spyrja virðulegan forseta --- það er nú kannski ekki aðalforseti sem í stólnum situr og hefði verið fyllri ástæða að spyrja hann --- en ég get ekki annan spurt en þann forseta sem í fyrirsvari er: Hvernig má þetta vera? Ef við förum heim rétt undir klukkan sjö í kvöld ef að líkum lætur, umræða stendur enn og er mikið eftir af henni um sveitarstjórnarlög --- með hvaða veganesti förum við? Eigum við að nýta helgina, herra forseti, til að undirbúa okkur undir eldhúsdagsumræðurnar á miðvikudagskvöldið? Líklega verður ekki mikill tími til þess þegar mánudagurinn rennur upp að taka slíkar ræður saman því miklar annir verða á Alþingi Íslendinga þegar farið er að ræða þessi 42 mál sem eftir eru af stjórnarfrv. loks þegar að þeim kemur. Mér finnst, herra forseti, að við getum ekki farið núna af þingi í dag klukkan sjö án þess að fá einhver skilaboð frá forseta. Er þessi ákvörðun enn óbreytt, sem við höfum unnið eftir, eða hefur einhver ný ákvörðun verið tekin eða rædd við þingflokksformenn, og hver er hún þá? Hver eru skilaboð forseta þingsins til þingmanna við þessar aðstæður? Séu þau ekki ljós núna, sem kannski má vera að ekki sé, mun þá ekki forseti sjá til þess að áður en þingmenn fara til að halda hátíðlegan 1. maí, alþjóðlegan baráttudag verkalýðsins, að þeim verði tjáð hvernig baráttunni í þinginu verði hagað á fyrstu dögunum þar á eftir.