Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 15:51:33 (6068)

1998-04-30 15:51:33# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[15:51]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef héraðsnefndirnar eiga að tilnefna þessa 12 fulltrúa, af hverju er það þá ekki sagt? Það að segja það ekki, heldur tala um sveitarfélögin þýðir m.a. það að í kjördæmi hæstv. ráðherra verða bæði Akureyringar og Húsvíkingar utan garðs. Finnst hæstv. ráðherra ástæða til að halda þeim utan garðs? Er það þess vegna sem hæstv. ráðherra meðvitað tekur þá ákvörðun að segja ekki að héraðsnefndirnar skuli tilnefna þessa 12 aðila heldur sveitarfélögin sem liggja að viðkomandi svæði? Er það til þess að halda fulltrúum fjölmennustu byggðarlaganna í hans eigin kjördæmi utan áhrifa?

Það er vissulega ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra ætlar að gefa samvinnunefndinni einhvern tíma, en hann segir hér tvennt. Hann segir: Þessi samvinnunefnd hefur ekki sterkari stöðu en hvaða umsagnaraðili sem er, þ.e. sé hún ekki sammála því erindi sem liggur fyrir Skipulagsstofnun mun ráðherra að sjálfsögðu taka við umsögn hennar eins og annarra og fella síðan úrskurð um það. Þannig er samræmingarnefndin bara einn af mörgum umsagnaraðilum án þess að hafa nokkra sérstaka stöðu í stjórnkerfinu og síðan segir hann: Ég mun að vísu gefa henni einhvern tíma til að fjalla um málið áður en ég staðfesti tillögu um svæðisskipulag en það verður ekki tími til að taka málið til sjálfstæðrar athugunar, heldur bara til að fjalla um þá tillögu sem fram er komin og þær athugasemdir sem við hana hafa verið gerðar. Og þetta, virðulegi forseti, er sáttmáli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur. Hann er svona. Ég held að hv. þm. ætti sem snarast að víkja sér úr sal og ekki taka mikinn þátt í þessari umræðu meir.