Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 15:53:59 (6069)

1998-04-30 15:53:59# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[15:53]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom fram í máli mínu, frekar í fyrradag en í gær, þegar mál þetta var til umræðu að það er alveg skýrt að þessi samvinnunefnd fjallar áfram um svæðisskipulagið. Það er hún sem hefur með svæðisskipulagið að gera. Það gerir engin önnur nefnd. Það er engin önnur nefnd til að samræma svæðisskipulagið á miðhálendinu þannig að hún hefur þar alveg fullkomið hlutverk. Hins vegar kom líka fram í máli mínu að aldrei hefur staðið til að þessi svæðisskipulagsnefnd taki yfir verkefni sveitarfélaganna sem eiga að sjá um aðalskipulag. Það hef ég ekki samþykkt. Það hef ég sagt áður og það er ekkert nýtt í því. Hin nýja nefnd á að fjalla um svæðisskipulagið og auðvitað vinna það, það gerir ekki önnur nefnd því það er ekki önnur nefnd sem hefur það verkefni, og veita umsögn um tillögurnar að aðalskipulaginu til að tryggja að samræmi sé milli svæðisskipulagsins og aðalskipulags sveitarfélaganna. Sú umsögn fer að sjálfsögðu til Skipulagsstofnunar og það er Skipulagsstofnun sem gerir síðan sína tillögu til ráðherra. Þetta er gangur málsins og það er ákaflega einfalt og skýrt og þarf því ekki að velta mikið vöngum yfir því.

Ég held að hv. þm. hafi líka spurt áðan í fyrri ræðu sinni um nánari reglur um starf nefndarinnar og það segir reyndar hér í frv.: ,,Ráðherra setur samvinnunefndinni starfsreglur að fengnum tillögum hennar.`` Við höfum hugsað það svo að nefndin hafi nokkuð með það sjálf að gera hvernig starfsreglur hennar verða mótaðar í samráði við ráðuneytið að sjálfsögðu. Og enn ítreka ég það að þegar það svæðisskipulag sem nú er í vinnslu, og sú samvinnunefnd sem er að störfum og hefur frest til 1. desember, þegar hún skilar niðurstöðum sínum eftir að hafa farið í gegnum allar þær athugasemdir sem þar liggja núna fyrir fer það til Skipulagsstofnunar. Hin nýja nefnd kemur síðan að málinu þegar hún verður til, verði þetta samþykkt sem ég vona að verði, þá hefur hún tíma til þess eftir áramótin að fara yfir málið og ég ítreka það. Það sagði ég reyndar hér fyrr í umræðunni. Það er ekki ætlast til að hún fari að vinna alla vinnuna upp aftur, búa til nýtt skipulag, taka málið til heildarendurskoðunar heldur að fara yfir það, gera við það athugasemdir, umsagnir, sem fara síðan til Skipulagsstofnunar og Skipulagsstofnun sendir þær síðan til ráðherra þegar því starfi er lokið. Það eru engin tímamörk á því.