Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 16:31:32 (6077)

1998-04-30 16:31:32# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[16:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að þakka þessi hlýlegu orð og góðar kveðjur, þótt stundum sé sagt að það sé takmarkaður greiði við okkur stjórnarandstæðinga þegar stjórnarsinnar hæla okkur og hrósa fyrir að vera sammála þeim eða öfugt. Ég tek hins vegar undir það með hv. ræðumanni og það er hárrétt að það er dapurlegt ef okkur tekst ekki að verða sammála um þetta mikilsverða mál og leiða það skynsamlega til lykta.

Ég get ekki sannara orð sagt en að ég tel að við í okkar þingflokki, þingflokki Alþb. og óháðra, höfum lagt talsvert á okkur í þessu efni. Við ákváðum að taka þátt í málamiðlun sem var langt frá því einfalt mál fyrir okkur, eða a.m.k. suma í okkar röðum. Ég vil benda á að fulltrúi Alþb. og óháðra í félmn. er Ögmundur Jónasson, þingmaður í Reykjavík. Ég tel að hann hafi risið verulega með því að standa að þeirri málamiðlun þrátt fyrir það að við vitum að það eru mjög blendin sjónarmið og heita tilfinningar um þetta mál í hans kjördæmi og víðar. Þeim mun dapurlegra er að ekki skuli hægt að láta þá hluti halda sem menn töldu sig hafa samið um. Ég skora á stjórnarflokkana að fara aftur yfir það hvort ekki er hægt að snúa af þeirri ógæfubraut sem menn lentu á, sérstaklega í morgun.