Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 16:35:21 (6079)

1998-04-30 16:35:21# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[16:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er nú alveg örugglega rétt að við eigum það öll sameiginlegt að þykja vænt um landið okkar. Þó við getum rifist um margt, þingmenn, er örugglega vonlaust fyrir okkur að ætla að deila um það. Ég vil svara spurningu hv. þm. um það til hvers ég hafi verið að vísa þegar ég taldi að í málflutningi, eins og hann var fram borinn, hafi falist vísun til þess að menn vantreystu sveitarfélögunum og íbúum þeirra svæða sem lægju að hálendissvæðunum til að sjá um stjórnsýslu í þessum efnum. Já, ég var þar að hluta að vísa almennt til málflutnings jafnaðarmanna, það er rétt.

Ég nefndi reyndar aðeins einn hv. þm. á nafn, og það var hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson. Ég tel að hann hafi gengið lengst í þessum málflutningi og í raun og veru langlengst. Mér hefur á köflum algerlega blöskrað hvernig sá hv. þm. hefur stillt þessum hlutum upp. Ég tel að sumir talsmenn hv. þm. jafnaðarmanna hafi einnig fallið í þessa gryfju að nokkru leyti. Ég tek skýrt fram að ég er þar ekki að vísa til þess að menn hafi sagt slíka hluti. Mér hefur hins vegar fundist óþarfi, eins og ég reyndi að útskýra, að rökstyðja þá sjálfsögðu og eðlilegu kröfu að Reykvíkingar og Reyknesingar eigi þarna aðild að og þeirra sjónarmið og íbúar þéttbýlissveitarfélaga þannig að það komi út eins og vantraust á aðra íbúa í landinu og aðra landshluta. Það er algjör óþarfi vegna þess að ég held að um þetta þurfi ekki að vera slík deila.

Á köflum hefur þessi umræða því miður verið svo að ómögulegt er annað en fá það á tilfinninguna að þar liggi að baki ákveðið vantraust, ótti við að skammtímanýtingarsjónarmið og græðgi, eða hvað það nú væri, mundi bera ofurliði þá sem eru of nærri þeim hagsmunum. Ég minni t.d. á orðaskipti hv. þm. í gærkvöldi, Ólafs Arnar Haraldssonar og Guðna Ágústssonar.