Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 17:34:09 (6086)

1998-04-30 17:34:09# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[17:34]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Við höfum hér hlýtt á mjög gagnmerka og frekar stutta ræðu hv. þm. miðað við það sem gengur og gerist á þessum drottins degi. Hún var ekki nema 50 mínútur og ég þakka fyrir það hvað hv. þm. var gagnorður. Enn og aftur spyr hann um fyrirvara minn og enn og aftur verð ég að svara nákvæmlega því sama og vona ég að í þetta skipti fari þetta nú að síast inn.

Fyrirvarinn gekk út á það númer eitt að hálendið yrði skipulagt sem ein heild, og númer tvö að fulltrúar allra landsmanna tækju þátt í ákvörðun um það skipulag. Fyrst var rætt um að hæstv. ráðherra kæmi með yfirlýsingu en svo kom upp enn betri lausn sem fólst í því að hann lagði fram frv. til að sýna þinginu vilja sinn í þessu máli og það er algerlega fullnægjandi að mínu mati, því þar er gert ráð fyrir að samvinnunefnd verði skipuð sem í eigi sæti fulltrúar meira að segja búsettir í Reykjavík og á Suðurnesjum sem fjalli um svæðisskipulag miðhálendisins. Hún er ekkert verkefnalaus, ekki aldeilis. Hún fjallar um svæðisskipulag miðhálendisins. Þetta er ekki verkefnalaus nefnd og það er meira að segja gert ráð fyrir að kostnaður við hana sé greiddur úr ríkissjóði, þannig að hún á að kosta eitthvað. (Gripið fram í: Ég veit það nú ekki.) Og að loknum sveitarstjórnarkosningum á þessi nefnd að endurskoða svæðisskipulagið og auk þess á svæðisskipulagið að færast inn í aðalskipulag hlutaðeigandi sveitarfélaga, svo verkefnið er nú aldeilis og það er aldeilis búið að tryggja að íbúar landsins, fulltrúar allra íbúa landsins komi að þessari nefnd og þessu skipulagi, miklu betur en í tillögum jafnaðarmanna sem hv. þm. er jú hluti af og talar alltaf um sem ,,við``, þar sem gert er ráð fyrir að eingöngu ríkisstarfsmenn komi að nefndinni.