Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 17:43:35 (6091)

1998-04-30 17:43:35# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[17:43]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átti ekki þátt í að setja þá löggjöf þar sem samþykkt var að þessi lína skyldi dregin. Hitt sem ég átti við þegar ég sagði að það yrði mjög erfitt að ná samkomulagi um þessa línu er, til ítrekunar því sem ég sagði áðan, að svæðisskipulagið verður ekki samþykkt nema öll sveitarfélögin samþykki það. Hafi náðst um það sátt hvar þessi lína skuli dregin er það í raun og veru mjög merkilegt því sennilega hafa nú fáar íþróttir verið stundaðar hér meir á árum áður en landamerkjadeilur og hver á hvað og hvað sé hvurs. Hafi menn náð um það samkomulagi við öll þau sveitarfélög sem eiga land að hálendinu er það mjög merkilegt og því ber að fagna.

Hins vegar, virðulegi forseti, datt hæstv. umhvrh. í þá gryfju sem margir aðrir hafa dottið í í þessari umræðu að halda því fram að þótt hv. þm. jafnaðarmanna hafi lagt á það áherslu að skipuleggja þurfi þetta svæði sem eina heild og til að geta nýtt þetta svæði sem best og skipuleggja það sem best sé nauðsynlegt að skipuleggja það sem eina heild. Það felur ekkert í sér vantraust á sveitarstjórnarmenn og ég bara bið menn að hætta þessari ,,þvælu``, virðulegi forseti, að vera að setja svona viðhorf fram í þessari umræðu.