Norræna vegabréfasambandið

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 10:41:27 (6102)

1998-05-04 10:41:27# 122. lþ. 116.2 fundur 601. mál: #A norræna vegabréfasambandið# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[10:41]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Á þskj. 1014 hef ég leyft mér að bera fram svofellda fyrirspurn til hæstv. forsrh. um norræna vegabréfasambandið. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

1. Er enn í gildi yfirlýsing sem forsætisráðherrar Norðurlanda gáfu á fundi sínum 27. febrúar 1995 þess efnis að ríkisstjórnir Norðurlanda líti á það sem sameiginlega ábyrgð sína (,,fælles ansvar``) að finna lausn milli Schengen-sáttmálans og norræna vegabréfa- og eftirlitssamstarfsins þannig að grundvallaratriði í norræna vegabréfasambandinu um frjálsa för norrænna ríkisborgara án vegabréfa geti haldist í löndunum öllum innan víðtækari ramma í evrópsku samhengi?

2. Er þess að vænta að ekkert Norðurlandanna gerist aðili að Schengen takist ekki að finna viðunandi lausn á málefnum Noregs og/eða Íslands í samningum við Evrópusambandið þannig að norræna vegabréfasambandið fái staðist til frambúðar?

3. Hver yrði staða norrænna og/eða íslenskra ríkisborgara stæðu löndin utan Schengen í samanburði við Breta sem hafa ákveðið að halda uppi eigin vegabréfaeftirliti?

Þetta er fyrirspurnin, virðulegi forseti. Ég hef lagt fyrir hæstv. utanrrh. ítarlega fyrirspurn um norræna vegabréfasambandið og fengið skrifleg svör sem hins vegar lúta ekki beint að því sem hér er spurt um. Þau skýra þó viss atriði og það er alveg ljóst, virðulegur forseti, að þessi mál eru í hörðum hnút og á því eru mjög ákveðnar skýringar.

Schengen-samningurinn sem íslensk stjórnvöld undirrituðu og var sýndur opinberlega í fyrsta skipti nýlega með framlagningu á Alþingi, samningurinn frá 19. desember 1996, gildir ekki lengur. Þ.e. hann er ekki til samþykktar vegna breytinga á grundvelli Evrópusambandsins sem veldur því að allt málið er flóknara en ella hefði verið. Það er ljóst að innan Evrópusambandsins er hörð andstaða við að hleypa Íslendingum jafnlangt að borði og kröfur hafa verið um. Bæði er það hjá einstökum aðildarríkjum og eins milli ráðherraráðsins og framkvæmdastjórnarinnar í Brussel.

Í fréttum nú áðan kom fram að samkvæmt skoðanakönnunum í Danmörku eru tveir þriðju hlutar Dana andvígir Schengen-samkomulaginu um landamæraeftirlit. Ég hef haldið uppi mikilli gagnrýni á marga þætti þessa máls og varað við því sem er að gerast. Hér er ekki ráðrúm til þess að rekja þau atriði en ég tel mikilvægt að hæstv. forsrh. tjái sig um þetta.