Norræna vegabréfasambandið

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 10:44:46 (6103)

1998-05-04 10:44:46# 122. lþ. 116.2 fundur 601. mál: #A norræna vegabréfasambandið# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[10:44]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Fyrsta spurning hv. þm. er þessi: ,,Er enn í gildi yfirlýsing sem forsætisráðherrar Norðurlanda gáfu á fundi sínum 27. febrúar 1995 þess efnis að ríkisstjórnir Norðurlanda líti á það sem sameiginlega ábyrgð sína (,,fælles ansvar``) að finna lausn milli Schengen-sáttmálans og norræna vegabréfa- og eftirlitssamstarfsins þannig að grundvallaratriði í norræna vegabréfasambandinu um frjálsa för norrænna ríkisborgara án vegabréfa geti haldist í löndunum öllum innan víðtækari ramma í evrópsku samhengi?``

Svarið er þetta: Yfirlýsing forsætisráðherra Norðurlanda er í gildi og unnið er að málinu samkvæmt þeirri stefnu sem mörkuð var í yfirlýsingunni. Ísland og Noregur gerðu samstarfssamning við Schengen-ríkin sem undirritaður var 19. desember 1996, samhliða samningi Danmerkur, Finnlands og Svíþjóðar um aðild að Schengen-sáttmálanum.

Í fyrra var ákveðið, á ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins sem lauk með svonefndum Amsterdam-samningi, að fella Schengen-samstarfið undir sambandið. Jafnframt er í Amsterdam-samningnum ákvæði um að þátttaka Íslands og Noregs í Schengen-samstarfinu skuli byggjast á samstarfssamningnum frá 1996. Það þýðir m.a. að Evrópusambandið tryggir Íslandi og Noregi þátttöku í umræðum og ákvörðunum um þróun Schengen-samstarfsins og að dómar Evrópudómstólsins varðandi Schengen verða ekki bindandi fyrir ríkisborgara landanna tveggja. Gera þarf samkomulag um hvernig þessi atriði verði tryggð eftir að Schengen-samstarfið hefur verið fellt undir Evrópusambandið. Unnið er að undirbúningi málsins af hálfu Íslands og Noregs og annarra Norðurlanda í samræmi við yfirlýsingu forsrh. frá 1995 sem og í vinnuhópi embættismanna á vettvangi ráðherraráðs Evrópusambandsins. Ekki er unnt að kveða úr um það nú hver niðurstaðan verður, enda hafa formlegar samningaviðræður ekki hafist.

Í annan stað spyr hv. þm.: ,,Er þess að vænta að ekkert Norðurlandanna gerist aðili að Schengen takist ekki að finna viðunandi lausn á málefnum Noregs og/eða Íslands í samningum við Evrópusambandið þannig að norræna vegabréfasambandið fái staðist til frambúðar?``

Segja má að fyrirspurn þessi sé tæpast tímabær þar sem unnið er að því að finna viðunandi lausn á þátttöku Íslands og Noregs í Schengen-samstarfinu. Þá geta íslensk stjórnvöld ekki svarað því fyrir hönd annarra ríkja hver stefna þeirra verði í tilteknu máli við hugsanlega breyttar forsendur. Þó liggur fyrir að Danir hafa þegar fullgilt aðildarsamninginn að Schengen, sænska þingið hefur nýlega samþykkt aðildarsamning Svía og Finnar stefna að því að ljúka þingmeðferð málsins snemma í sumar.

Í þriðja lagi er spurt: ,,Hver yrði staða norrænna og/eða íslenskra ríkisborgara stæðu löndin utan Schengen í samanburði við Breta sem hafa ákveðið að halda uppi eigin vegabréfaeftirliti?``

Svarið er að staðan yrði hin sama og hjá breskum ríkisborgurum, þ.e. að ferðir til Schengen-ríkja yrðu háðar vegabréfaskyldu. Samanburður við Breta er þó ekki aðalatriði þessa máls, heldur hitt, að það var, eins og legið hefur ljóst fyrir, fyrst og fremst af einni pólitískri ástæðu að Ísland ákvað að taka þátt í Schengen-samstarfinu. Hún var að viðhalda norræna vegabréfasambandinu sem í 40 ár hefur gert Íslendingum kleift að ferðast um Norðurlönd án vegabréfaskyldu.

Það er hárrétt hjá hv. þm. þegar hann fylgdi fyrirspurn sinni úr hlaði og sagði að staðið hefði á, að því er virðist einkum og sér í lagi franska ríkinu, að lausn yrði fundin í samræmi við samninginn sem gerður var á sínum tíma, samninginn sem við Íslendingar höldum fram gagnvart Evrópusambandinu og það á að okkar mati að standa við.

Þó að það sé ekki staðfest er það einnig haft á orði að vera kunni að fleiri lönd en Frakkland eitt sé með efasemdir, enda er það þekkt í Evrópusambandinu að stundum er aðeins eitt land sem heldur uppi tileknu merki og hin halda sig til hlés á meðan. Það kann að vera andstaða hjá fleiri ríkjum en Frakklandi einu í þessu tilviki.

Ég vona, herra forseti, að þessi svör dugi við þeim fyrirspurnum sem hv. þm. hefur borið fram. Vandamálið er þó aðallega varðandi lið tvö. Það er erfitt fyrir okkur að segja til um hvað önnur Norðurlönd kunna að gera en eins og upplagið var af okkar hálfu árið 1995 var að því stefnt að menn stæðu saman, hvort sem allir yrðu með eða að einhverjir gætu ekki verið með og þá væru allir utan við. Ég þori þó ekki að fullyrða, fyrir hönd þessara þjóða, að það mundi halda.