1998-05-04 11:23:13# 122. lþ. 116.5 fundur 671. mál: #A vinnuregla Þróunarsjóðs sjávarútvegsins við úreldingu fiskvinnsluhúsa# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:23]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég minni enn og aftur á að eins og lögin voru samþykkt á Alþingi fólu þau aðeins í sér heimild til þess að veita úreldingarstyrki vegna fiskvinnsluhúsa. Þar var ekki kveðið á um skyldu eins og gilti um fiskveiðiskipin. Þess vegna verður þetta ekki borið saman. Stjórn sjóðsins hefði á grundvelli laganna getað hafnað öllum umsóknum um úreldingu á fiskvinnsluhúsum. Það var tekið skýrt fram í umræðum um þetta mál að það yrði algerlega að mati stjórnar sjóðsins hvort þessari heimild yrði beitt og þá að hve miklu leyti. Þess vegna taldi ég ekkert óeðlilegt að stjórnin setti skilyrði sem þetta þegar hún taldi eðlilegt að setja því ákveðin takmörk hvað gert yrði í þessum efnum. Ég ítreka að lögin fólu aðeins í sér heimild en enga skyldu og stjórn sjóðsins hefði getað hafnað öllum umsóknum um úreldingu fiskvinnsluhúsa.