Kennsla í grunnskólum

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 11:35:27 (6120)

1998-05-04 11:35:27# 122. lþ. 116.6 fundur 512. mál: #A kennsla í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:35]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans. Ég verð þó að segja að það veldur mér vonbrigðum að hann telji sig ekki geta beitt sér meira til að tryggja að nemendur í grunnskólum njóti í reynd jafnréttis til náms. Það er alveg ljóst að endurmenntun kemur ekki til góða þeim kennurum sem ekki hafa grunnmenntun og þessi mikla fjölgun sem er fyrirhuguð og er nú þegar orðin á störfum kennara verður ekki leyst með því að slaka á kröfum til kennara eins og nú er verið að gera í frv. um lögverndun á starfsheiti kennara sem á að fara að afgreiða.

Hæstv. menntmrh. fer með yfirstjórn málefna grunnskólans og hefur eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli skyldur sínar samkvæmt lögum og reglugerðum. Ábyrgðin er því hans og þeirra sem fara með yfirstjórn menntamála á því að nemendur í grunnskóla skuli ekki allir sitja við sama borð í grunnskólanum og njóti kennslu menntaðra kennara. Jafnrétti til náms er því ekki tryggt meðan þessu fer fram.

Það er því afar brýnt að leitað verði allra leiða til að laða að og halda í hæfa og vel menntaða kennara við alla grunnskóla, ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu. Kennaraskortur er mestur og viðvarandi á landsbyggðinni. Sveitarstjórnir bera þarna vissulega ábyrgð en það gerir einnig hæstv. menntmrh. sem samkvæmt lögum fer með yfirstjórn málefna grunnskólans. Þessi vandi er ekki nýr, hann var fyrir hendi áður en grunnskólinn fluttist til sveitarfélaganna. Lág laun kennara er uppsafnað vandamál til margra ára og þeir fjármunir sem fluttir voru með grunnskólanum til sveitarfélaganna hvergi nægir til að leysa þetta mál.

En eins og ég sagði áðan þá er sérstaklega athyglisvert að í lögverndarlögunum er ekkert getið um menntun sérkennara og hér kemur fram að þeir eru svo til ómenntaðir, hafa ekki kennararéttindi í miklum mæli og það virðist ekkert eiga að leysa þau mál öðruvísi en að slaka á kröfunum. Þannig að mér virðist sem það sé leið hæstv. menntmrh. til að koma til móts við þessa fjölgun kennara að slaka á kröfum. Það er mjög miður en þetta er í samræmi við áðurnefnt frv. sem liggur fyrir þinginu en það er þvert á vilja kennaramenntunarstofnana að slaka á menntunarkröfum til kennara.