Kennsla í grunnskólum

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 11:37:58 (6121)

1998-05-04 11:37:58# 122. lþ. 116.6 fundur 512. mál: #A kennsla í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:37]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það er alrangt að verið sé að slaka á kröfum. Og það er alrangt að menntmrh. vilji ekki axla þá ábyrgð sem hann ber í þessu efni. Við höfum verið að bæta kennaramenntunina, efla Kennaraháskóla Íslands. Við erum að færa þroskaþjálfanámið og leikskólakennaranámið upp á háskólastig og gera þá betur hæfa líka til að sinna þeim verkefnum sem um er að ræða í sérkennslunni. Það er verið að gera stórátak í að efla kennaramenntunina í landinu og ná því markmiði sem menn settu sér með lögverndunarlögunum. En mönnum var líka ljóst þegar þau lög voru sett, að það yrði að hafa þá leið sem mælt er fyrir um í lögunum til þess að fylla kennarastöður þótt ekki sé um réttindakennara að ræða. Það er alveg lögum samkvæmt. Það eru engin önnur úrræði sem menntmrh. hefur en þau sem Alþingi veitir honum með þeim lögum. Þeim ákvæðum hefur verið beitt í samræmi við reglur sem settar hafa verið þannig að það er alveg ljóst að menntmrh. sinnir þessu í samræmi við fyrirmæli frá Alþingi. Bæði hefur hann skyldur sínar samkvæmt grunnskólalögunum og einnig hefur verið komið á laggirnar því kerfi sem gerir kleift að ráða leiðbeinendur til starfa í grunnskólum, hvort heldur til almennrar kennslu eða til sérkennslu. Lögin gera ráð fyrir þessu, það eru þau fyrirmæli sem Alþingi hefur gefið menntmrh. og það umboð sem Alþingi hefur veitt ráðherranum. Samkvæmt því hefur verið starfað og ég ítreka að 82,8% af starfsmönnunum eru réttindakennarar og það er hátt hlutfall, en auðvitað eigum við að stefna að því að það verði 100%. Við eigum einnig að stefna að því að þeir sem sinna sérkennslu hafi sem besta menntun. Þetta er sameiginlegt markmið okkar og að því er unnið. Ég tel að stigin hafi verið markverð skref í þá átt á þessum vetri með því að stofna Kennaraháskóla Íslands og færa nám þroskaþjálfa og leikskólakennara upp á háskólastig. Þannig að það er unnið að þessu og markmiðið er skýrt, að allir nemendur njóti leiðsagnar frá kennurum með full réttindi, hvort sem um sérkennslu eða almenna kennslu er að ræða.