Geðheilbrigðismál barna og unglinga

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 11:51:29 (6125)

1998-05-04 11:51:29# 122. lþ. 116.7 fundur 525. mál: #A geðheilbrigðismál barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:51]

Fyrirspyrjandi (Ásta B. Þorsteinsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svör hennar. Þar upplýsti hún að nefnd sem starfar að mótun heildstæðrar stefnu í geðheilbrigðismálum barna og ungmenna fari senn að ljúka störfum. Við fáum þá innan skamms að sjá niðurstöður af þeirri vinnu.

Heilbrrh. hæstv. sagði einnig að hugmyndir væru um að koma á sameiginlegri greiningarstöð fyrir börn með geðræn vandamál. Þá langar mig til þess að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort þetta eigi að vera ein greiningarstöð á landsvísu eða hvort að hugsunin sé kannski sú að þjónusta við landsbyggðina verði efld í þessum efnum sem og annarri heilbrigðisþjónustu. Hvert sækja börn frá landsbyggðinni eftir geðlæknisþjónustu? Til Akureyrar, nefndi hæstv. ráðherra, en að öðru leyti sér maður ekki að önnur úrræði séu í boði en hér í höfuðborginni þurfi börnin á því að halda.

Ég vil aðeins ítreka spurningu mína frá því áðan varðandi það að fagfólk hefur ítrekað bent á þörfina fyrir bráðastofnun eða lokaða meðferðarstofnun fyrir börn og ungmenn svo hægt sé að taka á bráðum vanda. Ég spurði hæstv. heilbrrh. hvort hún deildi þessari skoðun fagmannanna og hvort hún teldi að þörf væri á að koma slíkri stofnun á laggirnar. Ef svo er, hyggst hún beita sér fyrir því að svo verði?

Í svari við fyrirspurn minni fyrr í vetur, þar sem ég beindi þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh. hvort hún teldi að það væri heppileg lausn að veita börnum og ungmennum meðferð vegna vímuefnanotkunar á stofnunum sem eru sniðnar að þörfum fullorðinna, sagði hæstv. heilbrrh. að hún teldi það ekki vera góða lausn. Því spyr ég aftur: Telur hæstv. heilbrrh. það koma til greina að fjölga sérstaklega meðferðarúrræðum fyrir börn hér í höfuðborginni þar sem er hægt væri að veita þeim viðunandi meðferð vegna vímuefnavanda og geðræns vanda, sem miðuð væri við aldur þeirra?