Innheimta komugjalda heilsugæslustöðva

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 11:56:13 (6127)

1998-05-04 11:56:13# 122. lþ. 116.8 fundur 662. mál: #A innheimta komugjalda heilsugæslustöðva# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:56]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Á Alþingi hef ég, ásamt þingmönnum Alþb. og óháðra, flutt frumvörp þess efnis að komugjöld á heilsugæslustöðvar verði afnumin. Fyrir þessu höfum við fært margvísleg rök. Í umræðu um þetta efni hef ég vísað til þess að athuganir hafi sýnt að lág komugjöld svari ekki kostnaði. Fyrirferðin við skrifræðið er slík og tilkostnaðurinn sem þessu tengist. Séu gjöld og skattar á sjúklinga hins vegar hærri, þá fælir það fólk frá þessari þjónustu og grefur undan jafnrétti í landinu þar sem tekjulágt fólk mundi fyrst og fremst fælast frá því að nýta sér heilbrigðisþjónustuna.

Staðreyndin er sú að tilraunir til að gera samband sjúklings við heilsugæsluna að viðskiptasambandi eru mjög varhugaverðar og slæmar hvernig sem á málin er litið. Um þverbak keyrir þegar farið er að innheimta gjöld í heilsugæslunni með aðstoð innheimtulögfræðinga eins og dæmi eru um. Ég hef undir höndum innheimtubréf frá lögfræðingum þar sem verið er að innheimta komugjöld á heilsugæslustöð frá árinu 1994. Höfuðstóllinn var 600 kr. en þegar þetta er búið að fara í gegnum vinnslu hjá innheimtulögfræðingum þá hljóðar reikningurinn nú upp á 7.646 kr.

Spurning mín til hæstv. heilbrrh. er þessi: Er fyrir því heimild, af hálfu ráðherra, að setja vangreidd komugjöld heilsugæslustöðva í innheimtu hjá lögfræðingum?