Svör ráðherra við fyrirspurn

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:05:08 (6132)

1998-05-04 12:05:08# 122. lþ. 116.93 fundur 341#B svör ráðherra við fyrirspurn# (um fundarstjórn), KHG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:05]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er ekki hægt að láta hjá líða að bregðast við málflutningi hæstv. ráðherra áðan í svari við fyrirspurn. Ráðherra hefur lýst úr ræðustóli Alþingis, löggjafarstofnunar Íslendinga, að stjórnendur heilsugæslustöðva eigi ekki að fara að lögum. Það eru skýr ákvæði í lögum þess efnis að þeim beri að innheimta komugjöld og 2.000 manns hefur verið sendur innheimtureikningur frá lögfræðingi til að rukka þessi gjöld. Hæstv. ráðherra kemur og segir að stjórnendur stofnananna eigi að meta hversu langt þeir gangi í að innheimta þessi gjöld og þeir eigi að líta á aðstæður þeirra sem eiga að borga. Ég veit ekki til þess, hæstv. forseti, að þetta samræmist lagatextanum og ég hlýt að vekja athygli á því, herra forseti, sem er nú í málsvari fyrir hæstv. Alþingi, löggjafarþingið, að ekki er hægt að láta óátalið þegar ráðherra í ríkisstjórn Íslands hvetur menn til lögbrota. Ef ráðherra hefur ekki pólitískt þrek til að framfylgja ólögum sínum og Sjálfstfl. á ráðherra að leggja til að lögin verði afnumin.