Rannsóknarnefnd sjóslysa

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:48:36 (6149)

1998-05-04 12:48:36# 122. lþ. 116.12 fundur 587. mál: #A rannsóknarnefnd sjóslysa# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:48]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Varðandi fyrri lið fyrirspurnarinnar: ,,Hvenær er að vænta niðurstöðu rannsóknarnefndar sjóslysa um orsakir þess að Æsa ÍS 87 fórst?``

Ég geri mér vonir um að svar geti legið fyrir fyrir miðjan júní eða um miðjan júní.

Í öðru lagi er spurt: ,,Hvers vegna hefur í tvígang verið skipt um formann nefndarinnar í þeirri rannsókn?``

Ástæðan er sú í fyrsta lagi að með nýjum stjórnsýslulögum og nýjum vinnubrögðum var talið rétt að skrifstofustjóri í samgrn., Ragnhildur Hjaltadóttir, segði lausu starfi formanns rannsóknarnefndar sjóslysa vegna þess að hún hafði verið skipuð formaður siglingaráðs. Var hún sjálf á þeirri skoðun og taldi tvímælalasut rétt að gera það. Síðan hefur komið í ljós að ýmislegt í máli Æsu, rannsókn þess og áhrærandi það mál sem veldur því að ég sem samgrh. hef komið beint að málinu, m.a. fyrst í sambandi við myndatöku af flakinu og síðan í sambandi við samningsgerð um köfun niður að flakinu og í sambandi við tillögugerð um það hvernig að rannsókn málsins skuli staðið í ríkisstjórn.

Af þeim sökum og vegna þess að það hefur líka komið fram að hugsanlegt er að til málarekstrar kunni að koma vegna þessa máls taldi ég rétt að formaður sjóslysanefndar, rannsóknarnefndar sjóslysa, viki sæti í málinu vegna skyldleika við mig en í þess stað yrði annar skipaður, Jónatan Sveinsson hrl., sem ég tel mjög hæfan til þessara verka vegna reynslu sinnar og menntunar, en ef ég man rétt þá er hann með stýrimannspróf og er reyndur sjómaður. Ég tel því að þarna sé vel að verki staðið.

Það kom fram hjá hv. þm. að hann telur að formannaskiptin hafi tafið fyrir niðurstöðu nefndarinnar. Ég hygg að það sé ekki rétt. Það er reynt að fylgja því eftir að ná öllum þeim gögnum sem nauðsynleg eru talin til þess að hægt sé að skila niðurstöðu um orsakir slyssins.

Ég geri mér vonir um að síðustu upplýsingar geti borist sjóslysanefnd á næstu dögum eða allra næstu vikum. Ef það tekst ekki hlýtur nefndin að taka afstöðu til þess. Eins og ég sagði hef ég lagt áherslu á það, og formaður sjóslysanefndar er því sammála, að nauðsynlegt sé að nefndin reyni að skila áliti eigi síðar en um miðjan næsta mánuð. Auðvitað er mikilvægt að álitið geti komið eins fljótt og kostur er en ég veit að hv. þm. er sammála mér líka um að nauðsynlegt sé að eins vel sé til niðurstöðunnar vandað og nokkur kostur er. Oft er það í máli eins og þessu að svar við einni spurningu vekur aðrar tvær.