Stöðugleiki og öryggisbúnaður skipa

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:19:27 (6159)

1998-05-04 13:19:27# 122. lþ. 116.14 fundur 590. mál: #A stöðugleiki og öryggisbúnaður skipa# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:19]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem mér finnst út af fyrir sig ekki vera mjög tæmandi. Þau náðu einungis yfir svarið við fyrstu spurningunni sem er um það hversu mörg skip eru ekki með haffærisskírteini, og kemur fram í svari hæstv. ráðherra að þau séu þrjú.

Ástæðan fyrir því að svör geti ekki verið nákvæmari en efni standa til segir hæstv. ráðherra að sé vegna þess að mikið verk sé að ná fram svörum við þeim spurningum.

Herra forseti. Ég hef aðeins skoðað þetta mál og eins og ég sagði áðan við hæstv. forsrh. þá eru af 20 björgunarbátum sem eru hér við landið víðs vegar aðeins þrír, herra ráðherra, ef hann vildi gjöra svo vel og hlusta, sem hafa haffærisskírteini. Ég er með plögg sem sýna að þessir bátar eru 17 en samkvæmt svari hæstv. ráðherra eru aðeins þrjú skip í öllum flotanum sem ekki standast kröfur eða hafa ekki haffærisskírteini. Ég er með upplýsingar um 17.

Ég geri athugasemdir við þetta, herra forseti, (Gripið fram í: Eru það björgunarbátar?) Það eru björgunarbátar sem falla undir reglur um haffæri skipa á nákvæmlega sama hátt og önnur skip að sjálfsögðu, enda eru þau hugsuð til þess að bjarga sjómönnum við öll hugsanleg veðurskilyrði og eiga því að vera með þann búnað sem bestur er og öruggastur og skoðuð náttúrlega árlega svo hægt sé að treysta því að þarna sé á ferðinni það besta sem hægt er að fá fyrir okkar sjómenn til að bjarga þeim úr vá.

Ég ítreka því spurningar mínar, herra forseti, til hæstv. ráðherra og álít að svörin séu ekki fullnægjandi og það hljóti að koma viðbótarsvör við þeim þó síðar verði.