Stöðugleiki og öryggisbúnaður skipa

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:21:44 (6160)

1998-05-04 13:21:44# 122. lþ. 116.14 fundur 590. mál: #A stöðugleiki og öryggisbúnaður skipa# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:21]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það kom skýrt fram í svari mínu áðan að ég var að tala um fiskiskip, enda var það átaksverkefni sem ég vísaði til um fiskiskip. Í því svari sem ég hef hér frá Siglingastofnun er það svo.

Ég hygg að sú skýrsla Siglingastofnunar sem vísað er til hafi verið um fiskiskip og hér er sérstaklega vísað til þeirra í 1. lið fyrirspurnarinnar.

Önnur spurningin orðast svo: ,,Hve mörg skip eru með haffærisskírteini en hafa fengið athugasemdir við öryggisbúnað?`` Ég hygg að flest skip í flotanum hafi einhvern tíma fengið athugasemdir vegna öryggisbúnaðar. Ég hygg að það sé mjög mikið verk að fletta öllum gögnum Siglingastofnunar aftur í tímann til að ná því fram hvaða skip hafi fengið athugasemdir vegna öryggisbúnaðar. Ég hygg að það séu flest skip.

Í þriðja lagi er spurt: ,,Hve mörg skip eru með athugasemdir í haffærisskírteini á fresti?`` Um það sagði ég áðan og vil endurtaka að verið er að vinna að því að samræma upplýsingar innan Siglingastofnunar. Það er mjög mikið verk að fara yfir slíkt áður en það hefur verið tölvuvætt en ég fullvissa hv. þm. um það að unnið er að því skipulega og eins hratt og kostur er að ná utan um þessi mál með þeim hætti að hægt sé að leita eftir upplýsingum eins og þessum jafnharðan. En innan þess frests sem er til þess að svara fyrirspurnum er ógjörningur að veita upplýsingar af þessu tagi áður en gögnin hafa verið tölvuvædd. Það er um þetta að segja.